132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar.

279. mál
[14:31]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég geri ráð fyrir því að afstaða mín komi fram við atkvæðagreiðsluna. Hins vegar færði ég nokkuð góð rök, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði, fyrir því að fara dómstólaleiðina. En ég sagði líka að ég teldi skipta verulegu máli að það væri sátt um þá leið, ekki bara meðal þingmanna í þessum sal heldur meðal allra þeirra félagasamtaka og hagsmunasamtaka sem koma að þessu máli og skiluðu umsögnum og komu á fund allsherjarnefndar um málið. Því það er nefnilega alveg rétt, og það er sagt frá því greinilega í nefndarálitinu, að þessi leið kom aldrei til umsagnar og umfjöllunar með þeim sem leitað var til vegna málsins. Þeir aðilar áttu þess aldrei kost að tjá sig um málið.

Það sem mér fannst sláandi, bæði þegar það kom fram hjá gestum og í umsögnum, var hversu margir af þessum aðilum voru í sjálfu sér á móti sameiginlegri forsjá sem meginreglu. Það fannst mér svo sláandi. Útskýring mín á því var fyrst og fremst sú að of margir þessara aðila þekktu aðeins foreldra sem lent höfðu lent í krísu og deilum tengdum skilnaði. Þeir þekktu starfs síns vegna ekki til allra þeirra hundruða og þúsunda sem hefðu getað farið þessa leið og sett hagsmuni barnsins á oddinn.

Miðað við viðhorfsbreytinguna frá 1992 til dagsins í dag, sem hefur orðið með fæðingarorlofslögunum, sem hefur orðið með því að sameiginleg forsjá var sett inn í lögin 1992, þá tel ég að skammt sé í að við náum fullri samstöðu um að veita dómurum líka þá heimild að dæma forsjána sameiginlega.

Ég legg mikið upp úr samstöðu í þessum málum. Mér finnst alveg nóg að það sé stundum ágreiningur á milli foreldra við skilnað um það hvort eigi að hafa forsjá barnanna.