133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

fyrirspurnir til ráðherra.

[15:38]
Hlusta

Forseti (Sólveig Pétursdóttir):

Forseti vísar því algjörlega á bug að hér hafi ekki verið staðið eðlilega að verki. Það eru ýmsar forsendur að baki því hvernig valið er hvaða óundirbúnar fyrirspurnir eru teknar fyrir, frá hverjum og til hvaða hæstv. ráðherra þeim er beint. Það eru ákveðnar verklagsreglur sem hv. þingmenn geta kynnt sér hvenær sem þeir óska eftir.

Varðandi þessar athugasemdir er það auðvitað þannig að hv. þingmenn Frjálslynda flokksins verða að hlíta reglum þingskapa rétt eins og aðrir þingmenn. Það er alveg skýrt í 49. gr. þingskapa að í „allt að hálftíma á fyrir fram ákveðnum fundi getur forseti heimilað þingmönnum að bera fram munnlegar fyrirspurnir til ráðherra“. Þessi umræða hófst nákvæmlega fjórar og hálfa mínútu yfir þrjú þannig að þessum tíma var lokið, eins og forseti greindi frá.

Þar að auki getur forseti greint frá því að fleiri fyrirspurnir komust ekki að undir þessum dagskrárlið og þó höfðu þær fyrirspurnir borist fyrr en þessi fyrirspurn frá hv. þingmanni.