133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

280. mál
[18:49]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í öllum umræðum um þetta mál hef ég reynt að átta mig á því hvaða hagræðingu menn sjá út úr því að sameina þessar stofnanir. Það liggur fyrir að þeir sem skoðuðu samlegðaráhrif af þessum tveimur stofnunum sem í upphafi átti að sameina gátu með engu móti reiknað það út að af þeirri sameiningu væri neinn hagnaður sjáanlegur.

Þeir lögðu samt í það af einhvers konar framtíðarhugsun að það væri rétt að sameina þessar stofnanir, það væri margt sem mælti með því annað en að hægt væri að reikna út eitthvert hagræði, einhvern sparnað. Það var nefnilega ekki hægt. Þeir gátu ekki fundið það út.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hefur hann farið yfir það með sérfræðingum sínum hvaða hagræðing fáist svo út úr því að bæta Byggðastofnuninni við þetta? Við höfum ekki séð neina útreikninga á því. Sáum það ekki í fyrravetur og ég hef ekki orðið var við að þetta hafi verið gert. Grunur minn er sá að það muni verða enn erfiðara að reikna út einhvern hagnað af því að bæta Byggðastofnuninni við hinar tvær sem átti að sameina en var að finna það út að það væri hægt að reikna út beinan hagnað af sameiningu þessara tveggja stofnana, sem ekki var hægt.

Nú spyr ég hæstv. ráðherra: Hefur hann farið yfir þetta með sérfræðingum sínum? Liggur eitthvað fyrir um það eftir sumarið, eftir alla vinnuna sem fór í að endurskoða málið í sumar, hvort það sé virkilega eitthvert hagræði af þessari sameiningu, og því sérstaklega að bæta Byggðastofnuninni við hinar tvær?