132. löggjafarþing — 121. fundur,  2. júní 2006.

hlutafélög.

404. mál
[22:45]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér fer fram umræða um frumvarp til laga um opinber hlutafélög og mér finnst mjög mikilvægt að við ræðum þetta í því pólitíska umhverfi sem við hrærumst í nú um stundir. Frumvarpið er fram komið í og með til að réttlæta einkavæðingu og hlutafélagavæðingu opinberrar starfsemi.

Um áratuga skeið og ekki hvað síst á síðustu tíu, fimmtán árum hafa verið sett margvísleg lög um opinbera starfsemi til að tryggja upplýsingaskyldu, jafnræði, réttindi starfsfólks og ráðstöfun fjármuna sem frá almenningi eru komnir, enda stofnanirnar í eigu almennings. Þetta hefur ýmsum þótt vera til trafala og talað um að það þurfi að búa þessari starfsemi sveigjanlegri umgjörð og færa hana undan þessum stífu reglum og þess vegna komi fram þetta frumvarp um hlutafélög.

Þær reglur sem hér er verið að leggja til eru í öllum atriðum rýrari en þau lög og þær reglur sem opinber starfsemi býr við. Ég spyr: Hvers vegna í ósköpunum að gera þetta? Hvers vegna í ósköpunum að kosta því til að rýra réttindi starfsfólks í opinberum stofnunum og fyrirtækjum og koma síðan með einhvers konar kattarþvott af því tagi sem hér liggur fyrir?

Með hliðsjón af þessari pólitísku, félagslegu umgjörð munum við ekki styðja frumvarpið. Við munum ekki taka þátt í þeim kattarþvotti, við munum ekki gera það. Þetta er tilraun ríkisstjórnarinnar til að réttlæta einkavæðingu og hlutafélagavæðingu opinberrar starfsemi.

Hægt er að fara margar leiðir vilji menn auka á sveigjanleika opinberra stofnana. Ég nefni t.d. starfsemi sem nú stendur til að gera að hlutafélagi, þ.e. Flugmálastjórn, flugmálaeftirlitið í landinu og rekstur flugvallanna. Til stendur að gera hann að hlutafélagi til að gera hann sveigjanlegri.

Nefnd sem sett var á laggirnar á sínum tíma af hæstv. samgönguráðherra komst að þeirri niðurstöðu að hægt væri að fara fjórar leiðir. Ein leiðin væri vissulega að hlutafélagavæða starfsemina. Síðan var talað um að gera starfsemina að B-hluta stofnun, nokkuð sem mundi ná þeim markmiðum sem menn kváðu nauðsynlegt að ná. Þá leið má fara í ýmsum tilvikum og ég vek athygli á því að sú stofnun sem hefur verið til umræðu í þinginu á undanförnum vikum og mánuðum, Ríkisútvarpið, er B-hluta stofnun sem býr við umtalsverðan sveigjanleika.

Þessar tillögur snúa m.a. að því að fulltrúar ríkis og sveitarfélaga fái leyfi til að sækja fundi, aðalfundi eða hluthafafund, og bera fram skriflegar fyrirspurnir. Þakka skyldi. Verið er að færa þessar stofnanir undan eftirliti og forsjá sveitarfélaga og ríkis nema hvað fulltrúarnir mega koma inn og bera fram skriflegar fyrirspurnir. Þvílíkt og annað eins.

Vissulega hefur verið hreyft hugmyndum um það á Alþingi, m.a. af þingmönnum úr mínum flokki, að hyggja beri að því að setja löggjöf um hlutafélög í opinberri eign. Ég tel hins vegar að við þær aðstæður sem við búum við núna og með hliðsjón af þeirri starfsemi sem verið er að færa út á markaðstorgið sé þetta hreinlega ekki tímabært. Við eigum í sameiningu að standa vörð um þessa starfsemi, þau lög og þau réttindi sem Alþingi hefur sett í samráði, samvinnu og samningum við stéttarfélög starfsmanna. Þess vegna munum við ekki taka þátt í þessum kattarþvotti af hálfu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Við munum ekki styðja þær tillögur sem hér liggja fyrir.