133. löggjafarþing — 36. fundur,  24. nóv. 2006.

málefni Umhverfisstofnunar í kjölfar skýrslu Ríkisendurskoðunar.

[16:50]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það er kannski rétt að taka fram í upphafi ræðu minnar að auðvitað er margt ágætt og gott sem fram fer í Umhverfisstofnun. En það er ekki hægt að líta fram hjá því að markmiðið með stofnuninni hefur ekki gengið eftir, þ.e. að bæta stjórnsýsluna, og þegar höfuðmarkmiðið næst ekki verða menn að horfast í augu við það. Það stendur einfaldlega á bls. 42 í skýrslunni að þetta sé ekki einungis mat Ríkisendurskoðunar heldur einnig ráðuneytisins. Það segir hér, með leyfi forseta:

„Umhverfisráðuneytið hefur bent á að Umhverfisstofnun bregðist stundum seint við beiðnum frá ráðuneytinu og leggi of litla áherslu á lögfræðilegu hliðina.“

Áfram segir:

„Ráðuneytið bendir enn fremur á að forgangsröðun Umhverfisstofnunar sé ekki nægjanlega skýr og t.d. hafi hún vanrækt verkefni sem beinast að vörnum gegn mengun sjávar.“

Þetta er því einnig dómur ráðuneytisins. Enn fremur segir á bls. 46:

„Meðal viðskiptavina Umhverfisstofnunar er nokkuð kvartað undan því að stofnunin svari seint erindum sem beinast til hennar.“

Það er ekki hægt að líta fram hjá því að stofnað var til Umhverfisstofnunar til að bæta stjórnsýsluna en meginefni þessarar greinargerðar Ríkisendurskoðunar er að það hafi bara alls ekki tekist.

Það er vert að líta almennt á það hvernig til hefur tekist þegar ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur verið að sameina stofnanir og það hefur oftar en ekki tekist illa. Meðal annars er vert að benda á það þegar sjúkrahúsin á höfuðborgarsvæðinu voru sameinuð, það átti að leiða til sparnaðar. Hvað gerðist? Aukinn kostnaður. Hvað gerðist hér þegar steypt var saman fjölda stofnana án þess að búið væri að undirbúa málið? Meginmarkmiðið tókst ekki og á því verða einhverjir að bera ábyrgð. Mér finnst að hæstv. ráðherra ætti að gera okkur grein fyrir því (Forseti hringir.) hvernig menn ætla að líta á þennan vanda og bregðast við honum.