132. löggjafarþing — 122. fundur,  3. júní 2006.

útreikningur vaxtabóta.

[09:11]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það liggur nú við að þessi umræða ætti frekar að fara fram undir liðnum „um atkvæðagreiðslu“ því það vill svo til að þetta mál er á dagskrá þessa fundar. Hér kemur til atkvæða á eftir breytingartillaga frá okkur þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, flutt af Atla Gíslasyni sem 1. flutningsmanni, sem býður þinginu upp á einfalda leið til að leysa þetta mál, þ.e. að hækka hin eignatengdu skerðingarmörk þannig að það gerist ekki, sem ella verður, að þúsundir lágtekjufjölskyldna, hæstv. fjármálaráðherra, verði af vaxtabótunum á þessu ári vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki leiðrétt skerðingarmörk í vaxtabótakerfinu, hvorki í samræmi við verðbólgu né þaðan af síður í samræmi við þá miklu hækkun fasteignaverðs, sem leiðir til þess að þúsundir tekjulágra fjölskyldna missa af vaxtabótunum af þeirri einu ástæðu að íbúðin þeirra hefur hækkað í verði á undanförnum mánuðum eða missirum. Þetta er ákaflega einfalt mál.

Viðbárur hæstv. fjármálaráðherra um að þetta liggi ekki nógu skýrt fyrir halda ekki vatni. Þetta liggur alveg skýrt fyrir eins og hv. þm. Atli Gíslason sýndi fram á með raunverulegum dæmum úr framtölum frá fólki frá nýliðnum mánuðum. Það er einfalt mál að sýna fram á það með raunverulegum dæmum hvernig þetta hittir fyrir þúsundir fjölskyldna í landinu og vel að merkja, ég endurtek það til þess að hæstv. fjármálaráðherra nái þessu örugglega, þetta snýr eingöngu að tekjulágu fjölskyldunum vegna þess að vaxtabæturnar eru líka skertar miðað við tekjur og deyja út með hækkandi tekjum.

Málið er því algjörlega einfalt og eignamörkin eru ekki há sem hér er verið að tala um. Hvaða eign er það í íbúð að eiga kannski 3,7 milljónir eins og verðið er orðið á þeim í dag? Hæstv. fjármálaráðherra verður að gera betur en þetta. Það er einfalt mál fyrir Alþingi að reka af sér slyðruorðið og leysa þetta mál (Forseti hringir.) með því að samþykkja þá breytingartillögu sem kemur hér til atkvæða eftir örstutta stund.