132. löggjafarþing — 122. fundur,  3. júní 2006.

atvinnuleysistryggingar.

742. mál
[10:03]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við í Samfylkingunni styðjum þetta frumvarp og teljum það mikið framfaraspor, ekki síst að teknar skuli upp tekjutengdar atvinnuleysisbætur.

Hér er um að ræða samkomulag milli aðila vinnumarkaðarins þar sem ASÍ lagði bæði til hærri grunnbætur og og hærra hlutfall tekna í tekjutengdum bótum, sem Samfylkingin tekur undir.

Ég fagna því að við meðferð nefndarinnar á þessu máli náðust fram hærri framlög í lífeyrissjóði til samræmis við það sem almennt gerist á vinnumarkaðnum. Aftur á móti náðist ekki fram desemberuppbót eða orlofsuppbót til atvinnulausra eins og aðrir fá, t.d. lífeyrisþegar. Það er til vansa að atvinnulausir séu eini hópurinn sem skilinn er eftir varðandi þær greiðslur. Um það er flutt breytingartillaga á sérstöku þingskjali.

Enn fremur er flutt breytingartillaga um að koma í veg fyrir tvöfalda refsingu launafólks sem segir starfi sínu lausu án gildra ástæðna. Þar er um að ræða 40 daga biðtíma eftir bótum og í öðru lagi sviptingu tekjutengdra greiðslna í þeim tilvikum. Það er harkaleg aðgerð sem breytingartillaga okkar við 54. gr., sem hér verða greidd atkvæði um á eftir, mildar verulega.