133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

siglingavernd.

238. mál
[19:38]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þó að þetta frumvarp til laga um siglingavernd eigi fyrst og fremst til að taka til ógnar af hryðjuverkum og öðrum ólögmætum aðgerðum og tryggja vernd skipa, áhafna, farþega, farms og hafnaraðstöðu fyrir hvers kyns ógn af þeirra völdum, tel ég að almenn öryggismál verði ekki aðskilin frá þessum þáttum frekar en öðrum sem lúta að öryggi og vernd skipa, farþega og farms. Þess vegna vil ég spyrja ráðherra í fyrsta lagi um þagnarskyldu, trúnað og annað, sem talið er upp í 7. gr., þeirra aðila sem koma að þessum málum um atriði sem þeir komast að og geta lotið að því sem ráðherra taldi upp hvað varðar trúnaðarskyldu. Nú er þetta ósköp einfalt hjá opinberum starfsmönnum, þeim sem ráðnir eru sem opinberir starfsmenn samkvæmt lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Þar er kveðið á um að þetta megi vera hluti af ráðningarsamningi. Ef þessi starfsemi verður hins vegar einkavædd eins og hluti af slíkri öryggisþjónustu er, tökum sem dæmi Neyðarlínuna, hluti af þeim verkefnum sem hún er með, og vaktstöð siglinga, sem er að hluta til einkavædd líka m.a. í gegnum Símann, hvernig lyti (Forseti hringir.) þagnarskyldan að einkavæddum aðilum sem tækju að sér hluta af þeirri þjónustu sem hér er um að ræða?