133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[14:36]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að þetta atriði sem hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson byggir málflutning sinn á hafi líka verið tekið hér upp af hv. þingmanni við fjáraukalagaumræðuna með nákvæmlega sama hætti. (Gripið fram í.)

Ég held að ég hafi einmitt þá gefið hv. þingmanni svar um þetta málefni sem snýr að kostnaði sem hv. þm. Sigurjón Þórðarson var að ræða. Ef ég man rétt var hv. þingmaður að tala um lyfjakostnað, að það væri markmið að geta dregið úr honum, lyfjakostnaði ríkisins.

Ef mig brestur ekki minni, hv. þingmaður, þá held ég að það hafi verið Framsóknarflokkurinn sem réð Pál Pétursson í það að reyna að ná niður lyfjakostnaði hér á landi. Ég held að honum hafi orðið þó nokkuð ágengt í því.

Ég veit ekki til þess að það hafi verið farið beint út í að sjúklingar færu að greiða meira og ég held að það hafi ekki verið hugsun Sigurjóns Þórðarsonar, sem hv. þingmaður kallar jafnan heilbrigðisráðherraefni, (Gripið fram í: Kirkjumálaráðherraefni.) heilbrigðisráðherraefni ríkisstjórnarinnar. Hann hefur orðað þetta svona. Hann hefur ekki minnst á kirkjumálin þótt Sigurjón Þórðarson væri afar hæfur í því að gæta jafnræðis milli trúarsafnaða hér í landinu. Ég efa það ekki. Þess vegna hefur hv. þingmaður ekki hætt sér út á þá braut að nefna hann kirkjumálaráðherra.

En hitt liggur ljóst fyrir að hv. þm. Sigurjón Þórðarson er með heilbrigðustu mönnum hér á þingi. Hann er einhver mesti sundkappi sem hefur verið hér innan dyra og kann margt fyrir sér í íþróttum og hefur lengi starfað í æskulýðsstarfi, verið í íþróttasamtökum og ungmennafélögum. (Gripið fram í.)

Þannig að það liggur algerlega fyrir, hv. þingmaður að sá (Forseti hringir.) umræddi þingmaður sem þú nefnir er efnilegur til að takast á við þau mál sem þú ert að gefa honum nafngiftina að.

(Forseti (ÞBack): Forseti áminnir þingmenn um að ávarpa hæstv. forseta en ekki einstaka þingmenn úti í sal.)