133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

útræðisréttur strandjarða.

140. mál
[15:18]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hér er verið að ræða mál sem er á margan hátt mjög mikilvægt, þ.e. að þessi forni réttur bænda til að nýta auðlindir sínar sé virtur. Að sjálfsögðu tek ég fyllilega undir með hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni í þessum efnum.

Svör hæstv. ráðherra koma hins vegar ekki á óvart. Það er greinilega enginn vilji hjá ríkisstjórnarflokkunum til að virða þessi fornu réttindi bænda og það ber að harma. Ég hygg að þetta málefni verði til umræðu í kosningunum á vori komanda. Þetta snýst um grundvallarmál.

En afstaða ríkisstjórnarinnar kemur alls ekki á óvart. Hún stendur mjög dyggan vörð um það að halda þessum nýtingarrétti á höndum örfárra einstaklinga og útilokar að sama skapi almenning, þjóðina, frá því að fá að nýta þessar sjálfsögðu auðlindir sem tilheyra landsbyggðinni. Þetta er stefna sem ber mjög að harma. Það er alveg sjálfsagt mál og eðlilegt að þetta verði allt saman tekið til endurskoðunar og það verði gerðar úrbætur í þessum efnum um leið og ný ríkisstjórn tekur við á vori komanda.