132. löggjafarþing — 121. fundur,  3. júní 2006.

landmælingar og grunnkortagerð.

668. mál
[02:52]
Hlusta

Frsm. umhvn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um landmælingar og grunnkortagerð.

Með frumvarpi þessu er hlutverk Landmælinga Íslands skilgreint ítarlegar en í gildandi lögum og gert ráð fyrir því að stofnunin dragi sig út úr rekstri sem nú er í samkeppni við aðila á almennum markaði. Mun stofnunin hins vegar áfram sinna verkefnum sem óvíst er að einkaaðilar ráðist í að sinna en þó geta einkaaðilar komið að slíkum grunnverkefnum í heild eða að hluta.

Nefndin leggur áherslu á að þegar fram líða stundir verði gögn Landmælinga Íslands öllum aðgengileg án sérstakrar greiðslu eða heimildar til samræmis við frumvarp forsætisráðherra um breytingu á upplýsingalögum. Gögn stofnunarinnar muni því teljast til almannaeignar, þ.e. „public domain“. Stefnumörkun áðurnefnds frumvarps byggist á hóflegri verðlagningu opinberra upplýsinga. Skal því almennt ekki taka gjald fyrir söfnun eða framleiðslu gagna sem aflað er í opinberum tilgangi af stjórnvöldum.

Hins vegar eru í gildi sérlög og reglugerðir sem kveða á um rýmri heimildir einstakra stofnana til gjaldtöku fyrir aðgang að opinberum skrám. Framangreindu frumvarpi er ekki ætlað að hnekkja þeim reglum. Auk Landmælinga Íslands má nefna Fasteignamat ríkisins og fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra.

Nefndin leggur til tvær breytingar á frumvarpinu. Annars vegar að við skilgreiningar frumvarpsins bætist skilgreining á hugtakinu „örnefni“. Þá leggur nefndin til að heiti Örnefnastofnunar verði breytt í „Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum“.

Ég tel þetta frumvarp til mikilla bóta. Með því er hlutverk Landmælinga Íslands skilgreint betur og stofnunin dregin út úr samkeppni á almennum markaði. Eins og þekkt er er mikil samkeppni á þessum markaði. Því er mikilvægt að skýrar reglur séu um hlutverk hins opinbera.

Virðulegi forseti. Ég verð að vísu að lýsa þeirri skoðun minni að þetta sé dæmi um stofnun — ég tel að hjá okkur séu margar fleiri slíkar — sem hæglega væri hægt að leggja niður ef pólitískur vilji væri fyrir því og fela einkaaðilum það hlutverk, m.a. með útboðum og öðru slíku, að ná þeim markmiðum sem sett eru með stofnuninni. En ekki er gert ráð fyrir því í þessu frumvarpi, svo að það sé algjörlega skýrt tekið fram.

Þeir sem skrifa undir nefndarálitið eru auk mín hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir, Kristinn H. Gunnarsson, Gunnar Örlygsson, Mörður Árnason, Kjartan Ólafsson, Kolbrún Halldórsdóttir og Sigurrós Þorgrímsdóttir.

Hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir, Mörður Árnason og Kolbrún Halldórsdóttir skrifa undir álitið með fyrirvara