133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

stuðningur við innrásina í Írak.

[15:15]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin. Það eru nýjar fréttir í málinu, sem ríkisstjórnin kemst ekki undan, að atbeini Íslands við styrjaldarreksturinn í Írak stendur enn að þessu leyti, að í gildi er samþykki ríkisstjórnarinnar við því að íslensk lofthelgi og íslenskir flugvellir séu notaðir til þessara aðgerða.

Hvað er þá orðið um endurskoðun Framsóknarflokksins sem fer með utanríkisráðuneytið? Það eru innstæðulaus orð ef ekkert hefur breyst. Engin afsökunarbeiðni. Engin viðleitni til að fá okkur tekin af listanum sem hæstv. utanríkisráðherra reynir alltaf að segja að sé ekki til. Það sem hefur raunverulegt gildi og felur í sér raunverulega aðild Íslands að þessum aðgerðum, þ.e. heimildin til að nota hér lofthelgi og flugvöll, er enn í gildi.

Atbeini ríkisstjórnarinnar að styrjaldarrekstrinum í Írak er sem sagt enn við lýði og hæstv. forsætisráðherra gat engu (Forseti hringir.) um það svarað hvort til stæði að endurskoða það.