133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

siglingavernd.

238. mál
[20:14]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú svo að ríkið samanstendur af því fólki sem myndar þjóðina á hverjum tíma og ekkert er fullkomið í því. Varðandi þátt hv. þm. Ögmundar Jónassonar, sem þá var starfsmaður Ríkisútvarpsins, þá þykist ég muna það rétt að það hafi verið fulltryggt að allri öryggis- og viðbúnaðarþjónustu væri sinnt, ég man ekki betur en svo væri.

Við erum komnir svolítið út fyrir efnið, en engu að síður er alveg hárrétt hjá hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni að draga athyglina að því að það er sótt að því einkavæða öryggisnet þjóðarinnar, það er alveg hárrétt. Suma þætti í þjónustunni má einkavæða, þ.e. þann rekstur sem getur verið á samkeppnisgrunni, það er alveg rétt, en aðra ekki. Þess vegna er mjög mikilvægt að vera á varðbergi gagnvart þessari einkavæðingaráráttu sem ég held að þjóðin öll eða meginhluti þjóðarinnar sé búinn að fá meira en nóg af, þessari sífelldu einkavæðingu og markaðsvæðingu á almannaþjónustu sem skekkir bara þjónustustig og samkeppnishæfni byggða og heimila.

Já, Bifreiðaeftirlit ríkisins, ég er alveg sammála því að þar mátti finna ýmislegt að og breyta og var gert, og síðan fór það aftur inn til ríkisins. En ég heyrði fréttir núna á dögunum að skoðunum bifreiða væri farið að vera svo ábótavant að það væri farið að varða öryggi á þjóðvegum landsins. Þannig að það eitt hver fer með ræður ekki öllu. (Forseti hringir.) Núna heyrist mér að verið sé að gera (Forseti hringir.) kröfu á enn þá harðari opinber afskipti (Forseti hringir.) við skoðanir á bílum.