133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[15:30]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var margt athyglivert í ræðu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, talsmanns Sjálfstæðisflokksins, við þessa umræðu og í fjárlaganefnd. Það er víða sem ég gæti komið við en þó er eitt sem stakk mig hvað mest og það er að hv. þingmaður var að fárast út í málflutning stjórnarandstöðunnar um misskiptinguna sem hefur átt sér stað í samfélaginu. Hann talaði eins og umræðan um misskiptingu og sú staðreynd að hér hafi einhver misskipting átt sér stað á undanförnum árum væri bara tal út í bláinn og það væri rangt.

Virðulegi forseti. Hann talaði líka um einhvern félagsfræðing úti í bæ. Bæði umræddur félagsfræðingur auk annarra fræðimanna í íslensku samfélagi hafa sýnt fram á að misskipting hefur aukist í samfélaginu, kaupmættinum sem mönnum er svo tíðrætt um og hv. þingmaður nefndi hefur verið gríðarlega misskipt. Þeir sem lægstar hafa tekjurnar hafa samkvæmt þessum rannsóknum ekki fengið nema um 26% kaupmáttaraukningu á meðan þeir sem hæstar hafa tekjurnar hafa fengið um 80% kaupmáttaraukningu.

Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann sé ósammála þessum niðurstöðum og hvort hann haldi því fram að kaupmáttaraukningin hafi komið jafnt til allra. Eða er hann ekki tilbúinn til þess í eitt skipti fyrir öll að standa hér í þessum stóli og viðurkenna að stjórnvaldsaðgerðir undanfarinna ára hafi haft áhrif í átt til misskiptingar, bæði á kaupmáttaraukninguna og líka á skattbyrðina?