132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[11:49]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (frh.):

Virðulegi forseti. Mér er sérstakur heiður að því að fá að tala saman tvær árstíðir. Ég talaði út veturinn í fyrradag fram yfir miðnætti þegar virðulegur forseti gerði hlé á þingfundi þangað til núna í dag og held ég því glaður áfram í sumarbyrjun með ræðu mína um Ríkisútvarpið hf.

Ég ætla aðeins að fara yfir helstu drættina í ræðu minni þar sem ég var staddur síðast. Ég sagði þar að leiða mætti rök að því að frumvarpið Ríkisútvarpið hf. væri með einhverjum hætti áhlaup á einkarekna ljósvakamiðla á Íslandi. Íslenskur ljósvakamarkaður er ákaflega takmarkaður að stærð og umfangi og kakan er mjög lítil í sjálfu sér. Öflugur ríkismiðill með gífurlegri meðgjöf frá hinu opinbera í formi afnotagjalda — nefskatts ef þetta frumvarp nær fram að ganga, sem verður vonandi ekki — sem er orðinn að hlutafélagi, sem gerir hann mun straumlínulagaðri í samkeppninni við einkareknu miðlana, verður bókstaflega áhlaup á einkareknu ljósvakamiðlana sem hafa að sjálfsögðu átt mjög erfitt uppdráttar á því tæplega 21 ári sem þeir hafa verið starfandi á Íslandi.

Ég finn margt annað að þessu vonda frumvarpi, þessu klasturslega, fljótfærnislega og illa ígrundaða frumvarpi sem er ekkert annað en pólitískt sáttarof um Ríkisútvarpið, rof á sátt sem hefur haldist meira og minna um tilveru og grundvallaratriði í rekstri RÚV allt frá því að það hóf göngu sína fyrsta eiginlega rekstrardaginn 21. desember árið 1930. Ríkisútvarpið hóf göngu sína formlega daginn áður, 20. desember 1930, og ég rakti í fyrri hluta ræðu minnar síðasta vetrardag aðdragandann að stofnun Ríkisútvarpsins þegar H.f. Útvarp fékk sérleyfi frá Alþingi til að starfa og var undanfari Ríkisútvarpsins. H.f. Útvarp hét það og starfaði með gloppum í þrjú ár þangað til það fór í þrot mestmegnis vegna ónógs og óviðunandi rekstrargrundvallar.

Þá kallaði ég mjög eftir því í ræðu minni á síðasta vetrardag hvar Framsóknarflokkurinn væri við þessa 2. umr. um Ríkisútvarpið hf. Hér er kominn í sal einn góður framsóknarmaður, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, og fagna ég því mjög, og hér í morgun hitti ég fullt af framsóknarmönnum, bæði á fundi menntamálanefndar og hérna frammi í matsal, og ég efast ekkert um að þeir eru að hlusta. Ég fann það á þeim nokkrum að áeggjan mín síðasta vetrardag um að þeir kæmu hér og væru við umræðuna og tilvitnun mín í Jónas frá Hriflu og fleiri framsóknarhetjur þegar verið var að stofna og búa til Ríkisútvarpið — það var stjórn Tryggva Þórhallssonar sem hleypti því af stokkunum, stjórnin sem var kosin 1927 þannig að Framsóknarflokknum er málið skylt. Ég tengi það sérstaklega því að fyrir ári var flutt á Alþingi Íslendinga mikill bastarður sem hét Ríkisútvarpið sf. og það var málamiðlun á milli ríkisstjórnarflokkanna, málamiðlun á milli Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, sölumanna Ríkisútvarpsins í Sjálfstæðisflokknum en nokkrir þeirra eru á sérstöku frumvarpi um að selja Ríkisútvarpið. Málamiðlun á milli sölumanna Ríkisútvarpsins í Sjálfstæðisflokknum og framsóknarmanna sem hafa alltaf talað fyrir því að Ríkisútvarpið verði áfram ríkisútvarp og verði ekki einkavætt eða selt og alls ekki gert að hlutafélagi.

Málamiðlun náðist í fyrra og í þinginu leit ljós bastarðurinn Ríkisútvarpið sf. sem var illa unnið og óboðlegt mál og hraktist út úr þinginu og endaði á ruslahaugum ríkisstjórnarinnar við þinglok í fyrra og ekkert varð úr. Málið kom svo aftur inn sem Ríkisútvarpið hf. í vetur litlu betra og tíðindin fólust kannski fyrst og fremst í því að Framsóknarflokkurinn var búinn að gefa eftir. Undansláttur Framsóknarflokksins í málefnum Ríkisútvarpsins var hafinn af fullum krafti og flokkurinn var búinn að fallast á þá kröfu Sjálfstæðisflokksins að Ríkisútvarpið skyldi gert að hlutafélagi. Ég spurði þingheim á miðvikudaginn, síðasta vetrardag, hverju þetta sætti. Við því fékk ég engin svör og ég óskaði sérstaklega eftir því að formaður Framsóknarflokksins, varaformaður Framsóknarflokksins eða þingflokksformaður Framsóknarflokksins yrðu við umræðuna og tækju þátt í henni og svöruðu minni einföldu spurningu: Af hverju er í lagi núna, 2006, að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi sem kom ekki til greina árið 2005? Þess vegna lýsi ég eftir Framsóknarflokknum. Ég skora á Framsóknarflokkinn að koma hér og taka þátt í 2. umr. um Ríkisútvarpið hf. en það hafa þeir ekki gert.

Sölumenn Ríkisútvarpsins úr Sjálfstæðisflokknum hafa hins vegar tekið þátt í umræðunni. Þeir hafa látið svo lítið að koma hér upp og reyna að sannfæra þingheim og þjóð um að nú eigi að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag en ekki eigi að selja það. Ríkisútvarpið eigi að vera í varanlegri eigu ríkisins sem hlutafélag. Sömu mennirnir, hv. þingmenn Sigurður Kári Kristjánsson, Birgir Ármannsson og Pétur H. Blöndal, eru á sama tíma með mál í þinginu um að selja Ríkisútvarpið. Þar leggja þeir það að jöfnu að ríkið reki ljósvakamiðil og að ríkið reki tímarit eða að ríkið reki ríkisdagblaðið, hugmynd sem hefur verið hlegin út af borðinu árum saman. Þeir leggja að líkum, sölumenn Ríkisútvarpsins úr Sjálfstæðisflokknum, fáránleika þess, þann skopleik sem það er að þeirra mati, að ríkið reki fjölmiðil á ljósvakasviði og að ríkið reki dagblað. Nú koma þessir sömu menn, þessir ágætu þingmenn, hingað upp og reyna að sannfæra þingheim og þjóð um afstöðu sína. Þeim finnist vissulega að það eigi að selja Ríkisútvarpið en þeir ætli samt ekki að selja það og þeir séu ekki að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag af því að þeir ætli að selja það heldur af því að þá gangi Ríkisútvarpinu betur að keppa við einkareknu ljósvakamiðlana.

Förum þá aðeins yfir á hinn vænginn, væng einkareknu ljósvakamiðlanna. Hvernig gengur þeim? Þeim hefur gengið nokkuð illa á síðustu árum. Stöð 2, Bylgjan, Stjarnan, Útvarpsstöðin og margir aðrir eftirminnilegir og skemmtilegir fjölmiðlar hófu göngu sína árið 1985 þegar einkaleyfi ríkisins á ljósvakamiðlum var afnumið. Síðan þá hefur gengið á ýmsu og frumkvöðlarnir fóru klárlega margir hverjir mjög illa út úr því eins og oft gerist. Hinum einkareknu miðlum hefur gengið nokkuð erfiðlega að fóta sig á fjölmiðlamarkaði einfaldlega af því að hann er smár og á honum ríkir grimm samkeppni. Við hljótum að þurfa að skoða það ofan í kjölinn að Ríkisútvarp, með það forskot sem felst í meðgjöf hins opinbera, sé nú gert að hlutafélagi þannig að því gangi enn betur að keppa við einkareknu miðlana, hvort sem við köllum það markaðsstöðvar eða einkarekna miðla. Þá spyrjum við: Af hverju Ríkisútvarp? Það er ekki sjálfsagt að ríkið reki fjölmiðil. Það er ekki sjálfsagt að ríkið reki ljósvakamiðla frekar en að ríkið reki dagblað ef það er illa gert eða með einhverjum óskilgreindum og furðulegum hætti í bullandi samkeppni á markaðslegum forsendum við markaðsmiðlana. Ég tel að markaðsmiðlarnir eigi að fá rými á markaði til að blómstra og lifa og keppa við Ríkisútvarpið og veita okkur neytendum fjölmiðla á Íslandi þá þjónustu sem nútíminn kallar eftir. Þeir eiga að miðla upplýsingum, fréttum og fjölbreyttu skemmtilegu efni og Ríkisútvarpið á síðan að fylla upp í rammann með því að miðla fyrst og fremst efni sem við getum ekki gert kröfur um að einkareknu miðlarnir miðli.

Ég tel að ríkið eigi að halda úti fjölmiðli. Ég tel að ríkið eigi að halda úti ljósvakamiðli sem sinnir mjög afmörkuðu og skilgreindu hlutverki. Ég tel að ríkið eigi að halda úti fjölmiðli sem sinnir öflugri fréttaþjónustu eins og Ríkisútvarpið gerir með miklum sóma. Ríkisútvarpið hefur á að skipa mörgum ákaflega færum fréttamönnum og fréttaþjónustan þar er góð. Hún hefur staðið undir væntingum og hún er ein helsta réttlæting fyrir tilveru Ríkisútvarpsins að mínu mati. Þó að einkareknir miðlar, NFS, 365 miðlar, reki einnig mjög öfluga og góða fréttaþjónustu þá verður þar skemmtileg samkeppni og út úr því koma öflugar og góðar fréttastofur í sjónvarpi og síðar Fréttastofa Ríkisútvarpsins sem er ákaflega góð fréttastofa. En auk þessa á Ríkisútvarpið að sinna samfélagslegu hlutverki, menningarlegu hlutverki, öryggishlutverki og því að halda úti óháðri hlutlausri fréttaþjónustu af samfélagi okkar.

Til að samfélag okkar sé lýðræðislegt, gagnsætt og gott á ríkið að halda úti ljósvakamiðlum. Það eru rökin. Til að gæta sanngirni og réttlætis gagnvart einkareknu ljósvakamiðlunum á að mínu mati að skilyrða umfang innlendrar dagskrárgerðar í rekstri Ríkisútvarpsins, það á að takmarka umfang Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði, takmarka það verulega. Umfang Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði er líklega yfir 30%, 32–34%, og ef við tökum ljósvakamiðlana út úr, auglýsingamarkaðinn þar, þá er það líklega yfir helmingur. Þetta er of hátt hlutfall og gefur einkareknum fjölmiðlum ekki svigrúm til að eflast og gefur þeim ekki rekstrarlegt svigrúm við hliðina af því að markaðurinn er svo lítill.

Öðru máli gegndi kannski ef fjölmennari þjóð byggi eyjuna Ísland. En meira að segja Bretar fara þessa leið með BBC, þ.e. að takmarka verulega og jafnvel banna auglýsingar á ákveðnum rásum. Ég tel að auglýsendur eigi að hafa aðgang að Ríkisútvarpinu. Ég tel það nauðsynlegt. Auglýsendur eiga erindi við almenning og almenningur þarf að hafa aðgengi að upplýsingum frá auglýsendum. Það er ekkert ómerkilegur áróður sem frá þeim dynur. Það eru líka nauðsynlegar upplýsingar um allt milli himins og jarðar sem snerta hið daglega líf.

Ég tel að takmarka eigi umfang Ríkisútvarpsins á auglýsinga- og kostunarmarkaði töluvert mikið og gæta þannig sanngirni varanlega gagnvart einkareknu ljósvakamiðlunum, burt séð frá því hver á þá og rekur í dag, algjörlega burt séð frá óbeit margra sjálfstæðismanna á Baugi eða eigendum 365 miðla, algjörlega óháð því ofstæki sem hefur oft gætt hjá mörgum sjálfstæðismönnum gagnvart þeim sem reka og eiga fyrirtækið Baug og miðlana sem það á og rekur að hluta til. Sú óbeit rak að mínu mati Sjálfstæðisflokkinn til þeirrar ófremdargjörðar sem fjölmiðlafrumvörpin voru fyrir tveimur árum síðan og þau enduðu svo í ruslafötunni eftir ákaflega hraksmánarlega útreið ríkisstjórnarinnar í sölum Alþingis. Síðan hafa fjölmiðlamálin verið ríkisstjórn Íslands ákaflega óþægur ljár í þúfu og nú er boðað nýtt fjölmiðlafrumvarp. En samt þarf endilega að samþykkja lög um Ríkisútvarpið hf. án þess að fyrst sé búið að setja boðuð heildarlög um fjölmiðla. Þetta er skrípaleikur. Þetta er farsi, þetta er fáránlegt. Það er hægt að leiða að því líkur að fyrst og fremst sé verið að drífa þetta mál áfram til að hæstv. menntamálaráðherra nái einhverju máli fram á þeim tveimur og hálfa ári sem hún hefur setið í menntamálaráðuneytinu, en þaðan hefur nú ekki mikið komið.

En nú skal ná stóru máli fram og þá skal nútímavæða Ríkisútvarpið. En það klastur sem fyrir þinginu liggur og veldur þeim löngu og hörðu pólitísku deilum sem nú standa yfir í þingsölum og svo fjarri fer að sjái fyrir endann á er til komið af því að málið kom vanbúið frá menntamálaráðherra. Hæstv. menntamálaráðherra mistókst með málefni Ríkisútvarpsins. Hæstv. menntamálaráðherra er búin að rjúfa pólitíska sátt um Ríkisútvarpið með þessu máli. Það eitt og sér og út af fyrir sig er hörmulegur pólitískur atburður af því að þegar lög um Ríkisútvarpið voru sett á Alþingi árið 1929 ... (Gripið fram í: ... komið í verk.) Komið litlu í verk. Ég kem að því síðar. Þá erum við að tala um hæstv. menntamálaráðherra. Helst því að einkavæða tækninámið þannig að það kosti tækninema nokkur hundruð þúsund að þreyta það nám og þeir eigi ekki kost á því í opinberum skóla. Það er nú hæsti minnisvarði hæstv. menntamálaráðherra hingað til.

En aftur (Gripið fram í: Lítið í blöðunum.) að Ríkisútvarpinu. Ríkisútvarpið var stofnað með lögum frá Alþingi, þegar lögin voru sett, þegar H.f. Útvarp hafði farið í þrot sem hér hafði starfað sem einkarekið útvarp. Það var fyrsta útvarpið sem hóf göngu sína hér formlega árið 1926 einungis tíu árum eftir að vísindamaður hafði í fyrsta sinn útvarpað í Bandaríkjunum í tilraunaútsendingu í tilefni af bandarísku forsetakosningunum árið 1916. Einungis níu árum eftir það voru hafnar tilraunaútsendingar á Íslandi og einungis ári síðar höfðu framsýnir frumkvöðlar hafið útvarpsrekstur á Íslandi með útvarpsstöðinni H.f. Útvarpi sem Magnús Guðmundsson ráðherra talaði fyrstur manna í í mars árið 1926. Ég rakti það nokkuð ítarlega í ræðu minni af því þá var ég að draga fram af hverju við rekum ríkisútvarp. Það er stóra spurningin. Af hverju rekum við ríkisútvarp? Af hverju verjum við þúsundum milljóna af skatti almennings til fjölmiðlareksturs? Það er ekkert sjálfgefið mál. Þeim peningum þarf að verja vel og þess vegna er það fyrsta spurningin sem við hljótum að spyrja og kalla eftir svörum við áður en ég spyr Framsóknarflokkinn aftur að því af hverju nú megi hlutafélagavæða Ríkisútvarpið þegar það var algjört skilyrði af þeirra hálfu, pólitískt prinsipp af þeirra hálfu, að það yrði að vera sjálfseignarstofnun í eigu ríkisins eða sameignarfélag eða eitthvað slíkt en alls ekki hlutafélag.

Nú er Framsóknarflokkurinn horfinn, bæði úr þingsölum og í skoðanakönnunum, og frá honum hefur ekkert heyrst í þessu máli, ekki frekar en öðrum undanslætti Framsóknarflokksins gagnvart Sjálfstæðisflokknum. Þeir hljóta að koma í dag og svara fyrir undansláttinn og ræfildóminn gagnvart Sjálfstæðisflokknum í öllum málum, í mörgum stórum málum. Við hljótum að kalla eftir því að framsóknarmenn geri grein fyrir afstöðu sinni í dag. Þeir sáust ekki í þingsölum síðasta vetrardag, á miðvikudaginn, þegar 2. umr. hófst eftir páskahlé um Ríkisútvarpið hf. Ég hlýt að nota þetta tækifæri til að skora á Framsóknarflokkinn að standa a.m.k. fyrir máli sínu og útskýra fyrir þingi og þjóð af hverju það er í lagi núna að Ríkisútvarpið verði gert að hlutafélagi. Á að selja það? Eru þeir algerlega sannfærðir um að Sjálfstæðisflokkurinn sé heill í því þó að sölumenn hans í málefnum Ríkisútvarpsins segi nú að þeir vilji ekkert endilega selja, alla vega ekki strax, og núverandi ríkisstjórn ætli ekki að selja útvarpið. Það er ár eftir af kjörtímabilinu.

Að mínu mati er þetta skref sjálfstæðismanna í átt að því að selja Ríkisútvarpið. Það er pólitísk vissa mín, sérstaklega út frá því að nokkrir af öflugustu og mest áberandi þingmönnum sjálfstæðismanna í mörgum málum, eins og byggðamálum, frjálshyggjuuppreisninni í byggðamálum á dögunum var leidd af sömu mönnum. Þetta eru hægri mennirnir í Sjálfstæðisflokknum, þetta eru erfðaprinsarnir í flokknum. Þeir vilja selja Ríkisútvarpið algjörlega refjalaust.

En aftur að Framsóknarflokknum. Ég verð að fá svör við því frá framsóknarmönnum í fyrsta lagi af hverju þeir telji að við eigum að reka áfram ríkisútvarp og í öðru lagi af hverju þeir telja það réttlætanlegt núna, sem ekki kom til greina af þeirra hálfu fyrir 12 mánuðum, að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi. Hvað breyttist? Var eitthvað selt? Er þetta gjald fyrir eitthvað annað í ríkisstjórnarsamstarfinu? Er þetta framlenging á forsætisráðherradómi Halldórs Ásgrímssonar? Hvað er í gangi? Af hverju er í lagi að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi núna þegar það kom ekki til greina fyrir nokkrum mánuðum síðan? Ég skora á Framsóknarflokkinn að svara þessum spurningum á Alþingi í dag og næstu daga vegna þess að því fer fjarri að við sjáum fyrir endann á umræðu um Ríkisútvarpið hf.

Aðeins um rekstrarformið áður en ég kem frekar að tilgangi Ríkisútvarpsins. Það að Ríkisútvarpið eigi að vera hlutafélag í eigu ríkisins gerir það að einhvers konar tveggja heima bastarði. Þetta er vond breyting að mínu mati, algjörlega fráleit breyting. Að sjálfsögðu á að gera Ríkisútvarpið að sjálfseignarstofnun ef ekki er lengur þörf á að það verði stofnun í eigu ríkisins. Tveggja heima bastarður með vopn í höndum til að ganga milli bols og höfuðs á viðkvæmum rekstri einkareknu ljósvakamiðlanna er hörmulegur minnisvarði, hæstv. menntamálaráðherra.

Síðan á að dylja áskriftarsjónvarpið fyrir notendum, fyrir þjóðinni sem borgar, fyrir skattgreiðendum, með því að leggja af afnotagjaldskerfið og taka upp nefskatt, sem ég held að sé versta leiðin sem var í boði til að fjármagna Ríkisútvarpið, versta leiðin sem var í boði gagnvart fjárhagslegu sjálfstæði stofnunarinnar. Ég held að það væri betri leið að setja Ríkisútvarpið á fjárlög og ég held það væri betri leið að hafa afnotagjaldskerfið áfram frekar en að fara nefskattsleiðina. Ég held að það verði miklu betra að hafa afnotagjaldskerfið áfram, sem er líklega sú leið sem tryggir best fjárhagslegt sjálfstæði Ríkisútvarpsins og sjálfstæði þess gagnvart hinu pólitíska valdi eftir því hvernig það er skipað hverju sinni.

Ég held að versta leiðin sé að breyta opinberri fjármögnun á Ríkisútvarpinu í nefskatt sem er algjörlega fráleit leið að mínu mati. Þá væri betra að hafa gömlu afnotagjöldin sem víðast hvar er sátt um og eru víðast hvar viðhöfð, en hefur verið erfitt að viðhalda sátt um hér á landi af því þau eru svo há vegna þess að þjóðin er fámenn. Í Bretlandi eru afnotagjöldin hjá BBC miklu lægri, fólk finnur ekki eins fyrir þeim og um þau er ekki deilt eins og hér. Nefskattur þar sem erfitt er að jafna eftir því hvernig stendur á hjá heimilunum er hörmuleg fjáröflunarleið fyrir Ríkisútvarpið og er enn eitt sem gerir það að verkum að sáttin um það til framtíðar mun rofna. Ég tel að með þessu frumvarpi sé Sjálfstæðisflokkurinn að rjúfa pólitísku sáttina um Ríkisútvarpið og varða veginn fram á við sem er að þeirra mati að selja Ríkisútvarpið og einkavæða það.

Ég er sannfærður um að Sjálfstæðisflokkurinn hefur það að markmiði, a.m.k. margir þingmanna hans, að einkavæða og selja Ríkisútvarpið og það sáttarof sem hér er uppi í málefnum Ríkisútvarpsins er örugglega liður í þeirri þróun að spyrja af hverju sé ekki alveg eins gott að selja það.

Talandi um hlutverk Ríkisútvarpsins og til að svara spurningunni: Af hverju ríkisútvarp? Það hlýtur fyrst og fremst að eiga að hafa það hlutverk að sinna því sem aðrir fjölmiðlar sinna ekki, að sinna því sem einkareknu fjölmiðlarnir sinna ekki, svo sem öflugri fréttaþjónustu, samfélagslega tengdu efni, menningarlega tengdu efni, öryggishlutverki og því að stuðla að framleiðslu á vönduðu innlendu sjónvarpsefni. Ég tel að Ríkisútvarpið eigi að framleiða sem minnst af því sjálft. Það á að framleiða af sjálfstæðum kvikmyndaframleiðendum úti í bæ. Það er mikil þekking og mikil kunnátta í samfélaginu og þar hefur skapast góður jarðvegur fyrir að framleiða framúrskarandi íslenskt sjónvarpsefni. Það vantar hins vegar fjármagn, það vantar hvatann. Ég tel að Ríkisútvarpið eigi fyrst og fremst að sinna því hlutverki, fyrir utan fréttaþjónustuna, menningarlega hlutverkið og öryggishlutverkið, að stuðla að og sýna innlent dagskrárefni, auðvitað í bland við vandað fyrsta flokks erlent efni eins og sjónvarpið og Ríkisútvarpið gerir að miklu leyti, af því að RÚV er að mörgu leyti frábær fjölmiðill, það vantar ekki. Þar er fullt af ákaflega góðu og hæfu starfsfólki og þar innan dyra er mikil þekking. Um þetta eigum við að standa vörð. Við eigum að standa vörð um það góða sem þar er gert og skilgreina hlutverk Ríkisútvarpsins sem almannaútvarps til framtíðar, afgreiða þannig hver vilji hinna pólitísku afla er, hver vilji löggjafans og framkvæmdarvaldsins er, og veita því síðan sjálfstæði og frelsi til að sinna því hlutverki.

Til dæmis má lesa út úr frumvarpinu, sem kveður á um að það skuli halda úti a.m.k. einni hljóðvarpsrás, að það eigi að selja Rás 2. Ég held að Rás 2 sé mjög gott dæmi um tilverurétt Ríkisútvarpsins. Rás 2 sinnir hlutverki sem einkareknar útvarpsstöðvar sinna í allt of litlum mæli, sem er að spila, leika og miðla og þar með hvetja til framleiðslu á innlendri popptónlist. Rás 2 hefur staðið sig frábærlega í þessu hlutverki. Þessa þróun hafa leitt á liðnum árum einstaklingar eins og Ólafur Páll Gunnarsson, Andrea Jónsdóttir, Guðni Már, Magnús Einarsson og margir fleiri frábærir útvarpsmenn sem verður til þess að Rás 2 heldur úti mjög fínni dagskrá í miðlun á innlendri popptónlist, auk þess að vera með mjög vandaða og skemmtilega dagskrárgerð um það sem er að gerast í erlendri popptónlist líka, tónlist sem er ekki endilega mikið spiluð og er ekki á vinsældalistunum, þættir eins og Rokkland á Rás 2, hjá Ólafi Páli. Þetta eru frábærir þættir og Rás 2 á að halda úti. Hún er gott dæmi um hlutverk og tilgang Ríkisútvarpsins, sem er að sinna menningarlegu, innlendu hlutverki sem aðrir gera ekki. Ég held að Rás 1 sé að gera það að miklu leyti líka. Hún er að miðla efni sem einkastöðvarnar sinna ekki í miklum mæli.

Þetta á að skilgreina og það er algert grundvallaratriði og á að vera meginþátturinn og inntakið í þessu frumvarpi, af því að inntakið skiptir mestu máli þó að rekstrarformið geri það líka, sérstaklega út af þeirri tortryggni sem er uppi í garð Sjálfstæðisflokksins í þessum málum. Ég treysti Sjálfstæðisflokknum varla í nokkru máli og alls ekki í þessu máli. Ég held að það sé metnaðarmál hjá mörgum af öflugustu stjórnmálamönnum sjálfstæðismanna að selja Ríkisútvarpið.

Ég tel að það eigi ekki að stíga það skref, enda ætla ég að fara aðeins yfir það á eftir og vitna í umsögn umboðsmanns neytenda sem er mjög góð að þessu leyti og fjallar um það hvers vegna setja eigi samfélagslegan rekstur sem er ekki í ágóðaskyni eða hagnaðarskyni inn í hlutafélag. Þetta er þversögn sem gengur ekki upp. Undir þetta tekur ritstjóri Fréttablaðsins, Þorsteinn Pálsson, og hefur fært mjög öflug rök fyrir því að það sé einfaldlega fráleit ráðstöfun að setja samfélagslegt þjónustufyrirtæki eins og ríkisútvarp inn í hlutafélag þar sem um er að ræða meðferð á gífurlega miklum skattfjármunum. Það stendur ekki steinn yfir steini í röksemdafærslu hvorki sjálfstæðismanna né framsóknarmanna af því þeir hafa ekki rökstutt það. Af hverju hlutafélag? Af hverju þarf að hlutfélagavæða stofnunina? Bara af því að það er einhvers konar pólitískt æði í Sjálfstæðisflokknum fyrir því að hlutafélagavæða allt á milli himins og jarðar án þess að það sé eitthvert samræmi í því. Sumt er ágætt að hlutafélagavæða en annað er einfaldlega fráleitt, eins og Ríkisútvarpið.

Skilgreiningin á hlutverki útvarpsins í frumvarpinu er því einfaldlega allt of víð. Útvarpið samkvæmt henni á og getur keppt við einkareknu miðlana um allt milli himins og jarðar á öllum sviðum en ekki er verið að sníða því þann stakk sem á að gera að mínu mati. Frumvarpinu og frumvarpshöfundi, hæstv. menntamálaráðherra, bregst bogalistin í öllum meginatriðum hvað frumvarpið varðar, þar með talið umfang á auglýsingamarkaði, hlutfall af innlendu dagskrárefni í dagskrárgerð, rekstrarformið, fjáröflun, fjárhagslegt sjálfstæði og það hvernig útvarpið er fjármagnað. Frumvarpshöfundi bregst algjörlega bogalistin þegar kemur að skilgreiningu á hlutverki RÚV og sérstaklega því að gera útvarpið að hlutafélagi, einkanlega þegar ekki eru í gildi lög um hlutafélög í opinberri eigu hvað varðar upplýsingagildi og fleira sem það varðar, sem er algjört grundvallaratriði.

Þessi feluleikur hvað varðar áskriftarsjónvarpið, þetta dulda áskriftarsjónvarp í formi nefskatts er einfaldlega skrípaleikur sem gengur ekki upp og ég er sannfærður um að nefskattur er versta leiðin. Hún er framhald á pólitísku kverkataki stjórnarflokkanna á Ríkisútvarpinu. Um leið og við felum stofnuninni nýtt hlutverk til langrar framtíðar, svo hún megi dafna hér sem mest megi á sínu afmarkaða sviði, þá er verið að viðhalda hinu pólitíska kverkataki á útvarpinu með nefskattinum og því hvernig stjórnarflokkarnir ætla sér að kjósa í hina nýju stjórn. Pólitískt kverkatak er framlengt áfram. Þá þarf að sjálfsögðu að tryggja sérstaklega sjálfstæði fréttastjóra fréttastofanna beggja gagnvart mjög valdamiklum útvarpsstjóra sem verður með frumvarpi þessu. Þá skipta að sjálfsögðu engu máli einstakar persónur og einstakir leikendur sem nú eru á sviðinu um tíma. Við erum að tala um þetta óháð persónum og leikendum og þeim prýðilega og grandvara manni sem nú er útvarpsstjóri, það skiptir ekki máli. Við erum að tala um þetta óháð persónum. En verið er að fela útvarpsstjóra gífurleg völd innan stofnunarinnar til að reka fólk og að sjálfsögðu til að ráða fólk og reka sjónvarpið og stofnunina og þess vegna þarf að tryggja mjög vel sjálfstæði fréttastofanna, sjálfstæði fréttastjóra gagnvart valdamiklum útvarpsstjóra, og að sjálfsögðu síðan fréttamanna gagnvart sínum ritstjóra.

Oft hefur verið talað um að tæknin mundi eyðileggja afnotagjöldin, tæknin mundi granda afnotagjöldunum. Þess vegna yrðum við að fara aðrar leiðir, taka upp nefskatt, setja útvarpið á fjárlög eða finna aðrar leiðir til að fjármagna það með opinberu fé. Því fer hins vegar víðs fjarri, eins og bent var á í meðförum menntamálanefndar, að svo hafi farið. Tæknin hefur ekki eyðilagt afnotagjöldin. Þess vegna tel ég að það sé miklu vænlegri leið að viðhalda afnotagjöldunum frekar en að taka upp nefskatt, sem mér finnst versta hugsanlega leiðin til að fjármagna Ríkisútvarpið. Mér finnst það vond leið að öllu leyti. Verið er að dylja áskriftarsjónvarpið og verið er að viðhalda pólitísku kverkataki á Ríkisútvarpinu. Afnotagjöldin eru sjálfstæður gjaldstofn sem er að mörgu leyti mjög mikilvægur og ágætur en hann fer hins vegar mjög í taugarnar á mörgum greiðendum og sérstaklega þegar verið er að reyna að komast að því hvort fólk sé með viðtæki o.s.frv.

Ég ætla aðeins að vitna í umsögn frá umboðsmanni neytenda sem mér þótti prýðileg og sérstaklega þar sem umboðsmaðurinn er að fjalla um rekstrarformið. Það gerir hann nokkuð skilmerkilega í sinni ágætu umsögn, ég kem að því á eftir. Ég vitnaði líka í umsögn frá 365 miðlum í fyrri hluta ræðu minnar síðasta vetrardag þar sem fullyrt var að frumvarp um Ríkisútvarpið hf. væri hrein og klár pólitísk atlaga stjórnarflokkanna að einkareknum ljósvakamiðlum. Ég ætla ekki að fullyrða um það, það eru ansi stór orð, ég ætla samt að koma inn á það á eftir í máli mínu og vitna meira til þeirrar ágætu umsagnar sem kom fram frá 365 miðlum og er undirrituð af Ara Edwald forstjóra 365 miðla, fyrrverandi aðstoðarmanni ráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins. Þetta eru þung orð og áhrifamikil þegar þau koma úr þeirri átt.

Umboðsmaður neytenda telur það sérdeilis fráleita leið að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi þegar það hefði átt að gera það að sjálfseignarstofnun, eins og hann færir mjög máttug og öflug rök að að gera skuli, vegna þess að með því að gera það að hlutafélagi náist engin markmið fram ef markmiðið er ekki að selja Ríkisútvarpið. Ef markmiðið er ekki að selja útvarpið eða hluta þess sé þetta ekki vænleg leið eða fær sem eigi að fara til að tryggja útvarpinu góðan rekstrargrundvöll til framtíðar, af því að ef maður á annað borð vill halda út ríkisútvarpi er sjálfsagt mál að finna því þann besta búning sem völ er á. Ég kem að því á eftir sérstaklega. — Ég finn ekki akkúrat eins og stendur umsögn umboðsmanns neytenda, ég fæ hana sjálfsagt í hendur á eftir, einhvers staðar liggur hún.

Ég held að mjög mikilvægt sé að við greinum svolítið þessar hörðu ásakanir sem t.d. koma fram í umsögn frá 365 ljósvakamiðlum til menntamálanefndar og er undirrituð af Ara Edwald forstjóra 365 miðla þar sem hann segir, með leyfi forseta:

„Þótt þetta frumvarp sé eingöngu samið út frá hagsmunum RÚV hefur lögfesting þess áhrif á allan fjölmiðlamarkaðinn og langt út fyrir þetta eina fyrirtæki. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir áframhaldandi fjáraustri af almannafé til eins fyrirtækis sem á í samkeppni við einkafyrirtæki í nákvæmlega sömu starfsemi. Slíkt skekkir samkeppnisstöðu með ýmsum hætti, t.d. bæði á auglýsingamarkaði og við innkaup á erlendu afþreyingarefni. Er það vafalaust rétt sem útvarpsstjóri kemur inn á í grein í Morgunblaðinu 19. janúar sl. að núverandi dagskrá má framleiða með hagkvæmari hætti en nú er gert. Það mun fría upp mikla fjármuni sem RÚV getur beitt í samkeppni við einkafyrirtæki sem þurfa að standa á eigin fótum.“

Síðan kemur, með leyfi forseta, sú setning sem vakti mikla athygli í nefndinni og mikla athygli mína:

„Þessi atlaga að heilbrigðum rekstrargrundvelli fjölmiðlafyrirtækja er án efa mikil hindrun í vegi fyrir aukinni fjölbreytni í íslenskri fjölmiðlun.“

Þó að þetta komi frá hagsmunaaðila eru þetta þung orð og hljóta að verðskulda ítarlega umræðu á Alþingi. Ef það er svo að frumvarpið um Ríkisútvarpið hf. sé atlaga að rekstri einkarekinna fjölmiðla er það grafalvarlegt mál, sérstaklega þar sem það getur ekki verið pólitískur tilgangur að búa svo um hnúta að leggja eigi í atlögu gagnvart viðkvæmum fjölmiðlarekstri á einkamarkaði, ef það eru afleiðingarnar af frumvarpinu um Ríkisútvarpið hf. (HHj: Það er eini tilgangurinn.) — og kannski eini tilgangurinn, kallar hv. þm. Helgi Hjörvar fram í — þá er það grafalvarlegt mál ef þetta er atlaga númer tvö að rekstri einkarekinna fjölmiðla. Ef atlaga númer eitt var áhlaup ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar á sínum tíma að rekstri frjálsrar fjölmiðlunar á Íslandi í formi fjölmiðlafrumvarpanna hér um árið, er þetta atlaga númer tvö og nú í gegnum Ríkisútvarpið, til að efla Ríkisútvarpið gífurlega en veikja um leið einkareknu fjölmiðlana að sama skapi og síðan að selja Ríkisútvarpið. Ef þetta er pólitískur tilgangur, pólitískt markmið og sá pólitíski veruleiki sem við hrærumst í er það grafalvarlegt mál og það er þetta sem ég ætlaði að ræða sérstaklega við Framsóknarflokkinn hérna í dag. (Gripið fram í.)

Hvar er Framsóknarflokkurinn? Fyrir um þremur korterum lýsti ég eftir Framsóknarflokknum við umræður um þetta mál hér í dag. Enginn þeirra lét sjá sig í umræðum um málið síðasta vetrardag, á miðvikudag. Einn framsóknarmaður var á mælendaskrá, hv. þm. Jónína Bjartmarz, sem sat hér um hríð á miðvikudagseftirmiðdag í forsetastól, var á undan mér á mælendaskrá. Yfir því varð ég mjög glaður. Þá gæti ég hlýtt á ræðu — kemur hv. þm. Dagný Jónsdóttir í salinn og mun hún vonandi og örugglega svara öllum mínum spurningum — en í fyrradag ætlaði ég að hlýða á ræðu hv. þm. Jónínu Bjartmarz, fara í andsvör, spyrja hana út úr einmitt þeim spurningum hvort það gæti verið sem haldið væri fram að frumvarpið um Ríkisútvarpið hf. væri pólitísk atlaga ríkisstjórnarinnar að einkareknum fjölmiðlum í landinu. Þessu er haldið blákalt fram af þeim sem í hlut eiga. Og af hverju ættu þeir að halda því fram ef ekkert væri á bak við það annað en kapphlaup við annan miðil um rekstrarform? Þessir menn eru bara að kalla eftir heilbrigðum reglum. Þeir sem reka einkareknu miðlana vilja ekki fá neina meðgjöf frá ríkinu, þeir vilja fá heilbrigðar og heiðarlegar leikreglur í öll tækifæri á við aðra miðla, einkarekna og ríkisrekna, til að keppa á samkeppnisgrunni. Af því að það er nú svo að með því að setja lög um Ríkisútvarpið hf. með þeirri pólitísku meðgjöf sem tvö þúsund og eitthvað milljónir eru á ári, er að sjálfsögðu verið að skekkja hlutina, það er frávik frá heilbrigðum samkeppnisreglum í samfélaginu.

Það getur vel verið að það sé pólitísk ákvörðun okkar að sætta okkur við að um verði að ræða frávik frá heilbrigðum samkeppnisreglum í samfélaginu með þeim hætti að Ríkisútvarpið keppi auk hinnar pólitísku meðgjafar í formi skattpeninga almennings í formi nefskatts nú en afnotagjalda áður, keppi þannig frjálst og takmarkalaust á auglýsingamarkaði við einkareknu miðlana, þá er það auðvitað mjög mikið frávik frá heilbrigðri samkeppni í samfélaginu. Að mínu mati er ekki hægt að sætta sig við að þetta frávik sé eins og það er núna. Þess vegna vil ég ekki gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi, heldur sjálfseignarstofnun. Þess vegna vil ég takmarka mjög umfang Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði á einhverju árabili, það þarf ekki að gerast einn, tveir og þrír, fara úr 32–33% af auglýsingamarkaði niður í 20%, kannski á tíu árum. Leiðirnar eru færar, þær eru til staðar, við þurfum ekki að gera þetta núna. En þetta á að vera pólitíska markmiðið, auk þess að skilgreina skýrt hlutverk útvarpsins, skilyrða umfang af innlendu efni í dagskrá o.s.frv. Þessi þunga ásökun kemur frá 365 ljósvakamiðlum, undirrituð af Ara Edwald, og þar er þetta kallað atlaga. Þar er þetta atlaga að heilbrigðum rekstrargrundvelli fjölmiðlafyrirtækja og mikil hindrun fyrir aukinni fjölbreytni í íslenskri fjölmiðlun. Grafalvarlegt mál og þeir hljóta að ætla að svara þessu, þeir sem við félagshyggjumenn höfum þó helst getað litið til sem okkar fulltrúa í ríkisstjórn Íslands, framsóknarmennirnir, sem fyrir ári sögðu að það kæmi aldrei til greina að Ríkisútvarpið yrði gert að hlutafélagi.

Nú er það hins vegar veruleiki að fram er komið stjórnarfrumvarp þar sem lagt er til að Ríkisútvarpið verði hlutafélag án þess að hlutverkið sé skilgreint upp á nýtt, án þess að umfang stofnunarinnar, fjölmiðilsins hf. væntanlega á auglýsingamarkaði sé sett og án þess að hlutur af innlendri dagskrá í dagskrám miðlanna sé sett. Þess vegna spyr ég þessara spurninga: Af hverju eigum við að sætta okkur við þetta frávik frá heilbrigðum samkeppnisreglum í samfélaginu? Er þetta frávik ekki allt of mikið? Og ef það er hrein og klár ógnun við rekstur á einkareknum ljósvakamiðlum í landinu er einfaldlega ekki hægt að halda þessari vegferð áfram? Þá verðum við að staldra við og skoða hvert við ætlum að fara með þessu frumvarpi.

Auðvitað á að nútímavæða rekstur Ríkisútvarpsins, auðvitað á að finna því hlutverk til framtíðar. Ég vil halda úti ríkisútvarpi sem hefur skýrt skilgreint hlutverk og fer á kostum þar sem það á að fara á kostum, eins og það gerir að miklu leyti, og er í öðru en því að keppa við einkarekna ljósvakamiðla með miklu forskoti sem væri jafnvel hægt að segja að væri gífurlegt forskot á þeim litla markaði sem við hrærumst í, með rúmlega 2.000 milljónir á ári í meðgjöf frá ríkinu í samkeppni við einkarekna ljósvakamiðla. Ég spyr þeirrar spurningar — og hún er nátengd og órofa tengd spurningunni sem ég spurði áðan og hef svarað fyrir mitt leyti, af hverju ríkisútvarp? Fyrst svörum við henni og síðan þessari: Hvernig er sanngjarnast að koma því fyrir á fjölmiðlamarkaði þannig að frjáls fjölmiðlun fái einnig þrifist á vegum einkaaðila á íslenskum fjölmiðlamarkaði? Það er mjög mikilvægt og það er jafnmikilvægt og ríkisútvarp.

Ríkisútvarpið á að vera vörður um öfluga, hlutlausa fréttaþjónustu. Ríkisútvarpið á að vera vörður um ákveðið öryggishlutverk, menningarþjónustu, samfélagslega þjónustu, miðlun á efni og upplýsingum sem ekki endilega og ekki er hægt að gera kröfu um að einkareknu miðlarnir sinni með sama hætti þó að þeir sinni henni oft líka. Það má alls ekki tala svo að einkareknu miðlarnir séu á einhverju flikkflakki með ómerkilegt efni sem nái engu máli. Þeir bera fram frábært efni, þar er framleitt mikið af íslensku efni og að sjálfsögðu verulegt flóð af hvers konar umræðuefni, á NFS og ýmsum fleiri stöðvum. En við erum að tala um framleiðslu á innlendu leiknu efni, okkur vantar slíkt efni og það er það sem ég kalla eftir líka um leið og við skilgreinum hlutverk útvarpsins upp á nýtt eins og ég hef komið hér inn á.

Ég geri sérstaklega að umræðuefni í dag, eins og ég gerði síðasta vetrardag, þá ásökun, má segja, eða fullyrðingu forstjóra 365 miðla, Ara Edwalds, um að Ríkisútvarpið hf. sé atlaga að frjálsri ljósvakamiðlun í landinu. Ég ætla ekki að fullyrða að svo sé, en það má draga þá ályktun og spyrja Framsóknarflokkinn og að sjálfsögðu Sjálfstæðisflokkinn, sem ég tel að sé ekki á annarri vegferð en þeirri að selja Ríkisútvarpið, það hafa engin önnur rök komið fyrir því af hverju það eigi að vera hlutafélag: Ef Framsóknarflokkurinn vill ekki selja Ríkisútvarpið, hann hefur margsagt það og við skulum bara gefa okkur að svo sé, af hverju gaf flokkurinn þá eftir? Af hverju sló hann af við Sjálfstæðisflokkinn? Af hverju gerði hann það? Hvernig ætlar hann að tryggja þetta? Er það líka mat framsóknarmanna að í Ríkisútvarpinu hf. geti falist atlaga eða stórkostleg ógnun við stöðu einkarekinna ljósvakamiðla á Íslandi? Þetta eru stórar spurningar sem ég bíð í ofvæni eftir að heyra framsóknarmenn svara í umræðunni í dag, í andsvörum. Ég er alveg viss um að hægt væri að liðka til fyrir því að þeir komist að, þeir hafa verið eins og jójó upp og niður mælendaskrána, þeir fáu sem ætluðu að tala. Ég veit ekki hvort hv. þm. Jónína Bjartmarz hvarf af mælendaskrá en hún var í marga daga eða margar vikur fyrir ofan mig þar en húrraði niður stigann með hv. þm. Birgi Ármannssyni sem var líka fyrir ofan mig.

Við þurfum að fá svör við þessum spurningum og við eigum að ræða hver sé tilgangurinn með rekstri ríkisútvarps. Hvert má frávikið frá heilbrigðum samkeppnisreglum á fjölmiðlamarkaði vera í samfélaginu í formi meðgjafar og ýmissa annarra forréttinda frá hinu opinbera sem hinir fjölmiðlarnir njóta ekki? Við þurfum að viðhalda pólitískri sátt um Ríkisútvarpið. Það er mjög mikilvægt að mínu mati og það stóð upp úr þegar ég fór fyrir nokkrum dögum síðan, og tæpti aðeins á í þinginu í fyrradag, í gegnum þá pólitík sem lá undir og að baki stofnunar Ríkisútvarpsins. Þá var það vilji manna sem komu fullkomlega sitt úr hverri áttinni pólitískt, úr fylkingum sem voru gráar fyrir járnum og barist var út um víðan heim um þessar stefnur. Það voru kommúnistar, jafnaðarmenn, sósíalistar, hægri menn og framsóknarmenn sem deildu hart í sínum blöðum sem þá háðu miklar orrustur á blaðamarkaði hér á landi. Þetta var 11 eða 12 árum eftir að Framsóknarflokkur og Alþýðuflokkur voru stofnaðir. Þarna var Sjálfstæðisflokkurinn að verða til með samruna Íhalds- og Frjálslynda flokksins. Þarna var flokkakerfið okkar, litrófið frá hægri til vinstri, að taka á sig mynd. En pólitísk sátt skyldi ríkja um Ríkisútvarpið. Því skyldi haldið utan við hinar pólitísku deilur, það skyldi ekki farast í eldi hinna pólitísku dægurdeilna. Um þetta stóðu frumkvöðlarnir vörð alveg þangað til núverandi hæstv. menntamálaráðherra kemur fram með illa ígrundað, grunnhyggið og vanhugsað frumvarp um Ríkisútvarpið hf. og rýfur þá pólitísku sátt sem ríkt hefur um Ríkisútvarpið. Þetta frumvarp er sáttarof, atlaga að einkarekinni fjölmiðlun segja margir, og má halda fram með réttu, sérstaklega í ljósi stjórnmálasögunnar, og tengja það við atlöguna sem fjölmiðlafrumvarpið var að einkareknum ljósvakamiðlum á þeim tíma og sem öll sú dapurlega saga þáverandi ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, síðan Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, hefur verið á sviði fjölmiðlunar og lagasetningar um fjölmiðla.

Nú boðar hæstv. menntamálaráðherra nýtt fjölmiðlafrumvarp sem þó hefur ekki komið hér í þingsali en samt á fyrst að setja ný lög um Ríkisútvarpið þó að boðað frumvarp sé rétt handan við hornið. Að sjálfsögðu hefði átt að bíða með að setja sérstök lög um Ríkisútvarpið þangað til hitt væri komið fram, af því að stærð Ríkisútvarpsins á fjölmiðlamarkaðnum er svo mikil, það er svo stór hluti af fjölmiðlamarkaðnum að það verður aldrei skilið þar frá og aldrei sett vitleg lög um fjölmiðla nema Ríkisútvarpið liggi þar algjörlega til grundvallar.

En aðeins frá umsögn 365 ljósvakamiðla og ásökun þeirra og ýmissa annarra um það að frumvarp Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks um Ríkisútvarpið hf. sé atlaga að frjálsri fjölmiðlun í landinu, ásökun sem við verðum að fara í gegnum af því að hún á sér stoð í raunveruleikanum. Hvort sem hún er að fullu rétt eða ekki er þetta atlaga númer tvö að rekstri frjálsra fjölmiðla á ljósvakamarkaði í einkaeigu og að sjálfsögðu hefur hún áhrif á alla fjölmiðlun í landinu, upp úr og niður úr.

Í umsögn frá talsmanni neytenda, því glögga, skemmtilega og nytsama embætti sem fyrir ekki svo löngu var stofnað, sem Gísli Tryggvason skrifar undir, kemur ýmislegt skemmtilegt og athyglisvert fram, sérstaklega í ljósi þeirrar umræðu sem nú stendur yfir. Þar segir talsmaður í umsögn sinni og ég ætla fyrst að vitna örlítið í hana áður en ég legg út af henni og spyr Framsóknarflokkinn sérstaklega fleiri spurninga út úr þeirri umsögn sem tengist þó sömu málum, sem er undansláttur Framsóknar gagnvart Sjálfstæðisflokknum varðandi rekstrarform RÚV, af því að ég skil ekki þann undanslátt. Ég hef haft samúð með Framsóknarflokknum og hef alltaf séð fyrir mér að þessir jafnaðarmanna- og félagshyggjuflokkar væru eiginlegir bandamenn í ríkisstjórn þegar búið væri að koma Sjálfstæðisflokknum í varanlega og langa stjórnarandstöðu. Þess vegna skil ég ekki undansláttinn. Þess vegna skil ég ekki af hverju fulltrúar hinna félagslegu viðhorfa á ríkisstjórnarheimilinu gefa eftir á þessu sviði. Það er ekki bara það að mig langi til að vekja einhverja sérstaka athygli á því til að gera Framsóknarflokkinn ótrúverðugan. Mér var hins vegar krossbrugðið þegar ég uppgötvaði að Framsóknarflokkurinn hefði gefið eftir í þessu mikilvæga grundvallarmáli sem tekur til þess að við búum í lýðræðislegu, opnu og gagnsæju nútímasamfélagi, af því að þar gegnir ríkisútvarp svo veigamiklu hlutverki og skiptir svo miklu máli. Þess vegna var ég svo hryggur yfir þessari eftirgjöf, þessu undanhaldi Framsóknarflokksins sem hlýtur nú að vera að snúast upp í einhvers konar martröð sé allt tekið saman sem á bak við það hraða undanhald undan einkavæðingaræðinu sem runnið er á Sjálfstæðisflokkinn einmitt þessa dagana þar sem engu á að eira og ekkert á að skilja eftir. Það er með ólíkindum.

Ég trúi ekki að Framsóknarflokkurinn ætli ekki að standa í lappirnar, ætli ekki hreinlega að láta brjóta á þessu máli og skipta aðeins um pólitískan gír, þó ekki væri nema til að bjarga pólitísku lífi flokksins, en um hana verður væntanlega kosið eftir ár. (Gripið fram í.) Já, það væri það að mörgu leyti, af því að þau félagslegu og ágætu sjónarmið sem hann hefur staðið fyrir til sjávar og sveita í næstum 90 ár — hann verður 90 ára á þessu ári, ég man ekki hvaða dag hann var stofnaður en Alþýðuflokkurinn var stofnaður 12. mars 1916, Framsókn líklega í september. — Kinkar nú hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason kolli og færist bros yfir andlit hans þegar hann hugsar til baka, (Gripið fram í.) til þeirra félagshyggjumanna sem fóru fyrir flokknum hans þá og hann hugsar ábyggilega hlýlega til í dag þegar flokkurinn er einhvern veginn að sogast inn í svarthol Sjálfstæðisflokksins þar sem engu er eirt.

Sjálfstæðisflokkurinn stendur ágætlega þá plikt. Um það dylst engum hugur að þar er á ferðinni einhver blanda af íhalds- og hægri flokki þar sem hægri sjónarmiðin eru að ryðja sér mjög til rúms núna á einu ári eftir að Davíð Oddsson fór í Seðlabankann. Eftir að Davíð Oddsson fór er eins og eitthvað hafi brostið í flokknum. Einkavæðingarsinnar á öllum sviðum vaða uppi og virðist ein afleiðingin af þeirri uppivöðslustarfsemi vera sú að tortíma Framsóknarflokknum, af því að auðvitað ferst hann í bálinu. Auðvitað verður úti um Framsókn í þessu einkavæðingaræði. Það er ár til kosninga og það er eins og að kaupa þurfi friðinn á stjórnarheimilinu svo dýru verði að gefið sé eftir alls staðar og í öllum málum og yfir því er ég einfaldlega hryggur. Það hryggir mig pólitískt að svo sé komið fyrir félagshyggjuflokknum, sem t.d. hefur átt mjög gott samstarf við önnur félagsleg stjórnmálaöfl í Reykjavík í 12 ár, í 12 ára býsna glæsilegu stjórnarsamstarfi Reykjavíkurlistans í Reykjavík þar sem þessir flokkar unnu mjög vel saman. Ég sá alltaf fyrir mér sama munstur í landspólitíkinni, að félagsleg stjórnmálaöfl mundu taka höndum saman og koma Sjálfstæðisflokknum í ákaflega langa stjórnarandstöðu, koma Sjálfstæðisflokknum frá völdum, binda endi á einkavæðingarvitleysuna og reisa við samfélagsleg sjónarmið í stjórnmálunum, að Íslandi verði stjórnað út frá sjónarmiðum félagshyggju og jöfnuðar þar sem samfélagsleg sjónarmið, heilbrigðar leikreglur og jöfn tækifæri ráði ríkjum.

Ég skora á Framsóknarflokkinn að koma með okkur í þann leiðangur af því að enn er lag, það er enn þá ár til kosninga. Það eru 14 mánuðir til kosninga og ég skora á Framsóknarflokkinn að standa nú í lappirnar gagnvart Sjálfstæðisflokknum sem ætlar að einkavæða allt frá flugbrautunum til Íbúðalánasjóðs og Ríkisútvarpsins. Þessar hamfarir, þetta áhlaup að samfélagslegum rekstri í samfélaginu, sem Sjálfstæðisflokkurinn er nú að gíra sig upp í ári fyrir kosningar og virðist ætla að tortíma Framsóknarflokknum í leiðinni, af því að ég held að bakland flokksins láti ekki bjóða sér upp á það. Ég held að bakland Framsóknarflokksins hafi nánast brostið þegar ríkisstjórn Íslands og Halldór Ásgrímsson lýstu yfir stuðningi við innrásina í Írak. Ég held að þar hafi nánast brostið stuðningurinn við Framsóknarflokkinn víða um land þó að margir kjósendur séu að sjálfsögðu tryggir sínum flokki og allir flokkar eigi eitthvert grunnfylgi sem fylgir þeim næstum því hvert sem er. Það brast næstum því þegar við fórum í bandalag hinna viljugu og máttugu þjóða og fórum inn í Írak, sem var hörmulegur afleikur hjá stjórnarherrunum. Ég hélt að Framsóknarflokkurinn hefði fundið það þá og í ýmsum öðrum málum að hann hefur gengið allt of langt. Hann hefur gengið allt of langt gegn hjartanu í Framsóknarflokknum sem hætti næstum því að slá af því að flokkurinn virðist vera að þurrkast út víða um land. (Gripið fram í: Og hér í þingsalnum.) Og hér í þingsalnum líka. Þó að tveir mjög prýðilegir framsóknarmenn séu hér núna og þátttakendur í umræðunni skora ég á Framsóknarflokkinn að standa í fæturna gagnvart Sjálfstæðisflokknum, gefa ekkert eftir og koma Sjálfstæðisflokknum varanlega frá landsstjórninni á Íslandi og í ákaflega langa stjórnarandstöðu. Ég skora á framsóknarmenn að koma með okkur jafnaðarmönnum og félagshyggjumönnum í þennan leiðangur. Koma Sjálfstæðisflokknum út af stjórnarheimilinu og í langvarandi stjórnarandstöðu, koma Sjálfstæðisflokknum í varanlega stjórnarandstöðu og binda endi á það einkavæðingaræði sem er runnið á ríkisstjórnina, er runnið á Sjálfstæðisflokkinn með sölumenn sjálfstæðismanna í málefnum RÚV í fararbroddi. Þó að þeir hafi nú breitt yfir kennitöluna tímabundið til að koma þessu frumvarpi í gegn og reyni að láta líta út fyrir að tilgangurinn sé ekki að selja útvarpið, enda þótt hann sé að sjálfsögðu enginn annar hjá mönnum sem hafa flutt um það þingmál að selja eigi Ríkisútvarpið og það sé jafnfáránlegt að ríkið haldi úti ljósvakamiðli og að ríkið haldi úti dagblaði eða tímariti. Trúverðugt er það nú ekki.

Aðeins frá Framsókn og yfir í talsmann neytenda. (Gripið fram í.) Jú, jú, það tengist líka. En það er nú góður framsóknarmaður, ef hann er það.

Í upphafi umsagnar sinnar fjallar talsmaður neytenda um rekstrarform og arðsemiskröfu. Ég vil taka það fram að umsögn umboðsmanns neytenda er mjög góð umsögn, mjög vandvirknislega unnin, á fínum pappír og hún er mjög innihaldsrík. Hún tekur til grundvallarþátta í tilurð og inntaki stofnunarinnar RÚV sem við ræðum hér. Talsmaður neytenda hittir þar naglann á höfuðið. Það er auðvitað hans hlutverk að hafa skoðun og áhrif á lagasetningu um Ríkisútvarpið. Ríkisútvarpið er að sjálfsögðu eitt af mikilvægustu tækjum neytenda í íslensku samfélagi.

Með leyfi forseta, segir umboðsmaður neytenda:

„Ég tel að í greinargerð með frumvarpinu (bls. 10–11) sé ekki sýnt fram á að hagsmunum og réttindum neytenda — notenda þjónustu Ríkisútvarpsins — sé betur borgið með því að Ríkisútvarpinu sé breytt í hlutafélag í eigu ríkisins. Lít ég þá annars vegar til þess að af því virðist leiða að lög á borð við upplýsingalög, nr. 50/1996, með síðari breytingum og stjórnsýslulög, nr. 37/1993, með síðari breytingum — sem taka til „stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga“ — gildi ekki um Ríkisútvarpið; er það að mínu mati ekki til þess fallið að bæta stöðu notenda útvarpsþjónustu í almannaþágu. Hins vegar tel ég að hlutafélagsformið sé ætlað fyrir rekstur með arðsemismarkmið — en ég tel óljóst hvort arðsemi eigi samkvæmt frumvarpinu að vera tilgangur Ríkisútvarpsins framvegis.“

Óljóst, segir umboðsmaður neytenda, hvort arðsemi eigi að vera tilgangurinn samkvæmt frumvarpinu. Það er að sjálfsögðu ekki, það er ekki eitt af markmiðum frumvarpsins nema það sé dulið markmið.

Áfram segir:

„Verði sýnt fram á nauðsyn formbreytingar tel ég að hagsmunum notenda útvarpsþjónustu í almannaþágu sé betur borgið með því að Ríkisútvarpið sé sjálfseignarstofnun eins og nefnt er sem valkostur á sama stað í greinargerð með frumvarpinu. Um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur gilda lög nr. 33/1999.“

Síðar segir, virðulegi forseti, og kem ég þá að kjarna málsins:

„Sjálfseignarstofnun er að mínu mati hentugt form fyrir rekstur sem hefur almannaþjónustu sem megintilgang. Sjálfseignarstofnun hefur arðsemi ekki sem rekstrartilgang heldur rennur hugsanlegur arður af starfseminni aftur inn í reksturinn til þess að sinna markmiðinu með honum og þar með til notenda þjónustunnar. Þá er sjálfseignarstofnun með takmarkaða ábyrgð enda er hún ekki tengd neinum eigendum þar eð stofnendur skilja sig frá rekstri sjálfseignarstofnunar þegar hún er sett á fót.“

Þetta er mjög glögglega fram sett, virðulegi forseti, af því að sjálfseignarstofnunarformið hefur kannski verið svolítið fljótandi fyrir mörgum. Við ræddum það töluvert hér í þinginu í fyrravetur þegar verið var að ræða um einkavæðingu Tækniháskóla Íslands, þegar íhaldið fór að einkavæða skólakerfið, þegar enn eitt einkavæðingaræðið rann á Sjálfstæðisflokkinn og þá í skóla- og menntamálum ef við tökum þá umræðu upp hér síðar.

Í orðum talsmanns neytenda um sjálfseignarstofnanir er kjarni málsins falinn. Stofnunin yrði mjög sjálfstæð, líka frá hinu pólitíska valdi, ef tækist að sníða henni þann stakk sem þarf. Ég ætla að koma sérstaklega inn á það seinna í dag hvernig best er að koma fyrir stjórn á stofnuninni.

Aðeins lengur og áfram um umboðsmanninn af því að ég hrósa af fyllstu alvöru áliti talsmanns neytenda — (Gripið fram í.) jú, jú, flutti um það tillögur — af því að hann gerir þetta vel.

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Vikið er að því í athugasemdum með 4. gr. frumvarpsins (bls. 20) að sú krafa sé í vaxandi mæli gerð til fyrirtækja sem reka útvarp í almannaþágu að þau „skili jafnvel hagnaði.“ Einnig er í inngangi almennra athugasemda í greinargerð með frumvarpinu (bls. 7) fjallað um þann skilning Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) að taka þurfi tillit (3. tl.) til „sanngjarnrar framlegðar“ af rekstri og (4. tl.) til „sanngjarnrar arðsemiskröfu.“ Á hinn bóginn má skilja uppsetningu 3.–5. gr. frumvarpsins og ummæli í greinargerð (bls. 8) á þá lund að „starfsemi sem sé viðskiptalegs eðlis“ sé frávik frá almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins.

Ég tel að neytendur hafi hagsmuni af því að hugsanlegur viðskiptalegur arðsemistilgangur með Ríkisútvarpinu verði í meðförum Alþingis skýrður betur og afmarkaður frá almannaþjónustuhlutverkinu — m.a. vegna valkvæðs ákvæðis í 13. tl. 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins um að útvarpsþjónusta í almannaþágu feli m.a. í sér „[a]ð taka saman, gefa út og dreifa hvers konar efni, án endurgjalds eða gegn endurgjaldi, [...]“. “

Talsmaður neytenda leggst þétt gegn því að Ríkisútvarpið verði gert að hlutafélagi, leggst mjög ákveðið gegn því og færir sannfærandi og tær rök fyrir því af hverju sjálfseignarstofnunarformið henti svo vel — það er mín skoðun og reynslan hefur líka sýnt það — utan um almannaþjónustu hvers konar. Við höfum nefnilega langa hefð fyrir því í íslensku samfélagi að samfélagslegur rekstur margvíslegur, rekstur á skólum, rekstur á heilbrigðisstofnunum, menningarlegur rekstur og ýmiss konar annar rekstur sé settur í sjálfseignarstofnanir og það hefur gefist okkur einstaklega vel. Öflug samfélagsþjónusta, sjálfstæð og frjáls frá afskiptum sem hún vill vera sjálfstæð og frjáls frá. Það hentar að sjálfsögðu mjög vel að frjáls félagasamtök og einstaklingar taki sig saman og reki ýmiss konar almannaþjónustu án þess að það sé gert í hagnaðarskyni. Það er t.d. mjög heppilegt form fyrir skólarekstur ýmiss konar, grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla, að nota sjálfseignarstofnunarformið. Út úr því koma að mörgu leyti sjálfstæðar, öflugar og glæsilegar stofnanir í menntamálum, þannig að það er ekki málið.

Hefðin segir okkur og sagan kennir okkur að sjálfseignarstofnunarformið er ákjósanlegt form utan um rekstur á stofnun eins og Ríkisútvarpinu og um það er ekki einu sinni deilt hér. Það hefur ekki verið deilt um það það sem af er 2. umr. um Ríkisútvarpið hf. hvort sjálfseignarstofnunarformið sé óhentugt. Sölumennirnir í Sjálfstæðisflokknum hafa ekkert talað um það sérstaklega af hverju það kom ekki til greina. Þeir segja bara að þetta form sé enn þá betra. Það er örugglega betra ef útvarpið verður einkavætt og selt. Þá er þegar búið að gera stofnunina að hlutafélagi og einfaldari lagabreytingu þarf til að selja það. En þeim verður ekki kápan úr því klæðinu, sérstaklega ef áskorun mín til framsóknarmanna hér fyrir skömmu gengur eftir og þeir láta nú af undanslættinum, undirgefninni og lítilþægninni gagnvart sjálfstæðismönnum. Ef þeir koma nú í pólitískan leiðangur sem gæti staðið áratugum saman með okkur jafnaðarmönnum og félagshyggjufólki og taki við landstjórninni eftir næstu kosningar, komi einkavæðingarliðinu í Sjálfstæðisflokknum einfaldlega frá, sendi frjálshyggjuna þangað sem hún á heima, í varanlega stjórnarandstöðu. Þannig á hið pólitíska litróf að sjálfsögðu að vera á Íslandi og þannig ættu næstu kosningar að sjálfsögðu að ganga fram, að við mundum loksins losna við Sjálfstæðisflokkinn úr Stjórnarráðinu, að við mundum loksins senda hægri menn, senda nýfrjálshyggjuna, senda frjálshyggjuliðið allt saman í varanlega stjórnarandstöðu. Þá væri nú árangri náð og þá skiptir það ekki máli hvort á bak við samstarfið er einn flokkur, tveir eða þrír. Það skiptir máli að mynda öflugt pólitískt bakland á bak við nýtt ríkisstjórnarmynstur, rétt eins og við höfum gert í svo mörgum sveitarstjórnum með glæsilegum árangri, í Reykjavík í 12 ár, í Árborg núna í 4 ár. Mjög farsælt og gott samstarf er í bæjarstjórn Árborgar á milli Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins sem hefur gengið mjög vel.

Ég get nefnt mörg önnur dæmi. Ég held að flokkarnir séu að bjóða fram saman víða. Í Reykjanesbæ er A-listi, í Hveragerði er A-listi, í Garðabæ er sameiginlegt framboð Framsóknar, Samfylkingar og óháðra og Vestmannaeyjalisti er samstarf um óháð stjórnmálaafl ýmissa félagshyggju- og jafnaðarmanna. Mörg eru dæmin og glæsileg. Akraneslistinn, Samfylkingin núna, mjög vel heppnað samstarf félagshyggju og jafnaðarmanna um pólitískt samstarf og pólitíska stjórnun á sveitarfélögunum í anda jafnaðar, félagshyggju og samfélagslegra gilda. Það eru þessi samfélagslegu gildi, félagshyggjan og jöfnuðurinn, sem víkja þegar Sjálfstæðisflokkurinn ræður för. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn er stóri bróðir í stjórnarsamstarfinu víkja þessi grundvallarsjónarmið hvert á fætur öðru.

Ef við berum samfélagið saman við það hvernig það var þegar flokkarnir hófu vegferðina fyrir tíu, ellefu árum þá hefur mikið breyst til hins verra. Þá er ég ekki að tala um hin jákvæðu áhrif af EES-samningnum sem færði Íslendingum að mörgu leyti efnahagslega gullöld. Þau voru ekki Davíð Oddssyni, Sjálfstæðisflokki eða Framsóknarflokki að þakka. Þau voru framsýni jafnaðarmanna að þakka en það er allt annað mál.

Við eigum að slá pólitískri skjaldborg um félagsleg sjónarmið, um Ríkisútvarpið, um Íbúðalánasjóð, um félagslega þjónustu í landinu, um heilbrigðiskerfið og um menntakerfið, á milli þessara flokka og þá skiptir engu máli hvað flokkarnir heita í sjálfu sér. Flokkar um jöfnuð og félagshyggju, þau stjórnmálaöfl sem kenna sig við það, þau stjórnmálaöfl sem eru annað en Sjálfstæðisflokkurinn, sem er hægri flokkur, frjálshyggjuflokkur. Þar er eins og brostið hafi margra ára stíflur eftir að Davíð Oddsson fór. Þó að menn geti deilt um stjórnarhætti hans og pólitísk markmið í lífinu þá sat hann á þessum hægri öfgasjónarmiðum sem að mörgu leyti vaða nú uppi í Sjálfstæðisflokknum og gera það að verkum að aumingja Framsóknarflokkurinn þeytist með í þessa hörmulegu vegferð og allt á núna að einkavæða og háeffa á örskömmum tíma korteri fyrir kosningar.

Nú verður þessu að ljúka, þ.e. ekki ræðu minni, heldur vegferð framsóknar- og sjálfstæðismanna, og ég skora á þá að koma hér upp og svara þessu: Af hverju á að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi? Grunar Framsóknarflokkurinn Sjálfstæðisflokkinn ekki um græsku? Treystir hann virkilega sölumönnum Sjálfstæðisflokksins í málefnum Ríkisútvarpsins, friðardúfunum sem — nei, nei, bara breyta þessu í hf. og varanlega í eigu ríkisins. Fráleitt mál. Ég hef komið mörgum áskorunum á Framsókn á framfæri hér og beint mörgum spurningum til framsóknarmanna, bæði um framtíð Framsóknarflokksins og Ríkisútvarpsins og held áfram með ræðuna.

Ég var að fjalla um talsmann neytenda og mun nú halda því áfram.

(Forseti (DrH): Nú verður gert hlé á þessum fundi til kl. 13.30.)