132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar.

795. mál
[15:00]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Það má með sanni segja að margt sé að gerast í flugmálum á Íslandi í dag. Hér hefur verið komið inn á málefni flugvallarins í Reykjavík og rætt um framtíð hans og fyrir þinginu liggja frumvörp til laga um Flugmálastjórn Íslands annars vegar og um stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarrekstur Flugmálastjórnar Íslands hins vegar. Nú kemur fram þetta frumvarp til laga um Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar sem ég vil lýsa ánægju minni með. Ég vil ekki síður lýsa ánægju minni með þær undirtektir sem málið hefur fengið frá þeim sem hafa tekið til máls. Almennt virðast menn sammála um að frumvarpið leysi úr þeim brýna vanda sem við stöndum frammi fyrir vegna þess fjölda starfsfólks sem starfar á vellinum.

Það liggur fyrir að málinu er teflt fram sem eins konar millileik. Það verður að segjast eins og er að heppilegast hefði verið að geta stigið skrefið til fulls og fengið mynd á þá skipan flugmála sem við viljum sjá til framtíðar í Keflavík en aðstæður eins og þær eru nú bjóða ekki upp á það. Við erum í þeirri tímaþröng í þeim viðræðum sem standa yfir að við getum ekki leyft okkur og það er ekki raunhæft að stíga það skref í einu vetfangi. Það mál sem nú liggur fyrir þinginu er því jákvætt innlegg í viðkvæma stöðu. Það leysir úr þeim vanda sem að okkur steðjar og ég vil aðeins koma inn á tvö, þrjú atriði í því sambandi.

Frumvarpið gengur út frá sömu hugmyndafræði og liggur til grundvallar þeim þingmálum sem ég áður vék að, þ.e. að skilið verði á milli þjónustuþáttarins, stjórnsýslunnar og eftirlitsins með því að Flugmálastjórn Íslands annist eftirlit með framkvæmd flugverndar og flugöryggis á Keflavíkurflugvelli. Þegar betur er að gáð er þetta hugsanlega eina leiðin í stöðunni, nauðsynlegt að skipa málum með þessum hætti. Eins og áður segir er það í samræmi við þá hugmyndafræði og það skipulag sem hin þingmálin sem liggja fyrir þinginu byggjast á.

Í annan stað vil ég lýsa yfir ánægju minni með 2. gr. frumvarpsins sem fjallar um slökkviliðið og starfsemi þess. Það er búið að byggja inn í frumvarpið ákveðinn sveigjanleika í þeirri starfsemi og vonandi næst fram sú hagræðing og það skipulag í þeim málum að breytingarnar sem verða við brotthvarf Bandaríkjahers verði okkur kostnaðarminni og framtíð þeirra mála verði með þeim hætti að við finnum minna fyrir því en ella hefði orðið. Það er skynsamlegt að horfa til þess með hvaða hætti hægt er að samnýta þá þjónustu af þessu tagi á svæðinu sem stendur næst flugvellinum.

Loks hefur verið til umfjöllunar ákvæði til bráðabirgða í frumvarpinu og það leysir málefni starfsfólksins. Ég vil þó segja að mér finnst það heldur ódýrt að menn skuli hrökkva til af því tilefni sem hér er og koma fram á sviðið með tilboð um góða starfslokasamninga til þeirra sem ekki fá störf án þess að það sé útlistað neitt nánar. Ég sé ekki að neitt sérstakt tilefni sé til að stökkva til og jafnvel þó það kunni að vera freistandi fyrir litla stjórnmálaflokka að koma slíku sjónarmiði að af þessu tilefni þá finnst mér það heldur ódýr pólitík í þessu samhengi að segjast vera tilbúin til að mæla fyrir góðum starfslokasamningum. Réttindi þeirra starfsmanna sem í hlut eiga eru í því tilliti tryggð í lögum og við getum ekki hlaupið til í einstökum tilvikum með sértilboð um sérstaka starfslokasamninga.

Aðalatriðið er að svo horfir nú að hagsmunir starfsfólksins, sem hefur verið að sinna þessum störfum, eru tryggðir með þessu máli hvernig sem hlutum verður skipað til lengri tíma. En í heildina verða flugmál á Íslandi áfram í deiglunni á þinginu og mikilvægt að vel takist til með að móta fluginu á Íslandi nýja framtíð. Ég tek undir með þeim sem geta séð það fyrir sér að þessu máli verði þokað áfram, ýmist í þann farveg sem utanríkisráðherra hefur sjálfur séð fyrir sér að geti orðið með rekstur flugstöðvarinnar eða á annan hátt sem væri þá hugsanlega meira í ætt við frumvörpin sem ég hef vísað til. Þannig mætti til að mynda sjá fyrir sér að rekstur flugvallarins færi inn í það hlutafélag sem stofnað er með öðru frumvarpinu.