132. löggjafarþing — 117. fundur,  30. maí 2006.

Störf iðnaðarnefndar.

[14:22]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Forseti. Ég vil spyrja hæstv. forseta hvort hún hafi nýlega lesið þingsköp Alþingis. Ég vil fá um það svar, já eða nei.

Ég get til aðstoðar við hæstv. forseta þingsins vakið athygli á grein um þingsköpin sem er nr. 10 þar sem stendur, með leyfi forseta:

„Forsætisnefnd skipuleggur þinghaldið og hefur umsjón með alþjóðasamstarfi sem Alþingi á aðild að.“

Ég get líka vakið athygli forseta á 72. gr. laga um þingsköp Alþingis, og ég vil spyrja hæstv. forseta hvort hún hafi nýlega lesið hana. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Forseti skal hafa reglulega samráð við formenn þingflokka, eða fulltrúa þeirra, um skipulag þingstarfa og leggja fyrir þá til umfjöllunar starfsáætlun þingsins og áætlanir um þingstörf hverrar viku.“

Ég veit ekki til hvers þetta er skrifað en ég geri ráð fyrir að ætlunin sé að forsætisnefnd fari eftir því.

Ég vil spyrja forseta hve oft hún hefur boðað til slíks samráðs frá því að hlé var gert á þingstörfum í vor þegar þingið var skilið eftir og störf þess voru í fullkomnu uppnámi, m.a. vegna vanstjórnar þingsins af hálfu forsætisnefndar sem lýtur beint valdboðum einstakra ráðherra frekar en hafa eðlilegt lýðræðislegt samráð innan forsætisnefndar um starfshætti þingsins. Hve oft var þá komið saman á þessum tæpa mánuði til þess að undirbúa framhaldið sem hafði þá þegar verið ákveðið? Það hlaut að vera skylda forseta að fara eftir þingsköpum og hafa samráð við aðra varaforseta og þingflokksformenn um skipulag þinghaldsins.

Í gær var kallað til nefndarstarfa. Þó hafði verið lesið forsetabréf um að þingið væri í hléi til dagsins í dag. Það er ekkert að því að nefndir komi saman en þá er haft um það samráð en ekki send tilkynning utan reglulegs þingtíma, þá er haft um það samráð og fundir boðaðir með eðlilegum fyrirvara. En í gær voru fundir boðaðir með eins eða tveggja tíma fyrirvara. Forseti ber ábyrgð á störfum þingnefnda. Ég vil því spyrja: Vissi forseti um þessa tilhögun í störfum nefndarinnar?

Frú forseti. Eins og ég upplifði þetta núna má segja að það sé eins gott að þeir skiptist á að sitja hér á forsetastóli, formaður Framsóknarflokksins, Halldór Ásgrímsson, og formaður Sjálfstæðisflokksins, hæstv. utanríkisráðherra Geir H. Haarde. Þá sæjum við hver stýrir fundum hér.