133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[23:42]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vildi ganga úr skugga um hvort ekki standi til að ljúka þessum fundi hér og nú. Þessi umræða er búin að standa nær linnulaust frá því klukkan fjögur eða fimm sennilega. Hér var haldinn kvöldfundur gegn mótmælum stjórnarandstöðunnar og við höfum ekki fengið það nákvæmlega skilgreint hvað kvöldfundur þýðir en samkvæmt okkar skilningi gengur hann ekki inn í næsta sólarhring, það er alveg ljóst. Klukkan er að verða tólf á miðnætti, vantar 16 mínútur í tólf. Ræðutími í 1. umr. eru 40 mínútur, þannig að það er ljóst að næsti ræðumaður gæti farið með umræðuna vel inn í næsta sólarhring. Ég tel ekki forsvaranlegt að halda fundinum áfram og óska eftir svörum frá hæstv. forseta við þeirri fyrirspurn minni hvort það sé ekki rétt skilið hjá mér að fundi verði slitið núna.