133. löggjafarþing — 36. fundur,  24. nóv. 2006.

málefni Umhverfisstofnunar í kjölfar skýrslu Ríkisendurskoðunar.

[16:41]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Með stofnun Umhverfisstofnunar var verið að sameina fjórar stofnanir í eina, þ.e. Náttúruvernd ríkisins, embætti veiðistjóra, Hollustuvernd ríkisins og hreindýraráð.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er getið ýmissa jákvæðra atriða í rekstri stofnunarinnar, m.a. að þar sé góð fagleg þekking og að sameining hafi stuðlað að bættri nýtingu þekkingar í stofnuninni. Það kemur líka fram í skýrslunni að stofnunin veiti almennt góða þjónustu.

Ég vil vekja athygli á nokkrum atriðum sem fram komu í máli hæstv. umhverfisráðherra áðan í kjölfar þessarar skýrslu Ríkisendurskoðunar. Í fyrsta lagi telur ráðherra að það þurfi að breyta og einfalda skipurit stofnunarinnar. Í öðru lagi má ráða af máli hæstv. ráðherra að það sé ástæða til að leggja meiri áherslu á stjórnsýsluhlutverk stofnunarinnar fremur en sérfræðihlutverk. Það sem kannski er athyglisvert er að þessar stofnanir hafa haldið áfram að starfa eins og þær séu sjálfstæðar en ekki ein eining og ég held að það þurfi að lagfæra. Í þriðja lagi liggur fyrir að verkbókhald hefur verið tekið upp í kjölfar skýrslu Ríkisendurskoðunar og er það vel. Ég tel sömuleiðis vert að athuga hvort ekki sé ástæða til að skoða það að sameina allt heilbrigðiseftirlit þannig að það verði á vegum ríkisins.

Það sem er hins vegar merkilegast við þessa umræðu, hæstv. forseti, er að hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni tókst að halda hér ræðu án þess að minnast á sölu ríkisbankanna, án þess að minnast á kvótakerfið og án þess að minnast á Framsóknarflokkinn. Ég tel að þetta sé í fyrsta skipti frá því að hv. þingmaður var kjörinn á þing sem honum tekst að halda ræðu án þess að minnast á eitthvert þessara atriða.