133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:11]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra ágæt svör. Að sjálfsögðu svaraði hún ekki öllu og ég átti ekki von á því að til væri þekking hvorki hjá hæstv. utanríkisráðherra né hennar starfsfólki til að svara því. Varðandi loftvarnaratsjá þá talaði ráðherra um að Bandaríkjamenn mundu sinna þeim áfram eða stýra þeim áfram til 15. ágúst 2007. Það eru nýjar upplýsingar fyrir mér alla vega, ég hélt að þeir væru allir farnir blessaðir. Varðandi kostnað við rekstur loftvarnaratsjár og fleira talaði hæstv. ráðherra um hundruð millj. kr., jafnvel allt upp í einn milljarð þannig að hér er að koma fram aukinn kostnaður sem við höfum ekki heyrt um áður á Alþingi og maður fær óneitanlega á tilfinninguna að það eigi eftir að koma í bakið á okkur mun meiri kostnaður við að herinn fór.

Varðandi öryggisráðið þá hef ég enn þá, eins og ég lýsti yfir áðan, áhyggjur af því að utanríkisráðuneytið skorti þekkingu til að geta starfað þar, þar sem menn eru að tala um ófriðarástand og hernaðarátök og ég óttast því miður, herra forseti, að ráðgjafar okkar í öryggisráðinu verði áfram Bandaríkjamenn og þar af leiðandi munu þeir vera leiðandi fyrir þá ákvarðanatöku sem við tökum þar í framtíðinni, þ.e. ef við komumst í ráðið.