132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Útskriftarvandi LSH.

[13:37]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Að mínu mati er líklega um að ræða kerfislægan galla varðandi þá þjónustu sem við bjóðum upp á fyrir aldraða. Ég tel að bæði sveitarfélögin, sem bera ábyrgð á félagsþjónustu sveitarfélaga, og ríkið, sem ber ábyrgð á heimahjúkrun, þurfi að gera betur. Upp á síðkastið, þ.e. á síðustu tveimur árum, er búið að byggja 300 ný hjúkrunarrými. Þau kosta rúma 4,5 milljarða í byggingu. Gert er ráð fyrir 15 millj. kr. á hvert rými í byggingu og reksturinn á þessum rýmum kostar 1,5 milljarða á ári, þ.e. 5,5 millj. kr. á hvert rými á ári. Það er því búið að byggja verulega upp að undanförnu. Líklega erum við þó með fólk í of dýrum úrræðum sem henta ekki heldur vegna mannlegra sjónarmiða. Það er að sjálfsögðu ekki hentugt að veikir eldri borgarar séu á sjúkrahúsi ef þeir geta verið í hjúkrunarrými. Það er ekki hentugt, hvorki fjárhagslega né af mannúðarsjónarmiðum. Það er heldur ekki hentugt að hafa á hjúkrunarheimilum eldri borgara sem gætu verið heima en rannsóknir okkar í heilbrigðisráðuneytinu benda til þess að talsverður hluti af hjúkrunarrýmunum sé setinn af fólki sem gæti verið heima, alls ekki öll en talsverður hluti. Ég tel því að við þurfum að endurskoða vistunarmatið. Í dag eru 43 hópar að gera vistunarmat, reyndar gerðu 12 hópar um 70% af matinu, en hugsið ykkur, 43 hópar eru að gera vistunarmat í dag og það er ekki um nægilegan forgang að ræða inn á hjúkrunarheimilin frá Landspítalanum. Spítalinn fær einungis þriðjung af rýmum sem losna og það er allt of lítið að mínu mati.