132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands.

708. mál
[19:10]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Sú hlutafélagavæðing á þjónustustofnunum ríkisins sem hefur hertekið ríkisstjórnina er náttúrlega alveg með eindæmum. Þetta er orðin fullkomin þráhyggja.

Það hefur þó alltaf komið skýrt fram hjá þeim sem gerst þekkja til að markmið með hlutafélagi er að stofna félag um samkeppnisrekstur. Hlutirnir geta líka í sjálfu sér gengið kaupum og sölum. Ég vitna meira að segja í ágæta grein Þorsteins Pálssonar, fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, sem segir þetta einmitt um hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins. Ég held það væri hollt fyrir hæstv. samgönguráðherra að lesa sér aðeins til um hvað Þorsteinn hefur að segja um markmiðið með stofnun hlutafélaga.

Mér finnst það alveg með endemum ef fara á að einkavæða rekstur á flugvöllum vítt og breitt um landið, færa hann undir rekstrarform sem geti síðan gengið kaupum og sölum. Annað markmið með hlutafélagi er líka að geta kallað eftir arði og að fjármagnið sem í því er bundið fari sjálft að skila arði sem slíkt, ekki starfsemin. Ekki það að þeir sem njóta samgangnanna eigi að njóta góðs af því. Hingað til höfum við alltaf litið svo á að grunnþættir samgöngumannvirkja séu þjónusta við almenning og atvinnulíf í landinu, að rekstur samgöngumannvirkja eigi ekki í sjálfu sér að vera arðgefandi atvinnustarfsemi og skila arði til eigenda þess fjármagns sem í honum er bundið.

En með þessu er verið að færa samgöngur yfir í það form. Það er hitt markmiðið með hlutafélaginu.

Ég spyr. Eru framsóknarmenn virkilega sammála því að einkavæða með þessum hætti flugvelli landsins eins og hér er verið að leggja til? Ég þekki sjónarmið (Forseti hringir.) margra sjálfstæðismanna. Ég hélt reyndar að hæstv. samgönguráðherra væri ekki orðinn svona blindur af þráhyggju (Forseti hringir.) hlutafélagavæðingarinnar. En hvað segja framsóknarmenn við þessu?