133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[11:42]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, það eru víða fastir liðir eins og venjulega. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson tekur sömu ræðuna hér árlega og fer með þessa merku speki. Eins og fram kom í máli hv. þingmanns skiptir raunverulega engu máli hvað aðrir segja eða hvað aðrir stúdera, sama hvað þeir gera, hversu fróðir þeir eru um málið, það virðist engu máli skipta. Staðreyndirnar eru algjörlega kristaltærar í huga hv. þingmanns.

Hann nefndi ýmislegt og spurði m.a. um hvað Samfylkingin hefði viljað gera fyrir ári síðan. Hv. þingmaður getur auðvitað farið í þingskjölin og séð það því að við lögðum að sjálfsögðu fram tillögur um breytingar á fjárlögum þar sem við m.a. gerðum ráð fyrir því að afgangur yrði aukinn. En megináhersla okkar hefur ætíð verið sú að fjárlögin væru alvörufjárlög, þ.e. að áætlunargerðin stæðist og tekið væri á sjálfvirkum útgjöldum ríkissjóðs og menn vissu nákvæmlega hvað fjárlög þýddu og það væri eftir þeim farið. Þetta hef ég haldið fram að þessu, frú forseti, að hv. þingmaður væri sammála mér um. Mér heyrist að nú sé einhver beygja komin í málið og það veldur mér ugg vegna þess að ég var að vonast til þess að nú mundi fjárlaganefnd sýna dug og fara almennilega yfir málin og gera einu sinni þær breytingar á fjárlagafrumvarpinu sem þörf er á, þ.e. að meiri hluti fjárlaganefndar hætti því loks að vera stimpill fyrir ríkisstjórnina og færi nú að taka alvarlega á hlutunum.

Frú forseti. Ég hef hér örlítið plagg varðandi fullyrðingar hv. þingmanns varðandi skattbyrði og annað þess háttar og þar blasir við að það sem hv. þingmaður var að mótmæla er algjörlega rangt. Það blasir líka við að þrátt fyrir að verið sé að hækka barnabætur nú þá dugar það ekki til að mæta öllum þeim skerðingum sem átt hafa sér stað á undanförnum árum.