133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

Flugmálastjórn Íslands.

390. mál
[15:55]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir orð hæstv. ráðherra um að það sé mjög mikilvægt að flugfélög okkar hafi sem besta samkeppnisstöðu og hafi möguleika til öflugs starfs í þjónustu sinni okkur öllum til hagsbóta.

Þessi umsögn frá fjármálaráðuneytinu sem hæstv. ráðherra vitnaði til segir bara ekki neitt, hún er gjörsamlega blönk, þannig að það er varla hægt að hugsa sér lélegri og aumari umsögn frá fjármálaráðuneytinu. Við rekum okkur æ oftar á það að umsagnir fjármálaráðuneytisins um kostnað vegna frumvarpa eru meira og minna út í bláinn og þegar til kastanna kemur er allt öðruvísi. Ég tala nú ekki um þegar verið er að skipta félögum upp, einkavæða hluta og hluti er áfram í ríkisrekstri, sameina stofnanir á óhagkvæman hátt o.s.frv. og þá hafa þessar kostnaðaráætlanir fjármálaráðuneytisins meira og minna verið út í bláinn. Ég held að ástæða sé til að þar á bæ fari menn að huga betur að. Hvað þýðir t.d. þetta: „Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð“? Hvað þýðir að það verði ekki séð? Mér finnst þetta engin umsögn og þetta verður sjálfsagt tekið fyrir í hv. samgöngunefnd þegar við fáum frumvarpið þangað.

Ég vil t.d. benda á að ein gjaldtökuheimildin hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Sérstakrar þjónustu sem óskað er vegna vottunar, viðurkenningar, prófunar eða veitingar heimilda, samkvæmt föstu gjaldi á hverja unna klukkustund.

Við ákvörðun gjalda skal leggja til grundvallar kostnað vegna launa og launatengdra gjalda, aksturs, þjálfunar og endurmenntunar, aðkeyptrar sérfræðiþjónustu, húsnæðis, starfsaðstöðu, fjarskipta, búnaðar og tækja, stjórnunar- og stoðþjónustu og alþjóðlegrar samvinnu í þágu flugrekstrar auk ferða og uppihalds.“

Þetta er býsna opin heimild. Þetta markaðsvæðingarferli sem hér er lagt upp með (Forseti hringir.) á því eftir að kosta okkur drjúgt, frú forseti.