132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

794. mál
[17:47]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Þetta frumvarp mun vera um aðra framlengingu á tímabundnum afslætti af olíugjaldi sem lögfest var með lögum nr. 70/2005. Þá var ákveðin tímabundin lækkun á fjárhæð olíugjalds um 4 kr. frá 1. júlí 2005 til 31. desember 2005. Síðan komu aftur lög nr. 126/2005 sem framlengdu sömu lækkun til 1. júlí 2006, þ.e. 1. júlí næstkomandi og mundi þessi afsláttur falla niður ef ekkert væri að gert. Hér er í þriðja sinn lagt til í frumvarpsformi, sem kemur nú nokkuð síðla fram af hálfu hæstv. ríkisstjórnar því að það hefur verið á það minnt að þessi tímamót væru fram undan en engu síður þurfti að taka frumvarpið á dagskrá með afbrigðum í dag, um að framlengja enn þennan svokallaða tímabundna afslátt til næstu áramóta. Við þekkjum auðvitað efnisrökin. Það stendur í mönnum að taka þá miklu hækkun að fullu út í verðlagið á innkaupsverði olíuvara sem við stöndum frammi fyrir.

Spurningin er hvort menn horfa hér vísvitandi fram hjá því að það er afar fátt sem bendir til að þetta sé tímabundin hækkun. Þá verða menn einfaldlega að velta því fyrir sér af alvöru: Hver á skattheimtan að vera? Hvar ætla menn að stilla þetta af, ekki endilega í þeirri von að þeir séu að ganga í gegnum tímabundinn kúf heldur sé jafnvel fram undan tímabil svipaðs eða jafnvel enn hærra innkaupsverðs á olíuvörum? Svo koma náttúrlega gengismál krónunnar inn í sem allir þekkja.

Það vill svo til, frú forseti, að ég var aðeins að glugga í blöð svona undir umræðunni. Það telst vonandi ekki óviðunandi sinnuleysi. En t.d. hið merka blað Financial Times er meira og minna undirlagt af bollaleggingum um olíumálin. Hér er hann Putin okkar að svona senda Evrópumönnum aðeins tóninn. (Gripið fram í: Af hverju okkar?) Já, okkar Evrópumanna. Er þetta ekki Putin? Hann varar Evrópumenn við því að þeir skuli ekki endilega ganga að því vísu að Rússar beini svo til allri sinni olíusölu og gassölu inn á Evrópu, þeir hafa fleiri kosti. Af hverju er hann að þessu? Jú, það er vegna þess að spár ganga jafnvel út á verulegan skort og að framleiðslan muni ekki, ekki bara af pólitískum ástæðum heldur tæknilegum ástæðum, ráða við eftirspurnina á komandi árum þannig að fram undan verði bullandi skortur.

Í þessu sama tölublaði Financial Times er önnur athyglisverð mynd. Þar dansa þeir á olíufati, helstu leiðtogar heimsins. Þetta er hið nýja valdajafnvægi, segja dálkahöfundarnir. Þeir eru allir uppi á tunnunni að stíga ölduna. (Gripið fram í: Halldór Ásgrímsson?) Þeir eru ekki hér, hæstv. ráðherrar Íslands. En hér eru þeir aftur. Bush og Putin og Angela Merkel og forseti Kína o.fl. stíga þarna jafnvægið ofan á olíufatinu, hið nýja valdajafnvægi heimsins. Það eru stórir hlutir að gerast í þessum efnum og þeir hafa áhrif langt út fyrir viðskiptalífið sem slíkt, þeir hafa pólitísk áhrif eins og þarna er verið að ræða.

Síðan gætum við í öðru lagi, frú forseti, spurt okkur: Hvert á verðið á olíuvörum að vera í heiminum við núverandi aðstæður? Á það að vera lágt? Er eitthvert vit í að reyna að stinga höfðinu í sandinn gagnvart því sem fram undan er og þvinga fram með pólitískum þrýstingi og látum tímabundið aukna framleiðslu sem dugir til að halda olíuverðinu eitthvað niðri? Eru innstæður fyrir því? Svarið er: Nei, olían er þverrandi auðlind. Það er mjög ólíklegt að það sé yfir höfuð tæknilega gerlegt nema í afar stuttan tíma að þvinga framleiðsluna upp úr þeim 85–90 milljónum tunna af olíu á dag sem þörfin er núna.

Svo koma umhverfisáhrifin líka til. Þau mæla með því sama. Auðvitað er það ekki til þess að ýta undir þróun annarra orkugjafa ef menn stinga höfðinu í sandinn og reyna að pína verðið niður tímabundið, það er að pissa í skó sinn. Fram undan er ekki annað fyrir heiminn en að takast á við að þetta er þverrandi auðlind og notkun stórkostlegum annmörkum háð af umhverfisástæðum. Við þurfum á öllu öðru að halda en því að t.d. vöxtur og orkuþörf Kína verði fullnægt með stóraukinni notkun jarðefnaeldsneytis. Það eru nú engar smáræðis spár sem orkuþörfin gengur út á, allt upp í 120 milljónir fata á dag um árið 2020 ef ég man rétt.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur ekki, úr ræðustóli á Alþingi, verið með kröfur um lækkun á sköttum á jarðefnaeldsneyti. Það er misskilningur og er ágætt og kærkomið að fá tækifæri til að leiðrétta hæstv. fjármálaráðherra sem ástundaði því miður útúrsnúninga í umræðum um daginn og gerði hv. þm. Jóni Bjarnasyni upp þá skoðun að hann heimtaði beina lækkun á þessum gjöldum. Það sem hv. þm. Jón Bjarnason kom hins vegar inn á, sem er raunverulegt og alvarlegt vandamál, var hið háa eldsneytisverð með öllum álögunum eins og það gengur inn í flutningskostnað, vöruverð og lífskjör á landsbyggðinni. Það er stórfellt vandamál. Vandamálið er enn þá verra vegna þess að hæstv. ríkisstjórn hefur ekkert gert í því að jafna flutningskostnað eins og þó hefur verið lofað. Þar stendur sannarlega upp á ríkisstjórnina.

Það breytir því heldur ekki, þótt við séum almennt talað ekki talsmenn þess að stunda óábyrga kröfugerðarpólitík um lækkun þessara gjalda, að þau eru mjög há á Íslandi. Bensínverð er eitt hið hæsta í heiminum á Íslandi. Það er sennilega bara í olíuríkinu Noregi þar sem verðið er jafnhátt eða hærra. Ég spurði einmitt að því í vikunni sem leið og var sagt að þá væri verðið á seldan lítra af olíu væri 12 kr. norskar. Það gerir sem sagt vel að jafna verðið uppi á Íslandi.

Það eru ekki Ísland eða Noregur sem eru í sjálfu sér sökudólgarnir eða skúrkarnir í þessum efnum þegar kemur að því að reka ábyrga og umhverfisvæna orkustefnu að þessu leyti. Það eru á hinum endanum ríki eins og Bandaríkin sem ástunda ótrúlegt ábyrgðarleysi gagnvart þróun orkumála í heiminum, m.a. með því að þrýsta verði þessara orkugjafa niður, sem aftur hamlar því að aðrir orkugjafar og umhverfisvænni verði samkeppnisfærir. Það er auðvitað verkefnið sem orkustefna okkar, krafa um sjálfbæran orkubúskap eða sjálfbæra þróun í orkubúskap Íslendinga gengur út á, þ.e. að menn ástundi ábyrga og framsýna pólitík í þessum efnum.

Við viljum auðvitað að markvissar aðgerðir séu í gangi til að knýja fram orkusparnað og beitt sé stýritækjum, þar á meðal efnahagslegum stýritækjum, til að menn reyni að spara orku. Hefur það verið gert? Nei. Hvað hefur ríkisstjórnin gert á undanförnum árum, eða ríkisstjórnir? Þær hafa lækkað sérstaklega álögur á stóra og eyðslufreka bíla. Tollflokkun og vörugjaldaflokkun er þannig að mönnum er ýtt út í kaup á stórum pallbílum og í raun hefur dregið mjög saman í skattlagningu hins venjulega fjölskyldubíls og stærri bíla og eyðslufrekari. Það er auðvitað glórulaust. Menn færðu fyrir því ýmis rök sem verða harla léttvæg í ljósi hins stóra samhengis mála.

Auðvitað á að leggja stóraukinn kraft í að efla almenningssamgöngur og gera þær fýsilegan valkost fyrir fólk þannig að ekki sé sama þörf, t.d. í þéttbýlinu, til að reka marga einkabíla á hverju heimili. Það að leggja fjármuni í að þróa og gera fýsilegt að nýta aðra orkugjafa er varla hægt að segja að sé við lýði hjá okkur, nema örlitlir afslættir á innflutningi tvíorkubíla o.s.frv. Síðan eru menn með rannsóknir í framtíðarmúsík eins og vetni eins og einn ónefndur hv. þingmaður í salnum veit vel um.

Það er af tvennum ástæðum að ekki er hægt annað en horfa í það, frú forseti, að olían eða jarðefnaeldsneytið er vandamál sem heimurinn stendur frammi fyrir og verður að takast á við, eins og reyndar gervallur orkubúskapurinn. Þá verður sumum það á í ráðleysi sínu, af því að menn hafa auðvitað flotið sofandi að feigðarósi, jafnvel allt frá fyrstu olíukreppunni á öndverðum áttunda áratug, að halda að menn geti leyst vandann með kjarnorku og skapað jafnvel enn þá hrikalegri umhverfisvandamál síðar meir, einfaldlega með því að lagera geislavirkan úrgang sem engin eiginleg ráð hafa fundist til að endurvinna eða geyma á ásættanlegan hátt, enda hleðst hann upp í jarðhvelfingum og neðanjarðarbyrgjum víða um heim.

Olían er þverrandi auðlind og henni fylgir mengun, fyrst og fremst losun gróðurhúsalofttegunda þegar jarðefnaeldsneyti er brennt. Ég veit ekki hvort hæstv. fjármálaráðherra hefur kynnt sér bækur sem hafa komið út undanfarin missiri um olíubúskapinn í heiminum. Ég held að það væri ágætt fyrir hann, a.m.k. áður en hann leggur einu sinni enn fram frumvarp um tímabundna lækkun á þessu gjaldi, í von um að betri tímar séu í vændum, þ.e. í hans skilningi, væntanlega með lægra orkuverði. Í fyrra kom t.d. út bók eftir Matthew nokkurn Simmons sem heitir „Twilight in the Desert“. Eigum við að kalla hana „Aftanskin í eyðimörkinni“ eða „Kvöld í eyðimörkinni“? Sú bók fjallar fyrst og fremst um yfirvofandi olíuáfall eða sjokk sem heimsbyggðin verður fyrir vegna ástands mála í stærsta olíuframleiðsluríki heimsins, Sádi-Arabíu, áhrifum þess á heimsbúskapinn og efnahag heimsins ef þetta ríki, sem stendur undir allt að 10% af heimsframleiðslunni, kiknar undan þeirri byrði að halda uppi þeirri framleiðslu. Nokkru áður kom út merk bók líka sem heitir „The End of Oil“, sem er sömuleiðis eftir mikinn sérfræðing á þessu sviði, Paul nokkurn Roberts. Bandarískir háskólar hafa gefið út skýrslur um þetta, breskir og fleiri.

Ástandið er þannig í þessu landi, Sádi-Arabíu, sem menn mæna auðvitað alltaf á og benda á þegar talað er um að hægt sé að auka framleiðsluna, að þar fundust allar stærstu olíulindirnar sem dælt er úr í dag fyrir 40 til 50 árum síðan. Langstærsta olíulind heimsins, kóngurinn í Sádi-Arabíu, Ghawar, fannst 1948. Þessi eina olíulind stendur undir helmingi af framleiðslu Sádi-Arabíu í dag og er búin að gera núna í marga áratugi. Og nú eru menn að færa sig inn á síðustu svæðin sem ekki er búið að dæla upp úr í kónginum. Og hvernig er ástandið á jöðrunum, hvernig hafa menn haldið framleiðslunni uppi? Jú, menn dæla vatni inn undir olíulögin til að halda uppi þrýstingi. Það er svo komið að vatnshlutfallið í olíunni úr lindinni er um 30%. Það er mjög margt sem bendir til þess að þetta kvöld sé að ganga í garð í eyðimörkinni.

Við vitum hvernig ástandið er í Írak. Það hefur nú ekki beint verið björgulegt fyrir olíubúskap heimsins sem þar hefur gerst svo við tölum nú ekki um allar hinar hörmungarnar. Hvað dettur þeim í hug, snillingunum þarna vestra, Bush Bandaríkjaforseta og kó? Jú, það er að ráðast á Íran. Það gæti þá kannski orðið til þess að bæta ástandið eða er það ekki eða hitt þó heldur, að henda nokkrum sprengjum þar? Auðvitað er þetta ástand svo galið að maður veit eiginlega ekki hvað maður á að segja um þau ósköp.

Svona er nú þetta. Það getur að vísu verið sem bent er á að hið háa olíuverð í dag geri vinnslu mögulega á svæðum sem ella væri ekki arðbært að vinna en það eru jaðarframleiðslusvæði. Það eru ekki kóngar og ekki drottningar af hinu hefðbundna olíulindamáli, ekki einu sinni jarlar heldur óbreyttir borgarar þar sem framleiðsla getur orðið einhver fáein prómill af heimsframleiðslunni eða af þörfinni. Vinnsla á þeim svæðum er algerlega háð því að orkuverðið sé a.m.k. jafnhátt og það er í dag eða hærra. Ég leyfi mér því að halda því fram, frú forseti, að þegar þessi mál eru skoðuð út frá þessari hlið séu ákaflega litlar innstæður fyrir því að tala hér um tímabundið ástand. Ég held að það sé miklu raunsærra að horfast í augu við að olíuverð mun verða hátt, jafnvel mjög hátt og það er allt eins líklegt að heimsbúskapurinn eigi eftir að verða fyrir frekari áföllum eða löðrungum eða fá á sig fleiri kaldar gusur vegna þess að jafnvel enn erfiðari tímar í þessum efnum séu í vændum.

Kannski setur það þá loksins þann kraft í þróun annarra orkugjafa sem auðvitað hefði þurft að vera búið að gera fyrir löngu, löngu síðan, af því að orkan er til, það er ekki vandamálið. Við höfum nóga vindorku, við höfum nóga sólarorku, við höfum orku sjávarfallanna og við höfum ýmis fleiri möguleg úrræði. Við höfum víða jarðvarma og vatnsorku sem hægt er að nýta. En olíuiðnaðurinn er sterkur og hann á víða hauka í horni, m.a. í Hvíta húsinu og það er einhver harðsnúnasta samsteypa, að kannski hergagnaiðnaðinum undanskildum, og er þetta þó talsvert samþætt enda er stundum talað um the Military Oil Complex og þessi samsteypa hefur heiminn í raun og veru meira og minna í klóm sínum enn þá.

Íslendingar eru í þeirri forréttindaaðstöðu að við gætum verið á fullri siglingu hér og verið að gera miklu, miklu meira en við erum í dag í því að nýta okkar orku til okkar eigin þarfa í staðinn fyrir að vera með hana á útsölu ofan í erlend auðfélög og reyna að taka skref sem eitthvað munaði um í átt til sjálfbærs orkubúskapar. En það hefur nú lítið farið fyrir því, því miður, það er þá kannski helst hægt að benda á þann hvata sem hefur verið að leita að heitu vatni og byggja hitaveitur sem dæmi um slíkt, en ósköp fer nú lítið fyrir þessu að öðru leyti. Það væri miklu meira fagnaðarefni ef hæstv. ráðherra væri t.d. hér samhliða þessu frumvarpi að leggja til einhverjar ráðstafanir sem vísuðu veginn í þessa átt sem gæfu manni vonir um að það ætti að takast af alvöru á við að móta hér sjálfbærar forsendur eða skapa forsendur fyrir mótun sjálfbærs orkubúskapar, sjálfbærrar þróunar eða framvindu í orkumálum í landinu. En það fer nú lítið fyrir því og eins og ég fór yfir áðan þá hafa ýmsar breytingar í sambandi við tolla og aðflutningsgjöld o.fl. á undanförnum árum í raun og veru því miður skilað okkur í öfuga átt.

Að sjálfsögðu er það tilfinnanlegt þegar snöggar breytingar verða til hækkunar á þessum útgjaldalið hjá heimilum og fyrirtækjum. Auðvitað er hugur manns við það bundinn, sérstaklega þeirra sem lítið hafa afgangs og eiga í nægum erfiðleikum með það sem fyrir er, þ.e. til þess að reka fjölskyldubílinn. Ég hef oft nefnt þann möguleika hér að það yrðu gerðar sértækar skattalegar ráðstafanir til þess að létta rekstur venjulegs heimilisbíls. Þar með væru um leið komnar aðstæður til þess að beita síðan í miklu ríkari mæli efnahagslegum stýritækjum gagnvart þróuninni, t.d. þannig að menn yrðu þá að sætta sig við það ef þeir vilja reka bíl númer tvö eða þrjú að það væri ekki eins ódýrt. Og ef það væri eitthvað gert í sambandi við jöfnun flutningskostnaðar á landsbyggðinni þá væri það ekki jafntilfinnanlegt og raun ber vitni þar þó að olíuverð yrði áfram hátt og álögur ríkisins einhverjar. Nú er það vissulega þannig að ríkið tekur mikið til sín umfram það sem aftur rennur til umferðarinnar og fyrst og fremst til vegamála og það eru allt þekktar staðreyndir. Umferð á Íslandi er skattlögð í hærri kantinum og við erum auðvitað í hópi með hinum Norðurlöndunum hvað það snertir og kannski líkust Noregi þegar það er skoðað.

Það ber ekki að skilja ræðu mína svo að við séum að leggjast gegn því að þessi framlenging sé gerð, það væri í sjálfu sér ekki á bætandi að fara að taka þessa hækkun inn með því að láta framlengingarákvæðin falla niður núna 1. júlí. Sömuleiðis er það fagnaðarefni að hér á að gera sérstakar ráðstafanir til þess að létta — við getum sagt á nýjan leik að hjálpa aðeins til í sambandi við rekstur bifreiða björgunarsveitanna. Þær eru t.d. einn þolandi þeirra kerfisbreytinga sem gerðar voru með upptöku olíugjaldsins eins og það var úr garði gert, þó að kannski helsti þolandinn sé nú fólkið á landsbyggðinni sem fær í gegnum flutningskostnað og vöruverð og lífskjör sín ótæpilega að finna fyrir þessum sköttum. Þetta voru nú, frú forseti, þær athugasemdir sem ég ætlaði að gera við þessa umræðu enda tíma mínum lokið þannig að það verður ekki meira að gert í bili.