132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

skoðanakannanir.

769. mál
[14:53]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Skoðanakannanir eru í sjálfu sér hluti af lýðræðislegri umræðu í samfélaginu ef þeim er varið með þeim hætti. Lýðræðisleg umræða getur oft og tíðum hneigst í hinar og þessar áttir þó að menn séu ekki alltaf sáttir við þann farveg. Ég held þó að það sé mikilvægt að gerður sé skýr greinarmunur á því hvert sé t.d. verksvið skoðanakönnunarstofnunar eins og Gallups og svo Háskóla Íslands, hvort það sé eðlilegt að hann taki að sér ónafngreind verkefni og spyrji um viðhorf til einstakra fyrirtækja eða slíkt. Mér finnst það vera nokkuð langt gengið.

Einnig finnst mér að t.d. ríkisstofnanir og ráðuneyti þurfi að setja sér siðareglur þegar þau kaupa skoðanakannanir, eins og t.d. þegar iðnaðarráðuneytið keypti tvisvar á sama árinu (Forseti hringir.) skoðanakannanir um viðhorf Skagfirðinga til álvers og spurði svo á eftir hvað þeir kysu.