133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga.

223. mál
[15:33]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegur forseti. Það er leitt að heyra þessi mótmæli hv. þingmanns við þeim svörum sem hér hafa verið reidd fram. Ég rakti í svari mínu hvernig þetta mál er vaxið og hvað hefur verið gert í því frá því að þingsályktun var samþykkt hér í maí árið 2001.

Skýrslan um þetta mál, skýrsla nefndar Drífu Hjartardóttur, var send þingmönnum öllum í apríl árið 2005, og það er auðvitað rangt sem segir í fyrirspurn þingmannsins að fyrrverandi forsætisráðherra hafi sent fjölskyldunefndinni þetta þrátt fyrir vilja Alþingis. Alþingi hafði aldrei látið í ljósi neina skoðun á því hvort þetta mál mætti fara til athugunar í þeirri nefnd. (Gripið fram í.)

Eins og ég segi, ég hef lagt áherslu á það við þá nefnd að hún ljúki störfum sem fyrst og vonandi verður það þannig.