132. löggjafarþing — 121. fundur,  3. júní 2006.

náttúruvernd.

180. mál
[03:00]
Hlusta

Frsm. meiri hluta umhvn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999, með síðari breytingum.

Frumvarpið byggist á tillögum starfshóps sem umhverfisráðherra skipaði til að gera tillögur um það með hvaða hætti unnt væri að binda leyfum töku efna úr eldri námum. Með eldri námum er átt við námur sem starfræktar voru fyrir 1. maí 1994 þegar ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum tóku gildi, og fyrir 1. janúar 1998 þegar skipulags- og byggingarlög tóku gildi.

Megintilgangur frumvarpsins er að koma á eftirliti með efnistöku í landinu þannig að hún fari fram í sátt við umhverfið. Auk þess liggja samkeppnissjónarmið að baki því að þeir sem vinni efni úr námum lúti sömu reglum. Hins vegar eru tímamörkin höfð rúm af tillitssemi við þá sem lögin gilda um, verði frumvarpið að lögum. Þeim sem stunda efnistöku er með þessum hætti veittur sanngjarn frestur til að sækja um framkvæmdaleyfi og laga sig að breyttu lagaumhverfi. Í rauninni gert ráð fyrir að seinni áfanginn verði eftir 1. september 2012.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir þetta skrifa hv. þingmenn, auk þess sem hér stendur, Ásta R. Jóhannesdóttir, Kristinn H. Gunnarsson, Gunnar Örlygsson, Mörður Árnason og Sigurrós Þorgrímsdóttir.