133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

236. mál
[19:43]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fæ tækifæri til þess að fjalla um málið í sjávarútvegsnefnd og þau atriði sem hér eru en mig langar samt að nefna nokkur atriði.

Það er í fyrsta lagi að hér er ráðherra að fá heimildir sem hann telur greinilega að hann hafi ekki haft fyrir, sem eru þær, svo ég komi nú fyrst að seinna málinu, þ.e. 2. gr., að heimildir ráðherra verði styrktar til að friða viðkvæm hafsvæði. Nú kann vel að vera að það sé rétt að þær verði styrktar með þessu móti en það er samt þannig að í þeim lögum sem fyrir hendi eru segir með mjög skýru orðalagi, með leyfi forseta:

„Ráðherra skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að sporna við því að stundaðar séu veiðar sem skaðlegar geta talist með tilliti til hagkvæmrar nýtingar nytjastofna.“

Orðið „skal“ hefur nú yfirleitt verið metið þannig í sölum Alþingis að það væri fyrirmæli um að þannig skuli að málum staðið.

Hæstv. ráðherra nefndi þá umræðu sem er á alþjóðavettvangi og líka hér heima um að taka þurfi betur á þessum málum en gert hefur verið og ég get svo sannarlega tekið undir það. En mér finnst þess vegna, af því að mér fannst hæstv. ráðherra vera í raun að taka undir þessi sjónarmið, skjóta meira en lítið skökku við að hann skuli hafa komið með þá nýbreytni þetta haustið að hleypa flottrollsveiðum á síld inn á Breiðafjörð og inn á svæði sem hefur verið fiskverndarsvæði í mörg ár, með umdeilt veiðarfæri sem sjómenn hafa meira og minna haldið fram að væri í raun að gera mikinn óskunda í síldveiðum, af því að það hafi svo mikil áhrif á veiðanleika síldarinnar, hún tvístrist vegna þessara flottrollsveiða.

Hæstv. ráðherra, sem nú mætir í þingið með hugmyndir um að fara að bregðast við þeirri umræðu að ganga betur um fiskstofnana, hafsbotninn og lífríkið, er nýbúinn að undirrita reglugerð um að hleypa flottrolli inn á Breiðafjörð, inn á fiskverndarsvæðin sem þar hafa verið án þess að ræða nokkuð við heimamenn sem hafa haft forustu fyrir því í mörg ár að viðhalda því fiskverndarsvæði sem þar er. Það eru margir sem hafa þá skoðun, og ég er m.a. einn af þeim, að sú framsýna stefna sem útvegsmenn á þessu svæði hafa haft í gegnum tíðina hafi bjargað Breiðafirðinum frá því að lífríkið þar mundi hrynja í kjölfar þess að menn fóru að nýta loðnustofninn á þann hátt sem raun ber vitni.

Þess vegna er þetta að mörgu leyti, að mér finnst, mistök hæstv. ráðherra sem mega ekki koma fyrir aftur. Ég hefði talið að í kjölfar þeirrar umræðu sem hefur verið um þetta hefði ráðherra miklu frekar átt að taka þá ákvörðun að banna alfarið veiðar á síld í flottroll af því að þar væru menn þó að láta fiskstofninn njóta vafans, ef einhver vafi er þá í raun og veru, um skaðleg áhrif flottrollsins á þessa fiskstofna. Það er með miklum endemum að Ísland skuli vera eina fiskveiðiþjóðin sem telur að það sé bara allt í lagi að hamast með flottroll um allt. Það eru yfirleitt alls ekki vera talin veiðarfæri sem nota eigi mikið af og engin ástæða til þess þar sem enginn vandi er að veiða síld í önnur veiðarfæri. Það hefur tekist í gegnum tíðina og reyndar tekist allt of vel stundum. Eins og menn vita var öll síld við Ísland ofveidd á sínum tíma einungis með litlum nótum. Það er ekki vandinn að ekki sé hægt að ná í síldina. Ef það væri vandinn þyrftu menn að velta því fyrir sér hvar menn væru staddir ef svona erfitt væri orðið að ná í þá síld sem má veiða. Ég held að sú spurning hljóti að vakna: Eru flottrollsveiðarnar farnar að hafa svo gríðarleg áhrif á veiðanleika síldarinnar að hleypa þurfi þessum flota inn í Kolluál til að ná í þá síld sem á þarf að halda í veiðunum?

Síðan er annað. Við höfum fengið af því spurnir að menn séu farnir að flytja þá síld sem var veidd í fyrra og hittiðfyrra og flutt til útlanda til geymslu þar, heim aftur til að bræða hana. Búið er að flytja 1.000 tonn inn í landið til að setja í gegnum bræðslu af því að hún selst ekki og von er á fleiri förmum hingað heim til þess að vinna svona. Á hvaða vegferð eru menn úr því svona er komið?

Ég tel ástæðu til að taka þetta mál upp og bið hæstv. ráðherra að útskýra það með góðum rökum hvers vegna í ósköpunum hann tók upp á þeirri nýbreytni og hvernig hún samræmist þeirri ræðu sem hann hélt áðan um að taka nú aldeilis mark á umræðunni sem fer fram í þjóðfélagi okkar og víða um heim um að menn þurfi að fara betur með lífríki sjávar.

Síðan langar mig að spyrja hæstv. ráðherra um eitt í sambandi við hitt málið, þ.e. deilistofnana, þar sem stendur í 1. gr., með leyfi forseta:

„Þá er ráðherra heimilt að ákveða að afli sem fæst á ákveðnu svæði, tilteknum tíma eða í ákveðna gerð veiðarfæra skuli teljast til tiltekins deilistofns.“

Nú er verið að tala um deilistofna. Það þýðir að aðrir en Íslendingar eiga þá hlut í þeim stofnum, eða ég hef skilið það þannig. Ég lít þá svo á að samkomulag þurfi um það hvernig menn ákveða hvaða fiskur tilheyri deilistofnum, og ég bið þess vegna hæstv. ráðherra að útskýra það aðeins betur þannig að ég skilji hvað þarna er á ferðinni. Getur komið upp einhver ágreiningur milli Íslendinga og annarra aðila í kjölfarið á svona ákvörðunum? Hvernig tekur hæstv. ráðherra ákvarðanir af þessu tagi, hvað er á bak við þær? Eru það ekki fiskifræðileg rök? Eru það ekki rannsóknir sem þurfa þá að styðja við þær ákvarðanir sem um er að ræða?

Að öðru leyti ætla ég að geyma mér að ræða þessi mál þangað til kemur að umræðunni í sjávarútvegsnefnd. En ég vildi nota þetta tækifæri því mér fannst þetta tækifæri akkúrat eiga við til að ræða það mál sem ég nefndi áðan, þ.e. þær nýju veiðiaðferðir í Kolluál sem hafa verið stundaðar í haust.