133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[15:28]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Um þetta liggja öll gögn fyrir. Við vitum nákvæmlega hvað hefur gerst á umliðnum árum. Umliðin 10–12 ár eru þau farsælustu í sögu Íslands. Það hefur aldrei fyrr tekist að bæta kjör og kaupmátt Íslendinga meira en á þessu tímabili. Það hefur aldrei tekist fyrr að bæta svo og treysta almannatryggingakerfið eins og okkur hefur tekist á þessu tímabili. Þökk sé efnahagslífinu. Þökk sé hversu vel hefur tekist til við íslenskt efnahagslíf. En það er lykillinn að því að við getum rekið hér velferðarsamfélag. Það er þess vegna sem við erum rík þjóð. Það er þess vegna sem við getum stutt og stuðlað að miklu velferðarsamfélagi.

Þjóðir sem ekki geta stjórnað fjármálum sínum geta ekki bætt kjör þegna sinna. Þjóðir sem ekki kunna fótum sínum forráð geta ekki byggt upp almannatryggingakerfi eins og við höfum gert.