133. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2006.

varnarmál, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:05]
Hlusta

utanríkisráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Meginskylda sérhvers fullvalda ríkis er að ábyrgjast öryggi og varnir þegna sinna og lands. Í viðræðum við Bandaríkjamenn um framtíðarfyrirkomulag varna á Íslandi settu íslensk stjórnvöld sér einkum þrjú markmið. Í fyrsta lagi að tryggja varnir landsins með viðunandi hætti eftir að fastri viðveru Bandaríkjahers lyki. Í öðru lagi að semja um skil á svæðum og mannvirkjum og í þriðja lagi að tryggja snurðulausa yfirtöku Íslands á rekstri alþjóðaflugvallarins í Keflavík.

Fyrirsvar í þessum viðræðum var hjá forsætisráðuneytinu sem var í samræmi við það fyrirkomulag sem tekið var upp fyrir nokkrum árum. Þótt við hefðum vissulega viljað sjá frekari skuldbindingu Bandaríkjamanna, t.d. hvað varðar viðveru herliðs og hreinsun svæða, tel ég að samningsmarkmið okkar hafi náðst og að þessu samningaferli sé því vissulega farsællega lokið.

Nú um stundir er þess minnst að 20 ár eru liðin frá leiðtogafundinum í Höfða, sem segja má að hafi markað upphafið á endalokum kalda stríðsins, og fimm ár frá því að stórfelld hryðjuverkaárás var gerð á Bandaríkin. Lok kalda stríðsins og hryðjuverkaógnin hafa breytt heimsmyndinni og orðið til þess að ríki heims hafa endurskilgreint og endurskoðað varnir sínar og öryggisráðstafanir. Íslensk stjórnvöld hafa ekki látið sitt eftir liggja og má þar nefna aukna þátttöku á alþjóðlegum vettvangi, ekki síst í Atlantshafsbandalaginu og aðgerðum þess. Nýgert samkomulag við Bandaríkin endurspeglar þá breyttu heimsmynd sem við nú stöndum frammi fyrir. Brotthvarf varnarliðsins frá Suðurnesjum markar tímamót í varnarsamstarfi okkar við Bandaríkin, rúmri 55 ára samfelldri viðveru bandarísks varnarliðs á Íslandi er lokið.

Hæstv. forseti. Ef skilgreina á viðmiðanir fyrir öryggi og varnir Íslands þarf að líta til þeirra ógna sem að okkur kunna að steðja og stöðu okkar í samfélagi þjóðanna. Þótt friðsælt sé á Norður-Atlantshafi nú um stundir er fyrir fram ekki hægt að útiloka að breytingar verði þar á. Þótt okkur finnist við örugg og úr alfaraleið þurfum við rétt eins og aðrar þjóðir að standa vel á verði gagnvart alþjóðlegum hryðjuverkahópum sem engu eira og ekkert er heilagt.

Fyrir skömmu komu t.d. bresk og bandarísk yfirvöld í veg fyrir meiri háttar tilraun til hryðjuverka sem beindust gegn farþegaþotum sem fljúga áttu yfir Atlantshafið. Þá liggur fyrir að flug- og skipaumferð um Norður-Atlantshaf mun aukast til mikilla muna á næstu árum, m.a. vegna olíu- og gasvinnslu og flutninga. Varnir gegn hefðbundnum ógnum þurfa einnig að vera til staðar eins og varnarviðbúnaður nágrannaríkja okkar ber vitni um.

Öryggis- og varnarstefna Íslands hlýtur að taka mið af legu landsins á miðju norðanverðu Atlantshafi og smæðar þjóðarinnar. Við hljótum að líta til vesturs og rækta samskipti okkar við Bandaríkin. Varnarsamkomulagið veitir okkur rammann til þess á grundvelli varnarsamningsins frá 1951 sem áfram er í fullu gildi og hefur reynst okkur mjög farsæll á liðnum áratugum. Varnarsamstarf þjóðanna á sér ekki hliðstæðu og ljóst er að margar þjóðir vildu gjarnan njóta þeirrar sérstöku verndar sem varnarsamningurinn veitir okkur. Það verður hins vegar áfram viðfangsefni beggja þjóða að fullmóta og slípa tvíhliða varnarsamstarf á grundvelli þessa nýja samkomulags. Skiptir þar framtíð ratsjárstöðvanna og áframhaldandi rekstur þeirra allra miklu en þær hafa margsannað gildi sitt í áranna rás.

Við brottför varnarliðsins tekur Ísland á sig ábyrgð gistiríkis innan Atlantshafsbandalagsins sem Bandaríkin hafa sinnt fyrir okkar hönd til þessa. Keflavíkurflugvöllur og NATO-mannvirki þar sem og ratsjárstöðvarnar fjórar eru enn skilgreind varnarmannvirki sem eru til afnota fyrir aðildarríki bandalagsins á okkar vegum. Við hljótum jafnframt að líta til varnarmála í alþjóðlegu samhengi og mjög mikilvægt er að halda áfram að efla þátttöku okkar á vettvangi Atlantshafsbandalagsins. Í þeim efnum er brýnt að hefja þátttöku og greiðslu í Mannvirkjasjóð bandalagsins, efla fastanefnd Íslands, auka þátttöku í borgaralegum friðargæsluverkefnum og bjóða bandalagsríkjum hingað til lands til æfinga og að hafa afnot af því svæði á Keflavíkurflugvelli sem áfram verður nýtt í þágu varna. Vitað er að áhugi er fyrir hendi meðal ýmissa bandalagsríkja á slíku og vinna þarf að þeim málum með skipulegum hætti.

Sem Evrópuþjóð hljótum við að fylgjast grannt með þróun öryggis- og varnarmálastefnu Evrópusambandsins, ESDP, sem þróast hefur hratt undanfarin ár. Þannig var samevrópsk öryggismálastefna samþykkt fyrir hartnær þremur árum og stjórnmála- og öryggismálanefnd sem og hermálanefnd og hermálastarfslið eru nú starfandi innan sambandsins. Hernaðarbolmagn er að aukast og sett hefur verið saman 60 þúsund manna viðbragðslið. Evrópsk varnarmálastofnun var sett á fót árið 2004 og er ætlað að stuðla að samhæfingu og samvinnu á hernaðarsviðinu. Þá var samstöðuákvæði aðildarríkja ESB samþykkt eftir hryðjuverkaárásina í Madrid árið 2004 sem gerir ráð fyrir að aðildarríkin bregðist sameiginlega við ef eitt þetta verður fyrir hryðjuverkaárás. Þó öryggis- og varnarmálastefna ESB sé enn þá ófullburða er hún í örri þróun og til lengri tíma litið skyldi alls ekki útiloka að Ísland geti leitað samstarfs við ESB á sviði öryggismála.

Önnur hlið á Evrópusamstarfinu snýr að Schengen, samstarfi sem við höfum notið góðs af og munum styrkja enn frekar. Þá hljótum við að líta til okkar næstu nágranna, svo sem Noregs, Danmerkur, Færeyja, Bretlands og Kanada, um samstarf á sviði leitar- og björgunarmála. Síðast en ekki síst hljótum við að líta okkur nær og taka aukna ábyrgð á eigin öryggi og vörnum. Samningaferli það sem nú hefur verið leitt farsællega til lykta, en var okkur ekki auðvelt, þarf að verða okkur áminning um nauðsyn þess að standa vel á verði um öryggishagsmuni okkar. Við þurfum að efla okkar eigin viðbúnað og þekkingu þannig að við getum brugðist við þeim öru breytingum sem eru að verða á umhverfi okkar í öryggis- og varnarmálum. Í því ljósi ber að líta á ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að stórefla Landhelgisgæslu Íslands og lögreglu, að setja á fót miðstöð um öryggismál innan lands og endurskoða lög um almannavarnir. Í því ljósi ber að líta á samstarfsvettvang fulltrúa stjórnmálaflokkanna til að fjalla um öryggis- og varnarmál.

Hæstv. forseti. Brottför varnarliðsins hefur vitaskuld áhrif á þjóðina alla en Suðurnesjamenn standa þó frammi fyrir sérstakri áskorun í því tilliti. Heilt bæjarfélag með tilheyrandi mannvirkjum og innviðum er horfið á braut. Ríkisstjórnin hefur kappkostað að gera alla undirbúning eins vel úr garði og unnt er með tilliti til hagsmuna Suðurnesja. Þar er lykilatriði að snurðulausum rekstri Keflavíkurflugvallar, sem er mikilvægasta samgöngumannvirki okkar Íslendinga, sé viðhaldið. Í því skyni voru gerðar ráðstafanir, m.a. í samningum við Bandaríkjamenn, til að halda nauðsynlegum búnaði vegna rekstrar flugvallarins og nýta áfram þá miklu sérþekkingu sem býr í starfsmönnum vallarins. Þá hefur ríkisstjórnin ákveðið að stofnað verði hlutafélag í eigu ríkisins um framtíðarþróun og umbreytingu fyrrverandi varnarsvæðis á Keflavíkurflugvelli. Verkefni félagsins verði að koma svæðinu og mannvirkjum þar í arðbæra borgaralega notkun. Enn fremur mun félagið bera ábyrgð á og annast rekstur og umsýslu nánar tiltekinna eigna á svæðinu, útleigu, sölu, hreinsun og niðurrif eftir því sem við á.

Hæstv. forseti. Áskorunum fylgja tækifæri sem stundum þarf framsýni og þrótt til að greina og grípa. Reynsla erlendis frá, til að mynda í Þýskalandi, þar sem töluvert hefur verið um lokun herstöðva, sýnir að með góðu skipulagi, ásetningi og samvinnu ríkis og sveitarfélaga má vinna mjög vel úr slíkum viðfangsefnum. Nú þegar hefur náðst mjög góður árangur í þeim efnum og hefur stór hluti af þeim starfsmönnum varnarliðsins sem sagt hefur verið upp störfum fundið ný störf. Það skiptir mestu að nú þegar hafa um 150 fyrrum starfsmenn varnarliðsins verið ráðnir til að starfa hjá flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli við ýmis störf sem varða rekstur alþjóðaflugvallarins. Við Íslendingar og Suðurnesjamenn sérstaklega erum í ákjósanlegri stöðu til að mæta þessari nýju og ögrandi áskorun. Möguleikarnir sem felast í nálægðinni við alþjóðaflugvöll landsins eru nánast óþrjótandi. Flugvöllurinn er ekki einungis steinsnar frá blómlegum byggðarlögum í næsta nágrenni og höfuðborgarsvæðinu heldur tengir hann Ísland við umheiminn og Evrópu við Norður-Ameríku. Raunar má færa gild rök fyrir því að vera varnarliðsins hér á landi hafi staðið þróun alþjóðaflugvallarins að nokkru leyti fyrir þrifum og hamlað vexti hans. Brotthvarf varnarliðs Bandaríkjanna kann því að skapa ný og ákjósanleg tækifæri, t.d. í markaðs- og viðskiptalegu tilliti. Ég leyfi mér að fullyrða að í Evrópu séu fá dæmi um alþjóðaflugvöll sem hefur jafnmikið rými til aukins vaxtar og möguleika til stækkunar athafnasvæðisins. Yfirleitt eru alþjóðaflugvellir í nágrannaríkjum okkar aðþrengdir og möguleikarnir til frekari vaxtar litlir sem engir. En á Keflavíkurflugvelli gegnir öðru máli og þar liggja tækifærin. Ég bind því miklar vonir og trú við störf hlutafélagsins sem efalítið mun fá margar góðar hugmyndir til að vinna úr og ég er bjartsýn fyrir hönd Suðurnesja.

Hæstv. forseti. Ákvörðun Bandaríkjastjórnar þann 15. mars um að kalla varnarliðið af landi brott kom illa við íslensk stjórnvöld, enda stóð þá yfir samningaferli um kostnaðarskiptingu á rekstri og viðhaldi Keflavíkurflugvallar. Engu að síður ákvað ríkisstjórn Íslands að láta reyna á frekari samninga við Bandaríkjamenn. Það reyndist farsæl ákvörðun. Með varnarsamkomulaginu við Bandaríkin, frekari samvinnu við aðra bandamenn og nágrannaþjóðir og uppbyggingu eigin getu í öryggismálum hafa íslensk stjórnvöld uppfyllt þá frumskyldu sína að ábyrgjast öryggi þegna sinna og varnir landsins.