133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

forvarnir í fíkniefnamálum.

149. mál
[14:46]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Forvarnasjóður starfar á grundvelli 6. gr. laga nr. 18/2003, um Lýðheilsustöð, 3. gr. reglugerðar um landsnefnd og sérfræðiráð í Lýðheilsustöð og 7. gr. laga um gjald á áfengi, með síðari breytingum. Stjórn Forvarnasjóðs er í höndum áfengis- og vímuvarnaráðs sem gerir tillögu til heilbrigðisráðherra um styrkveitingar úr sjóðnum til verkefna á sviði áfengis- og vímuvarna. Framlag til Forvarnasjóðs á fjárlögum þessa árs eru 86,5 millj. kr. og 88,8 millj. kr. í frumvarpinu til fjárlaga 2007.

Ég vil taka það fram vegna orða hv. þingmanns að það var staðið við milljarðinn í fíkniefni og gott betur og það er alveg fráleitt að vera að horfa á Forvarnasjóð einangraðan í því tilfelli. Það eru miklu, miklu fleiri úrræði gagnvart forvörnum en Forvarnasjóður þannig að það var staðið við milljarðinn og gott betur og það hefur engum dottið í hug að tala um Forvarnasjóð einangraðan í því sambandi.

Með lögunum nr. 18/2003, um Lýðheilsustöð, var stigið það skref að færa alla starfsemi sem áður féll undir Áfengis- og vímuvarnaráð til Lýðheilsustöðvar. Ráðið starfar áfram sem fagráð og ráðgjafi fyrir þennan málaflokk hjá Lýðheilsustöð. Með lagabreytingunni var Lýðheilsustöð gerð að miðstöð vímuvarna í landinu og vinnur fræðsluefni um áfengi og önnur vímuefni fyrir almenning og stuðlar að samvinnu og samræmingu starfa á meðal allra þeirra sem sinna vímuvörnum.

Sem miðstöð forvarna hefur Lýðheilsustöð verið að eflast og þar með áherslan á forvarnir, m.a. vímuvarnir, og gildir þetta bæði um stofnunina faglega og fjárhagslega svo sem fram kemur í fjárveitingum til hennar. Fjárframlög hafa hækkað úr 146,2 millj. kr. á árinu 2004 upp í 195,4 millj. kr. samkvæmt frumvarpi til fjárlaga 2007.

Fyrir utan Lýðheilsustöð sinna ýmsar stofnanir sem heyra undir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið beinum forvörnum gegn fíkniefnum og óbeinum án þess að framlög til þeirra séu sérstaklega mörkuð þeim verkefnum. Landlæknisembættið sinnir t.d. tilteknum þáttum þessa máls með ýmsum hætti. Sama er að segja um heilsugæslustöðvar og heilbrigðisstofnanir. Þá veitir ráðherra einnig hluta af ráðstöfunarfé sínu til forvarna.

Með lögum um Lýðheilsustöð og samræmingu á sviði vímuvarna er það skoðun mín að við höfum stóreflt varnir á þessu sviði almennt talað. Ég vil hins vegar taka fram að á þessu sviði verður aldrei of mikið gert ef svo má að orði komast. Jafnmikilvægt og starf Lýðheilsustöðvar er er mikilvægt að efla starf heilbrigðisstofnana, skóla, félags- og dómsmálakerfisins og það þarf að efla starfsemi allra þeirra sem bera ábyrgð á þessu sviði, hvort sem það eru stofnanir, sveitarstjórnir, samtök, félög og síðast en ekki síst foreldrar og forráðamenn barna og ungmenna.

Þótt heilbrigðisráðuneytið fari með ýmislegt er snýr að þessum málum er alveg ljóst að það eru fjölmargir aðrir sem gera það og ég vil sérstaklega nefna að margt fellur undir félagsmálaráðuneytið en það ber ábyrgð á barnaverndarmálum og málefnum fjölskyldunnar. Vegna þessa ákvað ríkisstjórnin 18. júlí í sumar að fela hæstv. félagsmálaráðherra að leiða starf til þess að móta heildstæða forvarnastefnu hér á landi, þannig að það er félagsmálaráðuneytið sem leiðir það starf. Við eigum aðild að nefndinni sem þar er að störfum og það eiga fleiri aðild þar að, þ.e. dómsmálaráðuneytið, menntamálaráðuneytið og mér skilst að þar komi einnig að sveitarfélög, lögregluyfirvöld, skólayfirvöld, íþróttahreyfingin og aðrir sem stunda eða halda utan um tómstundastarf í landinu, eins og listnám og ýmislegt slíkt starf og líka fulltrúar foreldra. Það er því verið að vinna að mótun heildstæðrar forvarnastefnu hér á landi undir forustu félagsmálaráðuneytisins og sú vinna er að mér skilst frekar langt komin, það á að skila henni í þessum mánuði eins og ég skil málið miðað við þær upplýsingar sem ég hef fengið.

Ég vil því ítreka að við höfum verið að stórefla forvarnamál, við höfum lagt mjög aukið fjármagn til þeirra mála en ábyrgðin er auðvitað líka úti í samfélaginu, það er ekki neinn einn aðili sem ber ábyrgð á þessum málum. Upp á síðkastið hefur verið mikil umræða um ýmis efni, sérstaklega e-pilluna, það hefur verið talað um að færri e-töflur séu í umferð nú, en það er hugsanlegt að eitthvað hættulegra efni sé í umferð, a.m.k. skilst mér að lögregluyfirvöld séu að kanna það.

En ég vil ítreka að við höfum verið að efla forvarnastarfið almennt og í augnablikinu er verið að móta heildstæða stefnu á vegum félagsmálaráðuneytisins.