132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

402. mál
[18:23]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég ætlaði ekki að lengja þessa umræðu. En hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson taldi að ég hefði ekki farið efnislega yfir afstöðu mína í þessu máli. Ég flutti hér í löngu máli, að því mér þótti skilmerkilega málafærslu fyrir því að ég tel að það sé röng byrjun á þessum umskiptum á högum Sinfóníuhljómsveitarinnar og Ríkisútvarpsins að byrja á því að skilja þau með þessum hætti í sundur.

Ég er þeirrar skoðunar að ef hér á að byggja upp menningarlega framsækið Ríkisútvarp þá hefðu menn átt að byrja á því að efla þessi tengsl. Þetta er sama skoðun og Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins hefur sett fram.

Að öðru leyti, frú forseti, ætla ég ekki að fjölyrða um þetta, af einskærri virðingu fyrir hæstv. samgönguráðherra sem á eftir að flytja hér mál sín og hefur beðið þolinmóður lengi dags eftir því.

En þetta var meginkjarninn í mínu máli. Hv. þingmaður virtist svo sár yfir því að ég léti að því liggja að meiri hlutinn hefði skáldað upp það sem fram fór á þessum fundum. Ég lét ekkert að því liggja. Ég sagði það hreint út og ástæðan fyrir því að ég sagði það ekki fyrr, af því hv. þingmaður innti mig eftir því, var einfaldlega sú að ég varð þess ekki áskynja fyrr en í dag þegar þingmenn úr menntamálanefnd upplýstu um framgang málsins í nefndinni, að þetta hefði átt sér stað. Ég tek það ekki jafnlétt og hv. þingmaður að menn afgreiði á einhverjum handahlaupum mikilvæg mál eins og Sinfóníuhljómsveit Íslands út úr nefnd, með þeim hætti að helft þingmanna sem eru viðstaddir gerir sér ekki grein fyrir að það hafi gerst. Það eru álíka vinnubrögð og þau að setja þingmann á nefndarálit án þess að hafa einu sinni fyrir því að spyrja hann. Það var það sem gerðist.

Það var það sem hv. þingmaður sagði að hefði gerst hér varðandi einn kollega hans úr Frjálslynda flokknum. Svo ég held að hv. þingmaður þurfi ekkert að móðgast yfir þessu. Hugsanlega voru þetta bara mistök. Gott og vel. Allir gera mistök. Jafnvel tilvonandi dýrlingar eins og þessir ungu tyrkir Sjálfstæðisflokksins.

Hitt liggur alveg ljóst fyrir að þetta er í andstöðu og stangast á við lögin um það hvernig mál eigi að fara fram. Mér væri í lófa lagið að krefjast þess af hálfu hæstv. forseta að umræða um þessi mál og afgreiðsla yrði stöðvuð þangað til það hefði fengið formlega afgreiðslu í nefndinni. En ég ætla ekkert að leggja stein í götu þessa máls sérstaklega. Ég vil bara segja að lokum að afstaða mín kom algerlega skýrt fram í þessu máli. En það hefur hins vegar aldrei komið fram nein afstaða af hálfu hv. þingmanns og formanns menntamálanefndar um það af hverju á að skilja þetta tvennt að. Né heldur hefur hann lýst viðhorfum sínum til þess hvort það sé æskilegt fyrir Ríkisútvarpið eða Sinfóníuhljómsveitina.

Það má meira að segja færa rök fyrir því frá fjárhagslegu sjónarmiði að þetta kunni að vera æskilegt fyrir Sinfóníuhljómsveitina vegna þess að ríkið mun greiða hlut Ríkisútvarpsins í rekstrinum. Ríkið mun líka þurfa greiða kannski fast að 100 millj. kr. fyrir þá þjónustu sem Sinfóníuhljómsveitin þarf að veita því. Hv. þingmaður hefur lýst hér yfir fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að þau tengsl verði áfram hin sömu. En það kostar peninga. Þannig að þegar upp er staðið þarf ríkið að greiða meira til Sinfóníuhljómsveitarinnar en áður og hún fær aukin verkefni. Þannig að það er alveg ljóst að þetta þarf ekkert að vera fjárhagslega slæmt fyrir sinfóníuna. En þetta getur orðið menningarlega erfitt fyrir almannaútvarp sem á að sinna því hlutverki að miðla tónlistarlegri arfleifð.

Það er nú bara eitt af því sem segir beinlínis í frumvarpinu um Ríkisútvarpið. Þetta er mergurinn málsins en það er eins og með flest annað í þessu máli að það er ekki hugsað til þrautar, menn láta rekast og hrekjast undan stormviðrunum og stormurinn sem geisar í málefnum þessara stofnana er fjárhagsleg meðferð Sjálfstæðisflokksins á þeim. Í 20 ár hafa ráðherrar Sjálfstæðisflokksins svelt Ríkisútvarpið og þeir hafa svelt Sinfóníuhljómsveitina. Og nú koma þeir og reyna að bjarga einhverjum málum. Og hver er björgunin? Hún felst í að það á að háeffa Ríkisútvarpið og síðan á að beita áfram þessu fjárhagssvelti til að þröngva því inn á slóð bútasölunnar. Þeir byrja á að selja Rás 2 hér með frumvarpi á næstu árum. Láta þingið standa andspænis því að hið nýja hlutafélag eigi ekki fyrir skuldum og það eigi ekki fyrir rekstri og nota þá grein frumvarpsins sem segir að það megi leggja einstaka þætti Ríkisútvarpsins í hlutafélag með öðrum. Þá leggja þeir Rás 2 inn í hlutafélag með 365-miðlum. Svo þegar menn standa andspænis blankheitunum koma þeir með frumvarp og segja: Ríkisútvarpið stendur svo illa að það verður að selja þetta hlutafélag. Það er svona sem þetta gerist.

Það er hugsanlegt að hv. þingmaður hafi ekki hugsað þetta til þrautar. Hitt er alveg ljóst að hann er ekkert ósammála því. Hann er beinlínis alinn upp í því heimatrúboði innan Sjálfstæðisflokksins að það eigi að selja Ríkisútvarpið. Hann hefur sjálfur mörgum sinnum tekið þátt í því á þingum Heimdallar og Sambands ungra sjálfstæðismanna að leggja fram og mæla fyrir tillögum um að það eigi að selja Ríkisútvarpið. Það var þess vegna sem leiðtogi lífs hans í þessum efnum kom hér í atkvæðagreiðslu í dag og sagðist samþykkja þetta frumvarp sem við afgreiddum hér í dag, gegn atkvæði mínu þó, vegna þess að hann taldi að þetta væri skref að sölu.

Það er þingmaður sem stendur ekki víðs fjarri hv. formanni menntamálanefndar sem hefur einmitt lýst nákvæmlega þessu sama í grein nýlega. Það var ég. Ég lýsti því að þetta frumvarp væri nákvæmlega það sem Pétur H. Blöndal hv. þingmaður sagði hér í dag, skref að einkavæðingu. Ekki orð um það meira.