133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

háhraðanettengingar.

147. mál
[14:54]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Þetta gengur of hægt, það er enginn vafi á því. En það er annað sem ég hef líka áhyggjur af og það er að fjarskiptafyrirtækin taka ákvörðun um hvort þau vilji byggja upp þessi kerfi eða ekki og þá er spurningin: Á hvern hátt greiða þau fyrir aðgang að þeim háhraðatengingum sem þarna er staðið fyrir af Fjarskiptasjóði? Það verður að sjá til þess að fjarskiptafyrirtækin greiði eðlilega fyrir nýtingu á þeim gögnum eða fjarskiptamöguleikum sem verið er að koma á fót þarna af Fjarskiptasjóði. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort það sé ekki alveg á hreinu að það sé gert þannig að þessi fyrirtæki ýti ekki þessum framkvæmdum yfir á Fjarskiptasjóð af því að þau græði kannski á því.