132. löggjafarþing — 123. fundur,  3. júní 2006.

almennar stjórnmálaumræður.

[14:17]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Góðir landsmenn. Eldhúsdagur er nú haldinn í mjög sérkennilegu andrúmslofti þar sem ríkisstjórnin virðist vera að veslast upp. Orðrómur er á kreiki um að forsætisráðherra sé að yfirgefa skútuna og við taki einn af forsprökkum S-hópsins, einn af þeim sem fengu ríkiseigur nánast gefins í einkavinavæðingu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og menn verða í rauninni að fara alla leið til Rússlands til að finna viðlíka ástand og var hér við einkavinavæðinguna.

Það er því miður fleira sem er líkt á Íslandi og í austurvegi og þar má nefna framkvæmd kosninga. Það er með ólíkindum að framkvæmd kosninga skuli vera með þeim hætti sem við horfum upp á. Einnig fjármál stjórnmálaflokkanna, sú leynd sem hvílir á þeim býður upp á spillingu. Við þurfum ekkert að velkjast í vafa um að dælt var ómældu fé í kosningasjóð Framsóknarflokksins sem við sáum afraksturinn af á skjám landsmanna alla daga og öll kvöld fyrir kosningar.

Ég vil taka undir þau orð að Reykvíkingar létu ekki blekkjast af þessu, þeir sáu við þessu þó svo að Framsóknarflokkurinn hafi náð að merja einn fulltrúa sinn inn í borgarstjórnina með utankjörfundaratkvæðum. Samt sem áður leikur vafi á framkvæmd kosninganna og ekki bara í Reykjavík heldur víðar. Hvar í heiminum mundu frambjóðendur vinna sjálfir í kjördeildum? Ég efast um að það gerðist í Hvíta-Rússlandi þó svo að menn telji að þar sé pottur brotinn hvað varðar lýðræðismálin. Það gerðist reyndar hér á Íslandi. Þetta er náttúrlega með ólíkindum.

Ég á ekki von á að hæstv. dómsmálaráðherra leggi mikla vinnu í að rannsaka þessi mál sem uppi hafa verið. Auðvitað ætti það að vera forgangsverkefni hjá stjórnvöldum að kveða niður þennan orðróm. Hvers vegna ætli þau leggi ekki í að rannsaka málið? Það er vegna þess að þau óttast og kannski vita að það er eitthvað til í þessu.

Ríkisstjórnin er greinilega að veslast upp og það er fleira sem bendir til þess en að menn séu að yfirgefa skútuna, það er forgangsröð hennar. Við sjáum það hér í þingsalnum að menn eru að ræða algjör aukaatriði. Menn eru að ræða um Ríkisútvarpið og nefskatt. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart að Sjálfstæðisflokkurinn vilji koma á enn einum skattinum, flokkur sem vill auka ríkisútgjöldin. Hann segir það reyndar ekki í orði en á borði eykur hann ríkisútgjöldin og finnur upp nýjan og nýjan skatt. Nú er það nefskattur í tengslum við almenningsútvarpið.

Svo er það sameining ríkisstofnana, sem Framsóknarflokkurinn stendur fyrir, sameining á alls óskyldum stofnunum svo sem Byggðastofnun og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins. Þetta er bara vitleysa. Hvers vegna halda menn áfram með þetta? Það virðist vera sært stolt sem neyðir menn til að halda þessum verkefnum áfram því að skynsemin segir okkur að hætta við. Að vísu virðist sem skynsemin hafi orðið ofan á og einhverjir hafi reynt að koma vitinu fyrir þá tvo ráðherra sem hafa verið að böðlast með þessi verkefni í þingsölum.

Hefði ekki verið nær að einbeita sér að öðrum verkefnum, t.d. að efnahagsmálunum? Það er nú verk að vinna þar. Hér geisar verðbólga. Það er eins og ríkisstjórnin hafi bara ekki frétt af því, hvað þá ef maður hlýðir á ræðu hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar, að hér sé allt í blóma. En staðreyndin er sú að lán landsmanna eru að hækka og ríkisstjórnin gerir ekki neitt, alls ekkert. Hún böðlar í gegnum þingið frumvörpum sem koma þeim málum sem brenna á fólkinu ekkert við.

Hvernig væri að taka á matarverðinu á Íslandi, taka á óréttlátum tekjutengingum sem eru að sliga öryrkja og aldraða? Nei, það eru ekki verkefnin. Þetta er náttúrlega alveg stórundarlegt.

Stundum bólar á efnahagsaðgerðum, þær eru í formi þess að einn þingmaður, Einar Oddur Kristjánsson, leggur í víking gegn fólkinu á lægstu laununum, fólkinu í umönnunarstéttunum. Hann kemur og segir að ef þetta fólk fái einhverjar bætur muni allt fara úr böndunum. En það vita allir, a.m.k. við í Frjálslynda flokknum, að það er ekki það sem er að sliga efnahagsástandið. Það er innstreymi á erlendu lánsfé, ekki þetta fólk sem er með 150 þúsund krónurnar. Mér finnst það í rauninni ósvífni að bera slíkt á borð. Við vitum að misskipting í samfélaginu hefur aukist og að bera það svo á borð fyrir landsmenn að þetta fólk valdi ólgunni í efnahagsmálunum er ósvífni sem við eigum ekki að líða.

Ég tel það orðið tímabært að landsmenn hugi að því hvort þetta séu endilega réttu mennirnir til að stjórna landinu, hvort ekki sé kominn tími til að leyfa nýjum flokki að taka við og spreyta sig á þessum málum, eins og kvótamálunum, skattamálunum, kjörum aldraðra. Þessir menn hafa sýnt það með verkum sínum að þeir hafa ekki gert neitt. Við í Frjálslynda flokknum erum tilbúin til að láta verkin tala. — Gleðilegt sumar, góðir landsmenn.