133. löggjafarþing — 36. fundur,  24. nóv. 2006.

skattlagning lífeyrisgreiðslna.

382. mál
[18:03]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um breytingar á skattlagningu lífeyrisgreiðslna. Tillagan er vel meint en því miður byggir hún á misskilningi og er auk þess félagslega mjög ósanngjörn.

Greiðslur í lífeyrissjóði hafa ætíð verið frádráttarbærar frá skatti, utan sjö ár þar sem 4% launþegans voru ekki frádráttarbær til skatts en þau voru sett inn í persónuafsláttinn á þeim tíma en hann var hækkaður stórlega til þess að mæta því. Annars hafa 4% og 6% atvinnurekenda ætíð verið skattfrjáls og þar af leiðandi er fjármagnið í lífeyrissjóðunum óskattað.

Nú skulum við hugsa okkur að maður nokkur hafi einhvern tíma í fyrndinni átt 1 þús. kr. og við skulum gefa okkur til einföldunar að skattprósentan hafi verið 40%. Ef hann lagði í lífeyrissjóð gat hann lagt 1 þús. kr. í lífeyrissjóðinn. Ef hann hins vegar lagði ekki í lífeyrissjóð hefði hann þurft að borga skatta og átt þá 600 kr. eftir. Inneignin í lífeyrissjóðnum var sem sagt 66% hærri.

Nú skulum við gefa okkur það að maðurinn hafi ætíð náð sömu ávöxtun á þetta fé eins og lífeyrissjóðurinn og keypt fyrir það spariskírteini. Þá á hann alltaf 66% meira í lífeyrissjóðnum en í frjálsum sparnaði. Þegar kemur að því að hann tekur lífeyrinn úr lífeyrissjóðnum á hann 66% meira þar, og þá á sem sagt eftir að skatta það. Þá er eðlilegt að tekinn sé 40% skattur af því þegar það er greitt út og þá er maðurinn jafnsettur, nema í lífeyrissjóðnum hefur hann ekki borgað fjármagnstekjuskatt eins og hann hefði gert ef hann hefði verið með þetta í frjálsum sparnaði. Hann er því verr settur að hafa sparað utan lífeyrissjóðanna en innan þó að hann borgi fullan tekjuskatt af upphæðinni. (Gripið fram í: Er þetta allt sami maðurinn?) Þetta er sami maðurinn, já.

Ég er bara að sýna fram á að það verður að skatta greiðslurnar úr lífeyrissjóðum þegar þær koma til útgreiðslu til að hann sé eins settur og ef hann hefði lagt féð í frjálsan sparnað, vegna þess að fjármagn lífeyrissjóðanna er algjörlega óskattað, það er frestuð skattlagning. Ég skil nú ekkert í því að þeir menn sem vilja gæta hagsmuna ríkissjóðs og vilja skatta, kannski ekki sem mest en vilja skatta duglega, séu að leggja til skattfrelsi af þessum upphæðum.

Svo kemur hinn þátturinn, herra forseti, sem er enn þá verri. Ef menn mundu gera þetta og greiðslur úr lífeyrissjóðunum yrðu að hluta til með fjármagnstekjuskatti þá mundi það fólk sem er með lægstar tekjurnar — vegna þess að ekki er persónuafsláttur í fjármagnstekjuskattinum — allt í einu fara að borga skatt af lífeyrisgreiðslunum. Þar er ekkert frítekjumark þannig að þeir sem eru með tekjur upp á 100 þús. eða 120 þús. kr. og hluta af því úr lífeyrissjóði, þyrftu að fara að borga fjármagnstekjuskatt sem væri meiri en tekjuskatturinn sem þeir greiða í dag. Hins vegar yrðu þeir sem eru með 300 þús. eða 400 þús. kr. úr lífeyrissjóði að miklu leyti skattfrjálsir.

Ég veit ekki hvort það hefur virkilega verið markmið þeirra sem fluttu þingsályktunartillöguna að auka skattlagningu á lágtekjufólkið og létta henni af hátekjulífeyrisþegum, og þeir eru nokkrir til og þó nokkuð margir. Tillagan byggir því á miklum misskilningi.