132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

brottfall laga um Flugskóla Íslands hf.

480. mál
[17:35]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég met á vissan hátt vilja hv. þm. Guðjóns Hjörleifssonar til að reyna að bjarga í horn því sem bjargað verður í þessu sambandi en vek athygli á að það sem ég er einungis að vitna til er umsögn Félags íslenskra atvinnuflugmanna sem ég tel að hafi meiri yfirsýn yfir þetta mál en margir aðrir.

Því skyldi þetta nám ekki njóta opinberrar lagalegrar verndar, bæði hvað varðar innihald námsins og mat á náminu milli skóla eða milli námsstiga. Að sjálfsögðu er farið eftir þeim alþjóðlegu reglum sem um þessi réttindi gilda, en námið er langt ferli að réttindum. Til dæmis geta menn hætt í námi á einhverju ákveðnu stigi og þá er eðlilegt að það geti verið metið inn í eitthvert annað nám sem gerist ekki nema það sé skilgreindur hluti af hinu opinbera menntakerfi.

Þess vegna tek ég afdráttarlaust undir sjónarmið Félags íslenskra atvinnuflugmanna um að miklu nær væri að vinna heildarlöggjöf fyrir innihald og skipan flugnáms hvort sem það er síðan framkvæmt af þessum skóla eða öðrum. En á því verði fagleg opinber ábyrgð einmitt í menntakerfinu og einnig að hið opinbera hefði ábyrgð (Forseti hringir.) á að þetta nám væri í boði hér á landi.