133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.

279. mál
[15:51]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að ég er algerlega ósammála hv. þingmanni. Ég tel að opinberir starfsmenn gæti skyldna sinna eins og annað fólk í vinnu. Ég sé enga ástæðu til að halda að menn vilji ekki passa upp á fjármuni ríkisins sem eiga með þá að fara. Mér finnst sérkennilega til orða tekið af hv. þingmanni að það sé ekki einu sinni álitshnekkir ef menn fara illa með opinbert fé. Ja, þvílíkt og annað eins.

Auðvitað er þetta ekki svona. Ríkið hlýtur að þurfa að hlaupa undir bagga þegar einkaframtakið brestur þor og kjark. Þá verður ríkið að koma inn í. Það er gert með þessu. Hv. þingmaður mun auðvitað samþykkja þetta frumvarp eins og öll önnur frumvörp sem ríkisvaldið hefur sett í gegnum Alþingi á undanförnum árum. Hann hefur ævinlega stutt þessa ríkisstjórn þegar á þarf að herða.