133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

heilbrigðisþjónusta.

272. mál
[17:29]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta andsvar gekk aðallega út á stjórnirnar sem búið er að leggja niður. Ég tel að tengsl íbúanna við þessar stofnanir séu frekar góð miðað við þar sem ég þekki til. Sveitarstjórnarmenn, alþingismenn og heilbrigðisráðherra sjálfur hrærast meira eða minna í þessum samfélögum og vita alveg hvað á sér stað og hvað verið er að gera inni á þessum stofnunum og hvaða þjónusta þar er veitt. Ég get bent á það sem dæmi að ég er núna að taka tillit til meðal annars áhyggna íbúanna, sveitarstjórnarmanna og þingmanna hvað varðar sameiningu stofnana. Ég er að taka tillit til þeirra. Ég er að breyta frumvarpinu og leggja það fram hérna í breyttum búningi. Þessi tengsl eru því fyrir hendi og eru að mínu mati ágæt.

Ég sagði í fyrri ræðu minni að komið hafa upp ýmis vandamál sem tengjast stjórnum yfir þessum stofnunum og þau vandamál voru ekki starfseminni til framdráttar heldur til skaða. Þetta átti sér ekkert stað í öllum stjórnum. Sums staðar gekk þetta ágætlega en annars staðar ekki. Því er eðlilegra að hafa ábyrgðarsviðið skýrt, að það sé forstjóri sem beri ábyrgð, ábyrgð gagnvart ráðherra, ábyrgð gagnvart starfseminni, bæði fjárhagslega og faglega, en faglega að sjálfsögðu ásamt þeim fagaðilum sem þar eru inni og í umboði þeirra. Ég hef því stutt það og studdi það á sínum tíma að leggja niður stjórnirnar sem voru á þessum stofnunum.