132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

794. mál
[18:51]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi held ég að hæstv. ráðherra sé á vissum villigötum þegar hann gefur sér að hugmyndir um að jafna flutningskostnað feli sjálfkrafa í sér að verðmyndunin sé skekkt eða að gripið sé inn í hana. Ég hef skilið það svo að hugmyndirnar gengju einmitt út á að fara t.d. svipaða leið og mun vera gert í Noregi, að endurgreiða beinlínis sannanlegan útlagðan flutningskostnað að einhverju leyti, þ.e. að kostnaður þolandans á endanum yrði að einhverju leyti endurgreiddur og þar með hefur það ekki í sjálfu sér inngrip í verðmyndunina í ferlinu eða í keðjunni, það sem sagt skekkir ekki álagningu olíugjaldsins eða þungaskattsins eða þar fram eftir götunum.

Hæstv. ráðherra segir að hér sé fyrst og fremst verið að framlengja þennan afslátt til þess að tryggja hóflegan mismun á milli verðs á dísilolíum og bensíni vegna sérstakra aðstæðna sem hafi leitt til þess eða tímabundið leiði til þess að dísilolíur séu hlutfallslega dýrari en ella í jafnvægi ætti að vera borið saman við bensín. Ég minni á móti á að strax þegar kerfisbreytingin var í undirbúningi og umræðu á Alþingi 2004 var bent á að breytingin næði ekki tilgangi sínum af því að það stefndi í að allt of lítill eða næstum enginn munur yrði á útsöluverði dísilolíu og bensíns. Ég hafði alltaf gengið út frá því í umræðum um þá kerfisbreytingu að menn mundu verða með allmargra króna mun og það er nauðsynlegt að mínu mati að það sé þannig til frambúðar og varanlega ef menn vilja stuðla að aukinni notkun dísilolíu í staðinn fyrir bensín í bifreiðaflotanum.

Ég held að það sé komin þörf á að skoða þessi mál í heild sinni, tolla og aðflutningsgjöld og flokkunina þar, bifreiðagjöld og annan rekstrarkostnað bílsins og þar með talið olíu- og bensíngjöld. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Telur hann koma til greina að skipa þverpólitíska nefnd, t.d. með aðild sveitarfélaganna, sem fari (Forseti hringir.) ofan í þetta í heild sinni?