133. löggjafarþing — 17. fundur,  31. okt. 2006.

úttekt á hækkun rafmagnsverðs.

5. mál
[14:04]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það mál sem við ræðum er þingsályktun um að gera úttekt á þróun rafmagnsverðs hér á landi í kjölfar lagasetningar um raforkulögin svokölluðu sem ollu miklum deilum á Alþingi á sínum tíma. Málsmeðferðin varð að vissu leyti nokkuð sérstæð því inn í málsmeðferðina var sett sérstök nefnd til að taka m.a. á þeirri gagnrýni sem kom upp fyrst eftir að málið kom fram og sneri einkum að því að mjög margir alþingismenn á hv. Alþingi, einnig í stjórnarliðinu, höfðu áhyggjur af því að sú breyting sem stefnt var að mundi verða til þess að raforkuverð í landinu mundi hækka. Niðurstaðan varð sú að menn kláruðu þetta mál eftir að nefnd sú sem sett var á laggirnar skilaði áliti sínu og raforkulögin voru gerð að lögum.

Það hefur hins vegar ekki breytt því, hæstv. forseti, að það sem menn óttuðust, m.a. sá sem hér stendur og ræddi nokkrum sinnum úr þessum ræðustól, að raforkuverð, einkum í dreifbýli, mundi hækka verulega og þetta yrði m.a. til þess að vega enn frekar að veikri stöðu landsbyggðarinnar og búsetuskilyrðum fólks í hinum dreifðu byggðum. Það virðist því miður hafa gengið eftir, að raforkuverð hafi hækkað með allt öðrum hætti en gert var ráð fyrir og að það fyrirkomulag niðurgreiðslna og annað sem tekið hefur verið upp til að vega á móti þessum breytingum hafi ekki náð þeim markmiðum að tryggja jöfnuð sem var þó markmiðið með lögunum að hluta, þ.e. að tryggja jöfnuð um landið og að ekki yrðu verulegar breytingar á raforkuverðinu til einstakra notenda, því það var ekki beint markmið laganna.

Nægir í því sambandi, hæstv. forseti, að vitna til andsvars hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur, við þeirri ræðu sem sá sem hér stendur flutti um málið, 14. mars 2003, en þar sagði, með leyfi forseta:

„…auðvitað höfum við miklar áhyggjur af því hvernig þetta mál er í pottinn búið því að ef ekki verður eðlileg niðurstaða varðandi verðlagningu, flutning og jöfnun raforkuverðs út úr þessari nefndarskipun“ — sem þá var verið að ræða og niðurstaðan ef til vill með þeim hætti að „það væri eiginlega það versta sem gæti hent landsbyggðina.“ — Það voru mín orð og enn fremur: „Frumvarpið eins og það er er hótun gagnvart landsbyggðinni um að enn verði vegið að kjörum fólks þar. Þess vegna lýsi ég því yfir, herra forseti, að við í Frjálslynda flokknum munum greiða atkvæði gegn þessu frumvarpi.“ Sagði ég á þeim tímapunkti.

Við þessum orðum mínu brást hæstv. iðnaðarráðherra með stuttu andsvari. Nægir að lesa hennar síðustu orð í niðurlagi andsvarsins við þeim orðum mínum, með leyfi forseta:

„Það er ekki rétt sem hann“ — þ.e. sá sem hér stendur — „er að reyna að koma á framfæri, að það sé minn vilji, sem legg fram þetta frumvarp og ber ábyrgð á því, að níðast á landsbyggðinni. Það er ekki rétt.“ — Síðan segir: „Það verður séð til þess, því skal ég lofa,“ — þetta eru orð iðnaðarráðherra — „að það gangi ekki eftir sem hv. þingmaður talaði um í ræðu sinni.“ — Þ.e. að orkuverð til hinna dreifðu byggða, bænda og iðnfyrirtækja um landið, muni hækka verulega

Við flytjum þessa tillögu vegna þess að við viljum fá úttekt á þessu máli um hvernig rafmagnsverð hafi þróast. Tillagan skýrir þetta mál, en í henni segir:

„Alþingi ályktar að gerð verði úttekt á því hvaða breytingar hafa orðið á rafmagnsverði til almennra notenda og fyrirtækja í kjölfar breytinga sem urðu á skipulagi raforkumarkaðarins áramótin 2004/2005. Gerð verði grein fyrir þróun raforkuverðs sundurliðað eftir helstu notendaflokkum og gjaldskrársvæðum. Niðurstaða úttektarinnar, sem nái til allra tegunda viðskipta með raforku, liggi fyrir 15. febrúar 2007.“

Það er ósk okkar að úttektin verði kláruð á tilteknum tíma þannig að okkur takist að bregðast við niðurstöðum könnunarinnar á yfirstandandi þingi.

Auðvitað er það svo að búið er að stíga þessi skref um markaðsvæðinguna. Ég hygg að ekki verði snúið ofan af því öllu saman sem gerst hefur í þeim efnum.

Hvað er þá til ráða ef í ljós kemur, sem við sem erum að biðja um þessa úttekt óttumst og þykjumst vita, að niðurstaðan hafi orðið sú að fólk hafi fengið allt aðrar útkomur út úr þessu máli en áður hafði verið boðað af stjórnvöldum með hækkun raforkuverðs? Hvað er þá til ráða?

Það er annaðhvort að auka niðurgreiðslurnar og jafna orkuverðið til heimila í dreifbýlinu og þeirra sem verst hafa farið út úr þessari breytingu. Eða þá, eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson vék að, að efla samkeppnismarkmiðin, m.a. með því að velta upp hvort æskilegt væri að skipta raforkumarkaðnum upp þannig að það væru fleiri aðilar sem væru í samkeppni á markaðnum en nú er. Ég tel að það komi alveg til greina. Markmið okkar er eingöngu að leiða í ljós hverjar afleiðingar þessara laga hafa verið og ná svo að koma fram lagfæringum og taka á því máli.

Það hlýtur að vera skylda okkar þingmanna, þegar við höfum sett lög sem við höldum, a.m.k. mörg okkar, að hafi ekki náð þeim markmiðum sem stjórnvöld stefndu að, þá beri að takast á við það mál og þess vegna er eðlilegt að slík könnun sem við leggjum til fari fram og síðan vonandi berum við gæfu til að lagfæra málið. (Forseti hringir.)