132. löggjafarþing — 121. fundur,  3. júní 2006.

skráning losunar gróðurhúsalofttegunda.

713. mál
[01:57]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Eins og kom fram í máli hv. formanns umhverfisnefndar rita ég undir nefndarálitið með fyrirvara. Satt að segja hefði ég óskað að við hefðum getað náð lengra í vinnunni við þetta mál en ég tel þetta ákveðið skref í rétta átt og auðvitað erum við skuldbundin til að taka þetta skref. Þetta er eðlilegur hluti af framvindu mála til þess að við getum staðið við skuldbindingar okkar í losunarmálunum og því er auðvitað sjálfsagt að styðja frumvarpið en ég tel að það hefði getað orðið metnaðarfyllra og að því lýtur fyrirvari minn.

Því vil ég minnast á tvær umsagnir frá umsagnaraðilum sem gaman hefði verið að skoða betur í vinnu nefndarinnar. Það er í fyrsta lagi umsögn frá Orkustofnun sem leggur það til að sameinað sé í eitt mál frumvarp til laga um skráningu losunar gróðurhúsalofttegunda og upplýsingagjöf um innflutning, sölu og geymslu eldsneytis. Umsögn Orkustofnunar um þessa hugmynd var athyglisverð, nefndin fékk meira að segja sent frumvarp sem var smíðað fyrir okkur, þar sem þetta tvennt var sett saman í eitt mál. Orkustofnun segir í umsögn sinni, með leyfi forseta:

„Orkustofnun hefur þann 24. apríl 2006 borist erindi umhverfisnefndar Alþingis, dags. 6. sama mánaðar, þar sem óskað er umsagnar stofnunarinnar um ofangreint frumvarp. Í frumvarpinu er Orkustofnun lögð sú skylda á herðar að safna upplýsingum um orkumál sem frumvarpinu tengjast og skila þeim upplýsingum til Umhverfisstofnunar.

Samkvæmt athugasemdum við lagafrumvarpið, 6. mgr., er stefnt að því að iðnaðarráðherra leggi fram frumvarp sem ætlað er að tryggja heimildir Orkustofnunar til að krefja aðila um upplýsingar sem nauðsynlegar eru fyrir gerð orkuspáa og skil á gögnum til Umhverfisstofnunar. Erfiðlega hefur gengið að fá nauðsynlegar upplýsingar frá öllum olíufélögunum að undanförnu. Orkustofnun leggur til að slíkt frumvarp verði lagt fram sem fyrst svo stofnuninni verði unnt að rækja skyldur sínar samkvæmt frumvarpi þessu er nú liggur fyrir Alþingi, eða að þessi tvö frumvörp verði sameinuð samkvæmt eftirfarandi tillögum.“

Ég hefði haldið að það hefði verið hægur vandi að stíga þetta skref sem var eins og ég segi nánast unnið upp í hendurnar á okkur.

Hin umsögnin sem mig langar til að nefna í örfáum orðum er umsögn Umhverfisstofnunar. Hún vekur athygli nefndarinnar og Alþingis á því að frumvarpið hafi ekki að geyma tillögur um stjórnvaldsaðgerðir til að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda. Það er í sjálfu sér alvarlegt mál, virðulegi forseti, og eðlilegt að stofnun á því sviði sem Umhverfisstofnun starfar skuli benda okkur á nauðsyn þess að ganga lengra og taka metnaðarfyllri skref í þessum efnum. Stofnunin bendir á að gangi þær hugmyndir eftir um orkufrekan iðnað sem eru í umræðunni muni losun aukast verulega á næstu árum. Líkanreikningar Umhverfisstofnunar gefi til kynna að hugsanlegt sé að útstreymi gróðurhúsalofttegunda muni aukast það mikið á tímabilinu 2008–2012, sem er fyrsta bókhaldstímabil Kyoto-bókunarinnar, að stjórnvöld verði að setja hömlur á losun þeirra til að tryggt sé að losunin verði undir þeim heimildum sem landið hefur samkvæmt Kyoto-bókuninni. Umhverfisstofnun telur því brýnt að unnið verði að slíkri lagasetningu sem fyrst og tryggð lagastoð fyrir veitingu heimilda til losunar gróðurhúsalofttegunda og verslun með losunarheimildir bæði innan lands og utan.

Mér finnst umsögn Umhverfisstofnunar sýna okkur fram á metnaðarleysi stjórnvalda og líka hvað menn hafa dregið lappirnar í að koma þessari löggjöf á koppinn og svo þegar við stígum skrefið er það bara hænufet. Stofnanir sem eiga að starfa eftir þessari löggjöf og vilja metnaðarfyllri skref skrifa þetta upp í hendurnar á okkur en þá getum við sem setjum lögin ekki sýnt þá víðsýni og þann dug sem okkur ber og lögleitt metnaðarfyllri skref en hér er gert.

En eins og ég sagði, skrefið er í áttina og þess vegna er ekki ástæða til annars en að styðja það.