133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

rannsóknir á meintum hlerunum – áhrif Kárahnjúkavirkjunar á efnahagslífið.

[13:38]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég skora á hæstv. ríkisstjórn að ná sönsum í þessum hlerunar- og leyniþjónustumálum. Það verður ríkisstjórninni aðeins til minnkunar og bakar henni vandræði að halda áfram að þæfa þetta mál. Alþingi getur ekki látið bjóða sér að framkvæmdarvaldið þumbist við eins og allt er í pottinn búið. Þetta mál snýst ekki bara um einhver skjöl og ekki bara um hleranir á einhverjum einum eða fáeinum símum. Það þarf að rannsaka þessa atburði, aðferðirnar, vinnubrögðin ofan í kjölinn og síðan þarf að bregðast við. Það þarf m.a. að ákveða hvort ekki sé rétt að bjóða upp á skaðabætur eða miskabætur því fólki sem sannanlega hlaut skaða af, ólögmætri innrás í friðhelgi einkalífs þess, varð af stöðuveitingum og hvaðeina vegna skoðana sinna einna. Við þurfum ekki í þessu tilviki að sækja vatnið yfir lækinn. Það vill svo vel til, eins og ég hef áður bent á í umræðum um þessi mál, að við getum í öllum aðalatriðum fylgt fordæmi Norðmanna þar sem almenn samstaða ríkir nú um að vel hafi tekist til með að gera slík mál upp á grundvelli rannsókna Lund-nefndarinnar og tillagna í framhaldinu hvernig norsk stjórnvöld skyldu bregðast við.

Ég legg til og fer fram á það að formenn stjórnmálaflokkanna og formenn þingflokkanna hittist á allra næstu dögum til að fara sameiginlega og rækilega yfir þessi mál. Það er öllum fyrir bestu að reyna að taka málefnalega og uppbyggilega á þessu. Ef ríkisstjórnin hins vegar heldur áfram að þumbast við með þeim hætti sem viðbrögð því miður hæstv. dómsmálaráðherra fram að þessu hafa bent til, þá er ekki um annað að ræða en Alþingi taki alfarið málið í sínar hendur og setji niður rannsóknarnefnd sem hér verður þá að starfa, sem er reyndar svipað og gerðist í Noregi því ónefndur flokkur þar þæfðist lengi við.