133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

Kárahnjúkavirkjun og Hálslón, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra.

[11:49]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir greinargóða skýrslu um framkvæmdir við Kárahnjúka og þau miklu umsvif sem nú eru fram undan og eru staðreynd á Austurlandi. Ég er sammála hæstv. ráðherra í því að þessi umræða er nauðsynleg og þar af leiðandi ekki sammála málflutningi hv. formanns Samfylkingarinnar, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, þar sem hún efast um tilgang þessara umræðna.

Við höfum nú leitt það í ljós hér að sú samhenta stjórnarandstaða sem boðað hefur að hún ætli að setjast í ríkisstjórn á næsta ári kynnir þrjár ólíkar stefnur í stóriðjumálum á Íslandi. Í fyrsta lagi að Vinstri grænir eru á móti allri stóriðju. Í öðru lagi að Samfylkingin ætlar að setja a.m.k. fimm ára stóriðjustopp, svona til að nálgast Vinstri græna að einhverju leyti. Í þriðja lagi kemur svo hv. formaður Frjálslynda flokksins, Guðjón Arnar Kristjánsson, og boðar álver við Húsavík og þakka ég honum fyrir þann stuðning í því mikilvæga máli. Hér hafa því komið þrjár ólíkar skoðanir hjá þremur stjórnarandstöðuflokkum. Ég held að við stjórnarliðar þurfum að hjálpa stjórnarandstöðunni í því að samræma málflutning sinn í þessum efnum.

Það er ekki nóg með það að stjórnarandstaðan sé ósammála innbyrðis heldur virðist hv. formaður Samfylkingarinnar vera í töluverðum vandræðum í sínum málflutningi því að þær mótsagnir sem komu fram hjá hv. þingmanni áðan voru með ólíkindum. Hv. þingmaður fór yfir hnignun byggðar á Austurlandi á undanförnum árum og talaði um að þurft hefði að styrkja atvinnulífið þar. Ég er sammála hv. þingmanni um það. Stuttu síðar fór hv. þingmaður yfir það að Framsóknarflokkurinn og stjórnarflokkarnir hefðu farið offari í því að byggja upp þennan stóra vinnustað á Austurlandi, því að það hefði enginn atvinnubrestur verið í þjóðfélaginu á þeim tíma.

Ég skora á hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur að kynna sér hvernig ástatt var í atvinnumálum Austfirðinga á sínum tíma. (Gripið fram í.) Eins og hæstv. iðnaðarráðherra fór hér yfir var hnignun í nær öllum atvinnugreinum og ef það er ekki samdráttur í atvinnulífi í heilum fjórðungi og neyðarástand sem hefði þurft að bregðast við þá veit ég ekki hvað hv. þingmaður kallar samdrátt.

Síðan er það svo að hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir virðist vera búin að gleyma því að hún lagði blessun sína yfir þessa framkvæmd. Það var einkavæðingartónn í ræðu hv. þingmanns þegar hún talaði um að trúlega hefði verið réttast að stofna um þetta verkefni einkahlutafélag sem mundi lúta áhrifum markaðarins. Samt sem áður er það staðreynd að hv. þingmaður studdi það að ríkið kæmi að þessu máli með ábyrgðum. Hún skrifaði fyrir hönd Reykvíkinga upp á lánsábyrgð vegna þessarar framkvæmdar. En hv. þingmaður virðist hafa töluverða eftirsjá í þessu máli, því að hún sagði á dögunum að batnandi mönnum væri best að lifa og er þar af leiðandi að tala til andstæðinga þessara framkvæmda um að Samfylkingin hafi hringsnúist á punktinum í þessu efni.

Hv. þingmaður talaði um arðsemi verkefnisins. Ég vil spyrja hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu hvers virði það sé að sjá byggðirnar rísa og fasteignaverð færast nær því sem gengur og gerist á stærri þéttbýlisstöðum eins og við sjáum núna fyrir austan. Hvers virði er það að sjá mannlífið blómgast eins og nú er staðreynd á Miðausturlandi? Og hvers virði er það að sjá þá bjartsýni sem nú ríkir á Austurlandi í stað þess hugarástands sem ríkti á þar fyrir örfáum árum? Er hægt að meta alla þessa þætti í krónum og aurum að mati hv. formanns Samfylkingarinnar, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur?

Hæstv. forseti. Það er nefnilega svo að stöðug fólksfækkun, lágt húsnæðisverð og ekki nægjanlegur fjölbreytileiki í atvinnulífi einkenndi Miðausturland fyrir örfáum árum. Fólk flutti í ríkum mæli burt og fann sér atvinnu við hæfi, oftar en ekki var það á suðvesturhorni landsins. Það var samdráttur, eins og ég sagði hér áðan, í nær öllum atvinnugreinum í fjórðungnum. (Gripið fram í: Hverjir höfðu …?) Það var þungt í fólki (SJS: Hvers konar …?) enda Austfirðingar búnir að berjast fyrir því, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, um áratugaskeið að byggja upp atvinnulíf á Austurlandi. Og við skulum hafa það í huga, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, að eina stóriðjan sem staðsett er hér á landi er á höfuðborgarsvæðinu og ég hef ekki heyrt hv. þingmenn Vinstri grænna mótmæla stækkun á Grundartanga í miklum mæli. Nei, það skal snúa sér að Austfjörðum, umbjóðendum hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. (Gripið fram í.) Það skal snúa sér að Austfirðingum.

Það er þannig, hæstv. forseti, að ég er mjög stoltur af því sem þingmaður þessa kjördæmis að áratugabaráttumál Austfirðinga virðist nú vera í höfn. Það er líka ekkert óeðlilegt að Þingeyingar og Akureyringar sameiginlega skuli berjast fyrir sams konar uppbyggingu og nú á sér stað á Austurlandi. Því miður er það staðreynd að Samfylkingin hefur sett stóriðjustopp á þær framkvæmdir og Vinstri grænir munu aldrei samþykkja þær framkvæmdir. Er það óeðlileg krafa íbúa á landsbyggðinni að byggja upp atvinnulífið með þeim hætti líkt og við höfum verið að gera á höfuðborgarsvæðinu? (Gripið fram í: Hvernig væri að leyfa þeim að sækja sjóinn?) Við hljótum að gera þá sjálfsögðu kröfu að íbúar á landsbyggðinni njóti fjölbreytni í atvinnulífi líkt og íbúar á höfuðborgarsvæðinu.

Álverið í Straumsvík og álverið á Grundartanga hafa fært hundruðum manna mjög eftirsótt störf, það er eftirsótt að vinna á þessum vinnustöðum. Ég fullyrði að höfuðborgarsvæðið í dag væri allt annað ef þessir stóru vinnustaðir væru ekki til staðar í Hafnarfirði og á Grundartanga. (Gripið fram í.) Það eru mörg hundruð eða þúsundir starfa, afleiddra starfa, sem skapast í kringum þessa stóru vinnustaði. Þegar hv. stjórnarandstaða talar um þá áherslu sem við eigum að leggja á uppbyggingu lítilla og meðalstórra fyrirtækja tek ég undir með stjórnarandstöðunni í þeim efnum. En hverjir eru að þjónusta þessa stóru vinnustaði? Það eru lítil og meðalstór fyrirtæki. Hverjir munu þjónusta álver á Húsavík ef það verður að veruleika, eins og við framsóknarmenn og trúlega sjálfstæðismenn ætla sér? Akureyringar munu þjónusta það fyrirtæki, lítil og meðalstór fyrirtæki á Akureyri munu þjónusta þennan mikilvæga vinnustað á Bakka við Húsavík. En það er ekkert í hendi í þeim efnum, það er mikil andstaða hér í þingsal gegn atvinnuuppbyggingu á Norðausturlandi í þeim efnum en við framsóknarmenn og stjórnarmeirihlutinn munum standa vörð um það að byggja upp slíka atvinnu þar. (Gripið fram í: Hvað ætlarðu að gera við Grímsey?)

Hæstv. forseti. Þær ábyrgðarlausu hugmyndir sem hafa komið fram hjá stjórnarandstöðunni um að fresta fyllingu Hálslóns eru vissulega umræðuefni í þessari umræðu. Þar er um svo óábyrgt tal að ræða að það tekur ekki nokkru tali. Það er verið að tala um að fresta eigi fyllingu Hálslóns, fara í mjög umfangsmiklar rannsóknir á þessari stóru framkvæmd sem hefur verið fullrannsökuð, en eins og kom fram hjá hæstv. iðnaðarráðherra hefur engin framkvæmd á vegum Landsvirkjunar hlotið eins miklar rannsóknir og bygging Kárahnjúkavirkjunar. Við hefðum því verið að fresta orkuafhendingu Landsvirkjunar til Fjarðaáls um óákveðinn tíma, trúlega lengri tíma en skemmri. Alcoa hefur samið við viðskiptavini sína erlendis skuldbindandi um útflutning á þeirri framleiðslu sem þarna er um að ræða, þannig að íslenskir skattborgarar hefðu á endanum orðið skaðabótaskyldir upp á marga milljarða króna. Þetta er innlegg stjórnarandstöðunnar í þessu stærsta atvinnumáli Íslandssögunnar. Fyrir utan það að þeir 400 starfsmenn sem bíða eftir að fara að starfa hjá Fjarðaáli hefðu trúlega ekki haft mikið að gera á meðan, trúlega hefði þurft að seinka því að ráða í þau störf og væntanlega hefði það haft áhrif á þau 500–600 afleiddu störf sem framkvæmdin skapar. Eitt þúsund störf á Austurlandi hefðu orðið í uppnámi á Austurlandi vegna þessa. Hefði það styrkt Miðausturland? Nei, það hefði ekki styrkt Miðausturland, það er á hreinu.

Það er því mjög mikilvægt að ábyrg stjórnvöld standi að þessari framkvæmd sem er mjög vel undirbúin eins og hæstv. iðnaðarráðherra kom inn á áðan. Það er óábyrg stjórnarandstaða sem talar með þvílíkum hætti um þessa framkvæmd, sáir fræjum efa og ótta, ekki síst hjá Austfirðingum, að stíflan muni trúlega bresta og að stjórnarflokkarnir séu að tefla Austfirðingum í tvísýnu með þessari framkvæmd. Það er með ólíkindum að hlusta á málflutning hv. formanns Samfylkingarinnar sem er komin í marga hringi í þessari umræðu, það er með ólíkindum að hlusta á málflutning stjórnarandstöðunnar allrar sem er innbyrðis ósammála um alla hluti í þessu máli. En þetta er ekki eini málaflokkurinn þar sem stjórnarandstaðan er ósammála, hún hefur komið hér fram með mjög ótrúverðugum hætti.