133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[23:03]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel í ljósi þeirrar ræðu sem hér var haldin af hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að þessi fimm manna þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þurfi að samræma nokkuð málflutning sinn og líka í því hvernig þeir haga störfum sínum í hv. þingnefndum því að það sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sagði og sagðist tala fyrir hönd þingmanna Vinstri grænna í þessari umræðu samrýmist ekki málflutningi eða stefnu Jóns Bjarnasonar í þessum málum, svo það sé á hreinu.

Það er stefna fjárlaganefndar að standa vörð um hinar dreifðu byggðir. Við höfum staðið vörð og sagt að stofnanavaldið í Reykjavík einblíni oft ekki upp fyrir Elliðaárnar. Það verður einhver að standa vörð um hinar veiku byggðir. Við þekkjum málefni t.d. eins og Árneshrepps á Ströndum. Það er kannski valdafíkn og pólitísk spilling að framfylgja þingsályktunartillögu um að setja fjármuni til Strandamanna (Gripið fram í.) og í einstök verkefni þar? (Gripið fram í.) Ég vil heyra hv. þm. Jón Bjarnason taka undir með hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur sem telur það óeðlilegt (Gripið fram í.) að fjárlaganefnd hafi fjárveitingavald til þeirra verkefna.

Hún nefnir að það sé faglegt — og missir það reyndar út úr sér — og heiðarlegt fólk í þeim sjóðum sem eru að úthluta til þessara verkefna. (Gripið fram í.) Ég efast ekkert um það. En hvað liggur í þeim orðum þegar hv. þingmaður talar um valdafíkn, talar um að við séum að misfara með völd okkar með því að lækka virðisaukaskatt á geisladiskum vegna þess að það séu að koma kosningar? Þvílíkt og endemis bull er þetta.

Er það þannig að þegar … (Gripið fram í.) Það eru nú kosningar á fjögurra ára fresti, alþingiskosningar, má þá ekkert gera á því ári eins og að lækka verð á geisladiskum? Því miður lýsi ég yfir miklum vonbrigðum með málflutning hv. þingmanns og hvet hv. þingmenn til að samræma (Forseti hringir.) málflutning sinn um störf fjárlaganefndar.