133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

ný framtíðarskipan lífeyrismála.

3. mál
[15:33]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Frú forseti. Núna í upphafi þings leggja Samfylkingin, Frjálslyndi flokkurinn og Vinstri hreyfingin – grænt framboð sameiginlega fram tillögu til þingsályktunar sem tekur á kjörum lífeyrisþega. Eins og komið hefur fram í dag ber tillagan heitið Ný framtíðarskipan lífeyrismála og ber vott um forgangsröðun stjórnarandstöðuflokkanna.

Þegar maður lítur síðan yfir þingsalinn sér maður glöggt að hér er enginn þingmaður eða ráðherra frá Sjálfstæðisflokknum og lýsir það áhugaleysi þeirra og forgangsröðun, þeir nenna varla í þingsalinn eða í umræður ef ekki er verið að ræða um einkavæðingu eða eitthvað slíkt.

Fulltrúar Landssambands eldri borgara hafa lýst yfir ánægju með þessa þingsályktunartillögu. Jafnframt er það staðfest að þessi tillaga gengur mun lengra en yfirlýsing ríkisstjórnarinnar frá því fyrr á árinu og auk þess taka þessar aðgerðir okkar gildi mun fyrr en í umræddri yfirlýsingu.

Frú forseti. Er þörf á þessari tillögu nú á dögum góðæris og útrásar? Já, svo sannarlega því að þótt sumir séu í raun tregir til að viðurkenna það er öllum ljóst að kaupmáttur lífeyris er ekki í neinu samræmi við það sem hefur verið að gerast á vinnumarkaðnum. Afkoma eldri borgara á Íslandi er ekki mannsæmandi og alls ekki fjórðu ríkustu þjóð heims. Fjármagnið er til, þetta er einungis spurning um vilja og forgangsröðun.

Á tíu ára tímabili, frá 1995–2005, hefur kaupmáttur lágmarkslauna aukist um allt að 56% en kaupmáttur lífeyris aðeins um 25%. En það var einmitt árið 1995, eins og oft hefur komið fram hér áður, sem ríkisstjórnin klippti á tengsl launa og lífeyris. Í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur samfélagið verið að þróast í átt til aukins ójafnaðar, bæði með mælanlegum og áþreifanlegum hætti.

Í blaðagrein í fyrra skrifaði eldri borgari um kjör sín að framin væru á honum mannréttindabrot daglega og að Alþingi fyndist það allt í lagi. Þessi alhæfing á sem betur fer ekki við um okkur öll, ekki alla þingmenn, og ætti þessi tillaga að bera vott um hug okkar og forgangsröðun.

Sú tillaga til þingsályktunar sem við í stjórnarandstöðunni leggjum nú fram tekur í aðalatriðum á tekjutryggingu, frítekjum vegna atvinnutekna, ráðstöfunarfé eða svokölluðum vasapeningum, skilgreiningu neysluútgjalda, afnámi tengsla lífeyrisgreiðslna við tekjur maka og að öryrkjar haldi aldurstengdri örorkuuppbót þegar farið er á lífeyri.

Frú forseti. Þingmenn stjórnarandstöðunnar með formann Samfylkingarinnar í fararbroddi hafa farið nokkuð ítarlega yfir tillöguna og er það að sjálfsögðu von okkar að hún fái skjóta og jákvæða afgreiðslu á þinginu. Tillagan mun bæta afkomu margra eldri borgara og öryrkja og rétt er að ítreka það að stór hluti í þeim hópi eru konur. Því er hér um jafnréttismál að ræða. Í þessum töluðu orðum heyrast hér hróp og köll frá Austurvelli. Þar eru námsmenn að mótmæla framgangi ríkisstjórnarinnar í skólamálum. Þeir bera kröfuspjöld og á einu þeirra stendur: Jafnrétti til náms.

Frú forseti. Það er í raun sama hvert litið er á valdatíma þessarar ríkisstjórnar, alls staðar rísa menn upp og krefjast jafnréttis, krefjast jafnaðar. Þessi tillaga stjórnarandstöðuflokkanna er góð viðleitni í því skyni.