133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

varðveisla og miðlun 20. aldar minja.

227. mál
[12:48]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir þetta svar. Mín viðbrögð við því eru þau að flugminjasafn sé í sjálfu sér góðra gjalda vert og af hinu góða en mér heyrist af svarinu að áhersla stjórnvalda sé á þann þátt málsins.

Nú verður að segjast eins og er að minjar frá veru Bandaríkjahers á Íslandi eru af ýmsum toga öðrum en flugminjar. Hæstv. ráðherra segir að það þurfi að ganga úr skugga um það hvort einhvers staðar leynist þarna á Miðnesheiðinni annars konar minjar en flugminjar sem væru þess virði að vernda. Ég tel að stjórnvöld hafi brugðist við fullseint.

Sannleikurinn er auðvitað sá að Bandaríkjamenn hafa gengið þarna frá öllum hlutum á svipuðum nótum og gert var á Stokksnesi. Þó að öll hús hafi nú ekki verið rifin hafa menn tekið lausamuni og það sem þarna var og fjarlægt eða komið í lóg. Ég vil nefna í þessu sambandi stríðsminjasafnið á Reyðarfirði. Þar er vísir að safni um stríðsminjar sem er afar merkilegt safn. Það er ekki stórt en það hefur að geyma merkilegar minjar sem er gaman að skoða. Þar er ekki um neinar flugminjar að ræða. Þar eru annars konar minjar sem mér finnst í raun og veru sýna okkur og færa okkur heim sanninn um að þarna hafi verið gríðarlega merkilegt tækifæri sem við höfum því miður látið okkur úr greipum renna. Ég lýsi verulegum vonbrigðum með það.

Varðandi síðan greinargerð þjóðminjavarðar og hugmyndir hæstv. ráðherra, þjóðminjavarðar og yfirmanna fornleifaverndar um verndun og miðlun 20. aldar minja lýsi ég yfir ánægju minni með það að unnið skuli vera að þessari stefnumótun sem hæstv. ráðherra segir frá. Mér er kunnugt um vinnu sem hefur verið unnin innan húsafriðunarnefndar. Ég tel, og ætla að hafa það mín lokaorð, að hæstv. ráðherra þurfi að brýna svolítið kutana í þessum efnum og tryggja að 20. aldar minjarnar (Forseti hringir.) fái þann veglega sess sem þeim ber.