133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

hrefna og botnfiskur.

229. mál
[18:16]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu máli sem hefur verið mikið rætt í almennri þjóðfélagsumræðu eins og við þekkjum. Það stafar af því að fyrir þremur árum var hafist handa við svokallaðar hvalveiðar í vísindaskyni, m.a. til að varpa ljósi á það sem hv. þingmaður var að velta fyrir sér og velti upp í sinni ágætu ræðu áðan.

Ég held að það sé til að undirstrika þörfina á þessum rannsóknum að við ræðum þessi mál vegna þess að ég er alveg sammála hv. þingmanni að þetta er auðvitað einn þáttur þess sem við þurfum að skoða, eins og við ræddum áðan vegna fyrri fyrirspurnar hv. þingmanns.

Eins og menn vita standa yfir umfangsmiklar rannsóknir á vegum Hafrannsóknastofnunar sem hafa það að markmiði að varpa frekara ljósi á fæðuval hrefnu hér við land og minnka þar með óvissuna í mati á samspili hvala og fiskstofna. Sýnatökum vegna þessara rannsókna lýkur á næsta ári og er niðurstöðu að vænta á árinu þar á eftir, árinu 2008. Þangað til getum við ekki metið afrán hrefnu á bolfiski með fullkominni nákvæmni þó að við getum hins vegar gert okkur grein fyrir líklegri stærðargráðu út frá fyrirliggjandi upplýsingum, því að við vitum að þessar rannsóknir eru nú komnar verulega á veg, þ.e. rannsóknarveiðarnar. Af þessum ástæðum getum við kannski ekki gefið alveg nákvæmt svar við þessari spurningu núna.

Árið 1997 birtust í tímaritinu Journal of Northwest Atlantic Fishery Science tvær greinar eftir sérfræðinga Hafrannsóknastofnunarinnar þar sem leitast er við að meta afrán hvalastofna við Ísland og hugsanleg áhrif þeirra á afrakstur annarra nytjastofna, svo sem þorsk og loðnu.

Mat á heildarafráni var byggt á fyrirliggjandi talningargögnum frá árinu 1987–1995 um stofnstærðir 12 hvalategunda sem halda reglulega til við Ísland og gögnum um viðverutíma þeirra við landið. Vegna takmarkaðra gagna um fæðusamsetningu flestra þessara tegunda var ekki unnt að meta afrán á einstökum fæðutegundum og því aðeins greint á milli eftirtalinna þriggja fæðuflokka: fiskur, smokkfiskur og krabbadýr.

Niðurstaða þessa mats var að hvalir éta um 6 millj. tonna af fæðu árlega við Ísland og aðliggjandi hafsvæðum í átt að Jan Mayen og Færeyjum, þar af tæplega 3 millj. tonna af krabbadýrum, rúmlega 1 millj. tonna af smokkfisktegundum og rúmlega 2 millj. tonna af fiski. Hrefnan var atkvæðamesti afræninginn, bæði hvað varðar heildarmagn, 2 millj. tonna, og fiskát, 1 millj. tonna. Frumathuganir með fjölstofnalíkan bentu til að vöxtur hvalastofna gæti haft veruleg áhrif á langtímaafrakstur þorsks og loðnu en jákvæð áhrif á rækju gegnum þorskstofninn. Þessar niðurstöður voru þó mikilli óvissu háðar, ekki síst vegna lítillar þekkingar á fæðuvali hér við land. Þess vegna erum við m.a. að efna til þeirrar rannsóknar sem ég gerði hér að umtalsefni.

Gera má ráð fyrir að megnið af bolfiskáti hrefnu við Ísland fari fram á landgrunnssvæðinu og því eðlilegt að miða útreikninga á afráni við talningu á því svæði árið 2001. Þá voru 43.600 hrefnur, samkvæmt 95% öryggismörkum. Heildarafrán hrefnu á þessu svæði er metið um 1,4 millj. tonna á ári eða á bilinu 951 þús. tonn til tæplega 2 millj. tonna samkvæmt ofangreindum öryggismörkum.

Samkvæmt mjög takmörkuðum gögnum um fæðu hrefnu sem lágu fyrir áður en núverandi rannsóknir hófust, var bolfiskur metinn á bilinu 5–10% af fæðunni. Ef við gerum ráð fyrir að bolfiskur sé 7,5% af fæðunni gæti árleg neysla hrefnu verið á bilinu 70–140 þús. tonn af bolfiski.

Á þessu stigi er ekki unnt að gefa fyllra svar við framangreindri spurningu með nokkurri vissu. Mun nákvæmara mat mun fást út úr yfirstandandi hrefnurannsóknum þar sem m.a. verður tekið tillit til breytileika í fjölda hrefna og magainnihaldi eftir svæðum og árstímum. Frumniðurstöðugreining á magainnihaldi 2003–2006, sem kynnt var á ársfundi NAMMCO sem haldin var hér á landi á þessu ári, benda engu að síður til hærra hlutfalls bolfisks í fæðu hrefnu en vísbendingar voru um í eldri rannsóknum. En ég ítreka að þær upplýsingar munu liggja fyrir að loknu rannsóknarprógramminu árið 2007, þ.e. á árinu 2008.