133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

stjórnarskipunarlög.

12. mál
[19:45]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar tekið öll mál fyrir, jafnt þingmannamál sem önnur, fengið umsagnir og rætt þau í nefndinni. Ég hallast að því að menn ættu að breyta núverandi fyrirkomulagi. Það ætti að vera það fyrirkomulag að öll mál séu unnin og afgreidd út úr nefnd. Það á að hætta að taka tillit til sálarheilla viðkomandi þingmanns sem flytur málið.

Þau yrðu þá afgreidd þannig að annaðhvort leggi nefndin til að þau yrðu samþykkt, þau sem meiri hlutinn eða nefndin öll vill samþykkja, eða þá að nefndin legði til að frumvarpinu yrði hafnað. Nefndin gæti lagt til að eitthvert frumvarp sem hún er ekki sammála um yrði fellt. Þá verður viðkomandi þingmaður bara að kyngja því að málið yrði fellt.

Það væri líka hægt að hafa þann möguleika að málinu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar til þess að vinna það betur og þá er það beiðni eða áskorun Alþingis að ríkisstjórnin vinni málið betur en þingmaðurinn gat. Væntanlega vegna sérþekkingar eða annars slíks. Eða þá að frumvarpinu verði vísað til þingmannsins til nánari og betri útfærslu ef mönnum finnst eitthvað ábótavant við vinnsluna. Svo gæti nefndin sjálf tekið málið upp á sína dagskrá og breytt frumvarpinu það mikið að henni líki vel við það.

En með slíku fyrirkomulagi værum við þó a.m.k. farin að taka afstöðu til allra mála. Ég er reyndar búinn að finna leið fram hjá þessu til að láta Alþingi afstöðu til mála. Það er að flytja breytingartillögu við stjórnarfrumvörp. Ég hef gert það varðandi lífeyrissjóðina. Ég geri það iðulega að láta menn fella það fyrir mér að sjóðfélagar eigi lífeyrissjóðina, ég hef svo gaman af því, af því ég spyr þá alltaf: Hver á þá, þá, ef sjóðfélagar eiga þá ekki?

Svo hef ég líka látið fella fyrir mér að sjóðfélagar skuli kjósa stjórn lífeyrissjóða beinni kosningu. Þannig að (Forseti hringir.) það er leiðin til að láta Alþingi taka afstöðu.