132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Grunnnet Símans.

[15:12]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Rökin sem færð voru fram fyrir því í umræðunni um grunnnetið á sínum tíma að aðskilja það og selja það ekki með Símanum voru þau að þar með gæfist tækifæri til að leggja þetta grunnnet inn í öflugt félag sem stæði undir þessari þjónustu, þessari gagnaflutningaþjónustu um land allt. Þá var því haldið fram af hálfu ríkisstjórnarinnar að það stæðist ekki lög að gera það. Hafi það ekki staðist lög þá þá stenst það væntanlega ekki lög núna en ég hef ekki heyrt ráðherra halda því fram að hér væri um einhvern ólöglegan gerning að ræða, að sameina nú það sem er inni í Símanum af grunnnetinu og það sem er hjá Orkuveitu Reykjavíkur.

Ég held að það sé mikilvægt að koma í veg fyrir tvöföldun í þessu kerfi en ég tel að ríkið hefði átt að halda þessu eftir og standa þannig að málum að tryggt væri að fólk um allt land gæti notið öflugrar gagnaflutningaþjónustu í gegnum öflugt fyrirtæki á vegum ýmissa aðila.